04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

12. mál, áfengislög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það virðist svo sem það hafi vakað fyrir hæstv. dómsmrh., þegar hann lagði þetta frv. fyrir Alþ. nú í haust, að það væri ætlunin að móta frv. nokkuð í anda 1. gr. þess, sem sé að stuðla að hóflegri meðferð áfengis og vinna gegn misnotkun þess, þar sem hann þó frá því í fyrra hafði látið breyta því á þann veg, að ekki væri veitt heimild til bruggunar áfengs öls í landinu. Svo er líka að sjá, að hv. Ed., þ.e.a.s. sú n., sem um málið fjallaði þar, hafi talið fara betur á því, að frv. yrði sjálft ekki í æpandi mótsögn við 1. gr. þess, og það fer óneitanlega betur á því yfirleitt, að 1. gr. frv. marki meginstefnu þess. Það er meira að segja lagt svo mikið upp úr því, að jafnaðarlegast er frv. talið fallið, ef þd. fellir 1. gr. Það er sem sé alveg reiknað með því, að frv. allt eigi að vera í samræmi við efni 1. gr. Nú hvarflaði það einmitt að þd., sem fjallaði um málið í Ed., að það væri nokkurt ósamræmi milli 1. gr. og frv. alls að öðru leyti, því að svo virtist yfirleitt sem frv., að frá tekinni 1. gr., stuðlaði að óhóflegri meðferð víns heldur en áður hefði verið í landinu og ynni jafnvel að því að auðvelda misnotkun áfengis. Ég held, að hv. allshn. Ed. hafi verið algerlega á réttri leið, þegar hún fann, að það var eiginlega nauðsynlegt, til þess að samræmi væri í hlutunum, að fella 1. gr. niður.

Hv. þd. taldi þó ekki ástæðu til þess að gæta þessa samræmis og ákvað að samþykkja gr. lítið eitt breytta á þann veg, að það skyldi vera tilgangur frv. að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og að útrýma því böli, sem henni væri samfara, en það er alveg áreiðanlegt, að þó að þessi orðalagsbreyting hafi verið gerð á 1. gr., þá er jafnæpandi ósamræmi milli hennar og frv. að öðru leyti. Það er víst og satt, að ef hv. Nd. ber ekki gæfu til þess að breyta frv. aftur í verulegum atriðum, þá fer langbezt á því, að 1. gr. verði þó felld niður, því að það er óviðkunnanleg hræsnisblæja, sem lögð er yfir málið allt, og er til stórra bóta að svipta henni þó í burtu.

Strax þegar 1. gr. sleppti og kom að því að afgreiða næstu gr. frv., 2. gr., þá varð það ofan á hjá Ed. að breyta skilgreiningunni á hugtakinu „áfengur drykkur“. Það, sem miðað var við í frv., var gutl, sem ekki gat heitið áfengi og súrnaði við geymslu. — Það var nú helzt hætta á, að þessir menn geymdu áfengi. — Nei, það var bara gutl, sem ekki þoldi geymslu, og þeir, sem væru þannig gerðir, að þeir færu að geyma svona vökva, en helltu honum ekki í sig strax, þyrftu að hafa þann möguleika opinn, að varan skemmdist ekki. 21/2% olli vöruskemmdum og tjóni, og varð ekki við það unað, og það varð að hækka áfengisprósentuna í öli, sem væri framleitt hér á landi, þannig að það héti ekki áfengur drykkur, þó að það væri allt upp í 4.4% að vínandainnihaldi. Þá súrnar það ekki, þó að það sé geymt. Nú mun það vera þannig, að 21/4% ákvæðið í gildandi áfengislöggjöf á Íslandi mun vera í samræmi við alþjóðaskilgreiningu á því, hvað skuli teljast áfengur vökvi, og það er þess vegna ekki talið viðunandi hér að hlíta alþjóðlegri skilgreiningu á því, hvað skuli beita áfengi, og þarf nálega að tvöfalda það samanborið við það, sem gildir hjá öðrum þjóðum. Þetta hefur hv. Ed. fallizt á og telur vafalaust vera ákvæði til þess að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu. Hver sá, sem drekkur ölflösku með 4.4% áfengisinnihaldi í staðinn fyrir 21/4% áður, er að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu samkvæmt skilningi brennivínsberserkjanna í hv. Ed., en ekki að skilningi annarra.

Ég held nú, að það sé alveg óhætt fyrir Ísland og Íslendinga að halda sér við alþjóðlega skilgreiningu á því, hvað sé áfengi, og láta það vera í samræmi við löggjöf annarra þjóða, og held, að það verði nú að treysta á það, að hv. Nd. sjái enga ástæðu til að fallast á þá nauðsyn, að við verðum að hafa aðra skilgreiningu á því, hvað sé áfengur drykkur, heldur en aðrar þjóðir. Svo mikil nauðsyn getur varla veríð á því, að hægt sé að drekka sig fullan í öli.

Það var mjög eðlilegt, að hv. 11. landsk. þm. spyrði hæstv. dómsmrh. að því, hvað margir veitingastaðir það mundu verða, t.d. hérna í Reykjavík, sem fengju það hlutverk að draga úr misnotkun áfengis í landinu með því að taka upp veitingar áfengis, en hæstv. dómsmrh. hafði ekki einu sinni gert sér grein fyrir því. Hann sagði, að þetta kæmi allt undir því, hvað bæjarstjórnirnar og áfengisvarnanefndirnar úti um landið gerðu, en þær eiga samkvæmt 12. gr. að segja sitt álit á því, hvaða veitingastaðir í viðkomandi bæjarfélagi fullnægi skilyrðum l. til þess að geta fengið áfengísleyfi, en þó að bæði bæjarstjórn og áfengisvarnanefnd segi: Nei, við viljum ekki mæla með neinu veitingahúsi í okkar bæjarfélagi til þess að fá slíkt leyfi — þá gæti dómsmrh. eftir orðalagi 12. gr. samt sem áður veitt það. Hann gæti vel verið þannig sinnaður, að hann teldi það nauðsynlegt fyrir viðkomandi bæjarfélag að hafa einn eða fleiri staði, þar sem hægt væri að fá keypt áfengi. Það er ekkert furðulegra fyrirbrigði í mannlegum hugsunarhætti heldur en þegar hv. efrideildarþm. telja nauðsynlegt, að það sé a.m.k. 4.4% áfengisinnihald í ölinu, sem þeir drekka. Þetta fer alveg eftir afstöðu manna til þessara mála. Það er sem sé mögulegt, þó að bæði áfengisvarnanefnd og bæjarstjórn séu sammála um að neita um að mæla með nokkru vínveitingahúsi, að dómsmrh. gæti samt veitt leyfið, og það skildist mér hæstv. ráðh. játa áðan. Það var lagt mikið upp úr. því, að það mætti því aðeins veita veitingahúsi slíkt leyfi, að það hefði á boðstólum mat auk fjölbreyttra óáfengra drykkja. Allar sjoppurnar í Reykjavík, á hverju götuhorni hérna, hafa fjölbreytta óáfenga drykki, þær selja Coco-cola fyrir framleiðendur þess, og þær selja ölið frá Agli Skallagrímssyni, sem súrnar enn þá, og þær selja ávaxtasafa alls konar, þær fullnægja skilyrðinu að því leyti. Þá segja menn: Þær hafa ekki matsölu almennt. - Þær geta hæglega sett' upp matsölu fyrir 2–4–6 kostgangara og sagt: Við fullnægjum skilyrðinu. — Við getum þannig fengið áfengisveitingastaði á hverju götuhorni, í öllum sjoppum, hvar sem er í Reykjavík, og það mætti vera harðsvíraður dómsmrh. og andvígur því að veita veitingaleyfi, ef þessir staðir fullnægðu skilyrðunum bæði um matsölu og fjölbreytta sölu óáfengra drykkja. Ágætlega stigið sporið til þess að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu!

En þá kemur að því, að það sé þó enn þá einn slagbrandur fyrir, sem loki möguleikunum til þess, að hvert veitingahús geti fengið leyfi. Það er þetta: að samband veitinga- og gistihúsaeigendanna sjálfra á að kveða upp dóm um það, að veitingahúsin séu fyrsta flokks. Stjórn Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda kveður upp dóm, og við skulum segja, að nú velti á þessu, hvort vínveitingaleyfið fáist eða ekki. Á hverjum slíkum stað eru allir veitingahúsaeigendurnir sjálfsagt í þeim stéttarfélagsskap, — ég geri ráð fyrir, að þeir séu svo stéttvísir, — og þeir kjósa sína stjórn, og svo tæki sú stjórn upp á því að úrskurða meiri eða minni hluta af félagsmönnunum í 2. flokk: Þú ert ekki 1. flokks, góði minn, þú færð ekki meðmæli til þess að mega selja áfenga drykki. — Það er nú rétt eins og var skotið að mér áðan af einum þm. hér í gamni og alvöru: Nú, stjórnin yrði auðvitað felld á næsta aðalfundi og séð um, að önnur skárri væri kosin, sem færi ekki að dæma sína meðbræður í 2. flokk. — Ekki nóg með — það. Eins og hv. þm. Borgf. vék hér að áðan, þá er það alveg víst mál, að þegar búið væri að dæma eitt veitingahús í 2. flokk, mundi draga úr möguleikunum til almennrar aðsóknar. Viðkomandi veitingahús hlyti að fara í skaðabótamál, teldi þetta atvinnuróg gegn sér, og það mundi rigna þarna skaðabótamálunum og atvinnurógsmálunum á þessa vesælu stjórn veitinga- og gistihúsaeigenda. Ég hygg, að það yrðu fáar stjórnirnar, sem vildu eiga yfir höfði sér að taka á sig slíka ábyrgð. Það er alveg greinilegt, að stjórnin yrði að viðurkenna öll veitingahús; klósettlausu gistihúsin og veitingahúsin, sem hafa ekki neina sómasamlega afgreiðslu til þess að geta heitið veitingahús, yrðu öll dæmd 1. flokks af réttbærum aðilum samkvæmt l. til þess, og viðkomandi stjórn ætti einskis annars kost. Og þegar búið er að fá þetta veitingaleyfi, þá verður það ekki tekið af viðkomandi aðila í bráð; það veitingaleyfi gildir til fjögurra ára. Það er sjálfsagt hugsað um, að það sé eitt kjörtímabil, vegna einhvers drykkfellds þingmanns eða einhvers svoleiðis; það er eitthvað slíkt haft í huga. Það er kjörtímabilið, sem leyfið á að gilda fyrir. (Forseti: Ég sé mér ekki fært annað en að beina þeim tilmælum til .hv. þm. að gæta hófs í ummælum um þingbræður sína.) Ég vil vona, að ég hafi ekki sært hæstv. forseta.

Núverandi ástand í áfengismálum er óviðunandi, segir hæstv. dómsmrh., og það er vafalaust rétt. En ástandið í áfengismálum á Íslandi hefur lengstum verið óviðunandi, af því að ekki hefur tekizt að skapa það almenningsálit í landinu, að menn yrðu að gjalda mjög varhuga við ofneyzlu áfengis, og það hefur ekkert verið gert ofan frá til þess að skapa í þjóðfélaginu slíkt almenningsálit. En mér finnst engar líkur benda til þess, að þetta ástand hafi allt í einu orðið óviðunandi við það, að það eina veitingahús, sem áður hafði leyfi til að selja áfengi, var svipt því leyfi. Það hefur varla getað haft slík áhrif á þjóðlífið, að við þá einu ráðstöfun hæstv. núverandi dómsmrh. hafi þetta núverandi óþolandi ástand skapazt. A.m.k. tel ég víst, að fyrir hæstv. dómsmrh. hafi ekki vakað að skapa neitt óviðunandi ástand í landinu með þeirri aðgerð, heldur hafi hann gert sér vonir um, að hann væri með því að bæta ástandið. En nú kann honum að hafa skjátlazt í þessu, en þá væri, til þess að koma því í það viðunandi ástand, sem það var í áður en þetta núverandi óþolandi ástand skapaðist, hægurinn hjá að veita Hótel Borg aftur leyfið, og þá er ekki vandasamt að ráða bót á þessu. En nú er ég sannfærður um það, að það hefur frá öndverðu vakað fyrir — ja, allfjölmennum hópi manna hér á fandi — að fá sams konar aðstöðu og Hótel Borg hafði, og það er líka meginbreytingin í núverandi frv., samanborið við gildandi áfengislöggjöf, að það er ekki aðeins Hótel Borg, heldur nálega hvert einasta veitingahús í landinu, sem sennilega getur fengið veitingaleyfi, ef þetta frv. verður að lögum í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir, og þá gera menn sér vist vonir um, að viðunandi ástand skapist í áfengismálum.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri þörf á einhverjum betri reglum en þeim, sem nú giltu, um sölu og meðferð áfengis, og það er alveg rétt. En ég bara sé hvergi örla á þeim betri reglum í þessu frv. — á þeim reglum, sem séu líklegar til þess að geta stuðlað að hóflegri notkun áfengis eða unnið gegn misnotkun áfengis eða gert lögregluliði landsins fært að halda hér uppi góðri reglu gagnvart ölkærum mönnum, — vonandi má nefna ölkæra menn, þó að ekki megi nefna drykkfellda þm. Hvort tveggja er þó vissulega til.

Ég held, að það verði að koma einhverjum slíkum reglum inn í þetta frv. — einhverjum betri reglum en nú gilda, og þá er spurningin, hvort þær reglur eiga að fara í þá átt að gera sölu og framleiðslu áfengra drykkja sem almennasta og auðveldasta eða hvort það eigi að reisa sem rammastar skorður við framleiðslu og sölu og dreifingu áfengis í landinu. Og um þetta togast menn á. Það sjónarmið virðist hafa orðið ofan á í hv. Ed., að það væri um að gera til þess að koma þolanlegu ástandi á í þessum málum að gefa þetta sem allra frjálsast, hafa reglurnar sem rýmstar, veita fullkomið frelsi. Ég hlustaði á það í Ed., að því var haldið þar fram, að það yrði ekki gott ástandið í þessum málum, fyrr en vin væri selt í hverri búð, þar sem selt væri kaffi og te, og einnig í öllum veitingastöðum, og það yrði líka að fást bæði á nóttu og degi. Þess vegna yrði a.m.k. önnur vínbúðin í Reykjavik að vera opin allan sólarhringinn. Þetta voru hugmyndir þess hv. þm. um það, hvað þyrfti til þess, að yrði hér reglulega gott ástand í áfengismálum. En svo voru aftur aðrir og eru meðal þjóðarinnar aðrir, sem halda, að sem mestar hömlur séu þó einna líklegastar til þess að mæta þessum leiða veikleika Íslendinga til ofneyzlu áfengis, það sé, að það fáist sem óvíðast og að sá daglegi drykkur manna, ölið, sé ekki áfengur drykkur. Ég trúi því naumast, að þeir menn, sem halda þessari óheftu frjálsræðiskenningu fram, séu sannfærðir um það sjálfir, að hún sé rétt. Ég held, að þeir mæli þetta alveg hiklaust gegn betri vitund. Þeir hafa fyrir sér reynslu undanfarinna ára og áratuga. Þetta eru engin börn. Þeir vita, að því var haldið fram, áður en Spánarvínin voru lögleyfð hér á landi, þessi léttu, suðrænu vín, að þau mundu draga stórlega úr drykkju brenndra, sterkra drykkja, og þá yrði miklu minna um siðlaust fyllirí á Íslandi. Reynslan síðan — hvað segir hún? Hún segir það, að sterku drykkjunum varð ekki útrýmt með þessu. Drykkja þeirra jókst, og léttu vínin bættust við.

Það átti að veita læknum sérstakar heimildir til útgáfu vínresepta. Það átti að verða til þess að draga úr áfengi. Það varð til þess að spilla ástandinu.

Allar rýmkanir hafa aukið drykkju hér á landi, og það væri löngu búið að brjóta niður öll bindindissamtök í landinu, ef menn ekki undir niðri viðurkenndu það, að þau hefðu unnið nytsamt menningarstarf, sem þjóðin stæði þó, þrátt fyrir allt, í þakkarskuld við þessi samtök fyrir. Það væri búið að ryðja þessum samtökum burt, segi ég, ef menn væru sannfærðir um, að þær hömlur, sem þau leggja á menn, það starf, sem þau inna af hendi til þess að aftra mönnum frá vínneyzlu, væri til þess að espa menn til víndrykkju og yki víndrykkjuna í landinu.

Mér þætti það a.m.k. nýstárleg kenning frá hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) eða öðrum samkeppnismönnum, ef þeir héldu því allt í einu fram, að það væri um að gera að setja sem allra mestar hömlur á alla verzlun og öll viðskipti, því að það bara örvaði verzlunina. Þá þyrftu þeir ekki að kveinka sér undan hömlum og höftum að minnsta kostl. En þeir hljóta að vera trúaðir á það, ef þeir allt í einu að því er snertir verzlun með áfengi eru sannfærðir um, að það auki sölu þeirrar vöru. — Nei, ég held, að kaupsýslumennirnir hafi alveg rétt fyrir sér um það, að hömlur og höft í viðskiptum dragi úr viðskiptaveltunni, og alveg nákvæmlega sama lögmáli lýtur auðvitað verzlun með áfenga drykki. Hömlurnar draga úr og hefta, þeir verða færri, sem verða sér úti um vöruna. En ef hún er í alfaraleið þeirra, fyrir augum þeirra, hvar sem þeir ganga og hvar sem þeir fara, og hennar er alls staðar völ, þá verða kaupin miklu meiri og almennari á þessari vöru.

Ef kaupmenn héldu því fram, að það væri bezta ráðið til þess að auka söluna, að það væri sem mestum örðugleikum bundið fyrir kaupandann að ná í hana, þá væru þeir ekki að seilast eftir verzlunarplássi hérna við Austurstræti í Reykjavík. Þá leituðu þeir nú heldur upp í Skólavörðuholtið og helzt upp í Mosfellssveit eða upp í afdali til þess að auka söluna, til þess að auka erfiðleikana á að fá vöruna og espa fólk til að kaupa. — Þetta liggur svo fjarri allri heilbrigðri hugsun, að menn sjá, að þetta er endemis fjarstæða og ekki boðlegt, þegar er verið að ræða um slíkt alvörumál eins og þetta. Hömlurnar eru eina vörnin til þess að draga úr almennum kaupum á eftirsóttri vöru. Erfiðleikarnir fækka stórkostlega þeim, sem kaupa vöruna, og hér er um að gera fyrir þá, sem vilja vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og stuðla að hóflegri meðferð áfengis, að setja hömlurnar sem mestar á, til þess að þeir, sem annaðhvort eru alveg forfallnir í vín, eða þeir, sem vilja á sig leggja allt mögulegt erfiði og fjárútlát til þess að ná í vín, hvað sem það kostar, verði einir til þess. En eðlilegast væri og æskilegast að mínu áliti, að þeir væru einnig sviptir möguleikunum til þess að ná í það. Það yrði þeim til engrar bölvunar, og það yrði ekki gert með öðru en að lögleiða algert bann í landinu.

Ég skal svo láta máli mínu lokið og láta að síðustu aðeins í ljós þá ósk og von, að þessari hv. þd. takist að breyta frv. í verulegum atriðum í það horf, að 1. gr. sé ekki eins og öfugmælavísa, að frv. allt stuðli heldur að því, ef það yrði að l., að vinna gegn misnotkun áfengis í landinu og útrýma eða a.m.k. draga úr því böll, sem misnotkun áfengis fylgir ávallt.