23.03.1954
Neðri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1064)

12. mál, áfengislög

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan vekja athygli á, áður en ég byrja á umr. um þetta mál, að nál. á þskj. 489 hefur verið prentað upp, vegna þess að í 7. liðnum var prentvilla, að laun skyldi taka samkvæmt 4. flokki launal., en átti að vera 6. flokki, en sú málsgr., sem nú er neðst á fyrstu síðu nál., hafði fallið niður af vangá.

Eins og öllum hv. þm. er ljóst, er frv. þetta, sem hér liggur fyrir til áfengisl., eingöngu um meðferð áfengis. Hér er því ekki verið að taka ákvörðun um það, hvort áfengi skuli selt í landinu. Áfengi er selt í landinu og verður selt í landinu a.m.k. fyrst um sinn. Málið, sem hér er til umr., er því það og einungis það, hvernig reglur skuli settar um meðferð áfengis, svo að þjóðin biði sem minnst tjón af að hafa það um hönd. En um þetta eru skiptar skoðanir.

Sumir halda því fram, að til þess að forðast misnotkun áfengis sé bezta ráðið, að það sé öllum frjálst, hvar sem er og hvenær sem er, og engar hömlur séu á meðferð þess. Aðrir halda því aftur á móti fram, að bezta ráðið sé að hafa sem þrengstar skorður um neyzlu þess og meðferð og frjálsræðið til þess að afla þess og hafa það um hönd sé sem minnst.

Milli þessara tveggja leiða, sem ganga lengst til hægri og yzt til vinstri, er svo þriðja leiðin, sem margir vilja fara, sem þó líta alvarlegum augum á þetta vandamál. Og leiðin er sú, að viðurkennd sé sú staðreynd, að áfengissala er nú leyfð til allra fullveðja manna í landinu, og að þær reglur um meðferð áfengis séu settar, sem hægt er að framfylgja með skynsamlegu móti og skynsamlegar mega kallast í ljósi þeirrar reynslu, sem fengizt hefur um meðferð áfengis hér á landi og annars staðar. Þessi leið hindrar þó ekki, að meðferð áfengis séu þau takmörk sett, sem mest draga úr neyzlu þess, ef líklegt er eða reynslan hefur sýnt, að slíkar reglur séu framkvæmanlegar og að þær séu yfirleitt virtar af almenningi. En þær reglur, sem yfirleitt eru ekki virtar af almenningi, er gagnslaust að setja. Um þessa leið deila menn líka eins og allar leiðir í þessu máli, og ástæðan er sú, að hér er um að ræða eitthvert hið mesta félagslega vandamál þjóðarinnar, sem grípur inn í daglegt líf manna í öllum stéttum, á öllum aldri.

Ég get vel skilið afstöðu þeirra manna, sem vilja ekki neina samninga, þegar vínið er annars vegar, og fordæma að öllu leyti neyzlu þess og meðferð. Afleiðingar ofdrykkjunnar gera marga menn að öfgamönnum í þessu máli, sem annars eru hófsamir í skoðunum sínum. Fjöldamargir þessara manna leggja fram mikið og einlægt starf til þess að hjálpa þeim, sem áfengið hefur knésett. Þess vegna er það ómaklegt og óviðeigandi að bregða þessu fólki um óheilindi, yfirdrepsskap og eiginhagsmuni í því sambandi. Til þess hefur það sízt unnið.

En þótt menn hafi mjög mismunandi skoðanir á meðferð áfengis, þá eru allir á einu máli um það, að hverri þjóð beri að sporna af fremsta megni gegn óhóflegri meðferð áfengis og hindra með því það þjóðfélagsböl, sem af ofnautninni leiðir.

Ég hygg, að Íslendingar séu ekki verr farnir en ýmsar þjóðir vegna ofneyzlu áfengis. En það hlýtur að vera áhyggjuefni hverjum manni, sem kominn er til vits og ára, að sjá, hvað. drykkjuskapur ungmenna færist hröðum fetum í vöxt hér á landi. Mér er ekki grunlaust um, að ein meginástæðan sé sá aldarandi, að mörgu ungu fólki þyki enginn sá maður með mönnum, sem ekki getur smakkað áfengi, og enn fremur það, að unglingurinn finnur, að vínið er gott meðal við minnimáttarkennd hans.

En gegn þessu meini duga engin ákvæði í lögum um meðferð áfengis. Gegn þessu dugir aðeins eitt, sterkt almenningsálit í landinu, sem fyrirlítur og fordæmir alla misnotkun áfengis hjá ungum og gömlum. En slíkt almenningsálit verður ekki vakið nema með sterkri, þjóðlegri hreyfingu, sem allir þjóðræknir menn taka þátt í, sem allir forustumenn landsins taka þátt í og allar stéttir styðja án tillits til þess, hvort menn eru bindindismenn eða ekki. Ef slík þjóðleg hreyfing yrði að veruleika, þá þyrfti ekki að leggja fram reglur um meðferð áfengis eins og þær, sem hér liggja nú fyrir á þskj. 402.

Ég skal þá koma lítillega inn á þær brtt., sem n. hefur lagt hér fram.

1. brtt. er við 2. gr. frv. Í frv., eins og það var lagt fyrir þingið, var ákveðið, að hver sá vökvi, sem innihéldi meira en 21/4% af vínanda að rúmmáli, skyldi teljast áfengi samkv. lögunum. Þessu var breytt í Ed. á þann hátt, að ekkert skyldi kallast áfengi samkv. l., sem í væri 31/2% eða minna af vínanda að þunga, en það mun svara til um 41/4% af vínanda að rúmmáli. Með þessari breytingu, ef að l. yrði, er almennt talið að hægt væri að brugga áfengt öl í landinu. Með þessari breytingu getur almenningur haft um hönd áfengi, sem l. ákveða að skuli ekki kallast áfengi. N. er þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða öfugmæli, sem ekki eigi heima í góðri lagasetningu. Lögfræðin er talin rökvísust allra fræðigreina, enda er rökvísi og rétt hugsun aðalsmerki hverrar góðrar lagasetningar. Ef væri farið inn á þá braut að ákveða með l., að samsetning efnis eða eiginleiki einhvers hlutar væri öðruvísi en hann er í raun og veru, þá má alveg eins ákveða með l., að svart skuli vera hvítt, en þá væri heldur ekki lengur rökrétt hugsun uppistaða og lögmál lagasetningar. Ég vil enn fremur benda á, að sé sú breyting látin standa, sem sett var inn í Ed., þá hlýtur ákvæðið að stangast við 24. gr. frv., þar sem ákveðin er refsing, ef menn eru ölvaðir við tilgreind störf. Því verður ekki neitað, að menn geta orðið ölvaðir af öli, sem inniheldur 41/4% af vínanda að rúmmáli, en samkv. l. eru þeir menn, sem eru ölvaðir af slíku öli, ekki „undir áhrifum áfengis“, vegna þess að l. ákveða, að ölið sé ekki áfengi. Sumir munu ef til vill kalla þetta hártogun, en þetta sprettur þá líka af því, að 2. gr. byggist ekki á rökréttri hugsun. N. leggur því til, að 2. gr. .sé breytt í það horf, sem hún var, þegar l. voru lögð fram. Ef það hins vegar vakir fyrir mönnum að öðlast heimild til þess að brugga áfengt öl í landinu, þá telur n. ekki rétt að gera það á þann hátt, sem Ed. hefur gert og ég hef nú lýst. Ef deildin er því fylgjandi að brugga áfengt öl, þá á hún að sýna vilja sinn í því efni á ógrímuklæddan hátt og setja ákvæði um það inn í 7. gr. frv. Með brtt. við 2. gr. hefur nefndin hvorki tekið afstöðu með eða á móti bruggun áfengs öls, og hefur hver nefndarmaður algerlega óbundnar hendur, hvernig hann notar atkv. sitt í því efni, og fer þar að sjálfsögðu hver eftir sinni sannfæringu.

2. brtt., sem nefndin ber fram, er ekki stórvægileg. Þar er bætt inn, að brugga megi öl til útflutnings, og virðist vera eðlilegt, að slík heimild sé til, úr því að heimild er gefin til þess að brugga áfengt öl fyrir varnarlið það, sem nú dvelur í landinu. Ekki virðist heldur eðlilegt, eins og nú er tekið fram í frv., að greiða skuli af þessu öli sömu tolla og skatta og af öll því, sem selt er hér innanlands, vegna þess að þá væri ölið óseljanlegt bæði á erlendum markaði og eins hjá setuliðinu. En þess ber líka að gæta, að það er þegar til heimild í lögum um að undanþiggja þessa framleiðslu slíkum tollum, einmitt af þeim ástæðum, að það verður ekki samkeppnishæft í verði með öðru móti.

3. brtt. nefndarinnar er við 9. gr. frv. Síðasti málsl., sem lagt er til að falli niður, hljóðar svo: „Óheimilt er að gefa veitingamönnum afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði til almennings.“ Till. þessi er byggð eingöngu á því, að nefndin telur þetta hreint framkvæmdaratriði um verðlagningu á vinum, sem eigi ekki að vera í lögunum. En till. ber alls ekki að skilja á þann veg,eins og ég hef orðið var við að komið hefur fram, að nefndin vilji með þessu gefa í skyn, að hún sé með því, að veitingamönnum sé gefinn afsláttur frá því verði, sem vínin eru nú seld til almennings. Fer mjög fjarri, að slíkt hafi vakað fyrir n., þegar hún gerði þessa till., og eins og ég sagði, þá telur hún, að hér sé um hreint framkvæmdaratriði að ræða og eigi ekki að standa í lögunum frekar en önnur verðlagning á vínum. En ef deildin telur betur fara, að ákvæðið standi, þá hygg ég, að nefndin telji sér ekki að neinu leyti misboðið í þessu efni.

4. brtt. er við 12. gr. frv. Á henni eru gerðar ýmsar breytingar, og skal ég telja upp þær helztu:

1) Að lagt. er til, að sérstök nefnd verði skipuð, sem ákveði, hvaða veitingastaðir geti talizt 1. flokks, en slík ákvörðun sé ekki sett í hendur veitingamannanna sjálfra.

2) Að stytta megi leyfistímann án skaðabóta fyrir ríkissjóð, ef sérstakar ástæður mæla með því að dómi ráðherra.

3) Að tekin verði upp aftur í frv. heimild til, að dans megi ekki fara fram þar, sem vín er veitt.

4) Að fellt er niður ákvæði um sérstakan eftirlitsmann á hverjum veitingastað, en það falið löggæzlunni.

Um þessi einstöku atriði er það að segja, að um fyrsta atriðið, nefnd þá, sem skipuð er til þess að athuga, hvaða veitingastaðir skuli teljast 1. flokks, þá fannst n. ekki rétt, að þetta vald væri sett í hendur veitingamannanna sjálfra og þeir hefðu sjálfir dómsvald um það, hverjir af þeirra veitingastöðum væru 1. flokks. Þess vegna hefur nefndin stungið upp. á því, að það sé þriggja manna nefnd, sem fer með þetta mál, og skipuð eins og segir í till.

Um það, að fella megi niður vínveitingaleyfi, ef ráðherra telur, að ástæður mæli með slíku, fannst n. að rétt væri, að þetta væri tekið fram í lögum, til þess að koma í veg fyrir, að ríkissjóður yrði skaðabótaskyldur í því efni, ef slíkt kæmi fyrir, og tekur það þá um leið af allan vafa í því efni. En slíkt gæti valdið málaferlum undir vissum kringumstæðum.

Þriðja brtt. er um það að taka aftur inn í frv. heimild til að banna vínveitingar, þar sem dansað er. N. viðurkennir, að deila má um atriði eins og þetta. Henni fannst þó rétt að taka það inn í lögin sem heimild. Þetta er ekki annað en heimild, sem viðkomandi ráðherra verður að fara með eins og honum þykir bezt viðeigandi á hverjum tíma.

Fjórða atriðið er um eftirlitsmenn: Það ákvæði var sett inn í frv. í Ed., að eftirlitsmenn skyldu vera með hverjum þeim veitingastað, sem vínveitingaleyfi hefði; og skyldu vínveitingastaðirnir greiða allan kostnað og kaup þessara manna: N. þykir ekki ástæða til að skipa sérstaka menn til eftirlits með vínveitingum á hverjum stað, en finnst, að löggæzlumenn geti haft eftirlit með þessum veitingastöðum eins og öðrum. Auk þess tel ég fyrir mitt leyti, að reynslan sé ekki svo góð, sem fékkst af slíkum eftirlitsmönnum, þegar þeir voru hafðir við veitingastaði hér fyrir nokkrum árum. Þá kom það eigi allsjaldan fyrir, að eftirlitsmennirnir voru meira ölvaðir en gestirnir, sem þeir áttu að gæta að. Þetta er að vísu ekkert aðalatriði og, getur verið álitamál. Ég hygg, að n. út af fyrir sig sé ekki neitt sérstakt kappsmál, hvað við þetta atriði verður gert.

Þá er 5. brtt., við 13. gr. Því er bætt inn í frv., að ekki megi senda áfengi gegn póstkröfu. Þetta ákvæði var tekið út úr frv. í Ed. Ástæðan til þess, að n. þykir full ástæða til þess að láta þetta koma inn í frv., er sú, að nú er áfengi sent út um allt land með póstkröfu og ekki sízt á þá staði, þar sem héraðsbönn hafa verið samþykkt. Þar kaupa menn áfengi og láta senda sér í bögglum með einni og tveimur og þremur flöskum í hverjum: Þetta láta þeir liggja á pósthúsunum eftir hentugleikum sínum og leysa það eftir því, sem þeir þurfa á að halda. Með þessu fyrirkomulagi er verið að gera hverja póststöð á landinu að útsölustað fyrir áfengisverzlun ríkisins. Menn geta látið áfengið liggja þarna eins og þeim sýnist og tekið það út eftir hentugleikum, en hafa alltaf nógar birgðir fyrirliggjandi. Hins vegar hindrar þetta ekki, að menn geti fengið áfengið í pósti, enda hefur það ekki heldur vakað fyrir n., en hún álítur, að menn eigi að borga áfengið fyrir fram, ef þeir vilja fá það sent í pósti. Og eins og þetta er nú með þessar póstkröfusendingar áfengisverzlunarinnar á ýmsum stöðum, þá er til háðungar, hvernig það er framkvæmt.

6. brtt. n. er við 20. gr. Í þessari brtt. er nokkuð hert á ákvæðum um vínveitingar til félaga, m.a. með það, að leyfið skuli veitt stjórnum félaganna, þegar um sé að ræða árshátíð félaganna, og enn fremur, að nokkur viðurlög skuli vera við. því, ef félögin fá áfengisleyfi undir fölsku yfirskini. En það virðast hafa .verið talsverð brögð að slíku hér á undanförnum árum.

7. og 8. brtt. n. eru um, að upp verði teknar í frv. aftur greinar um áfengisvarnaráðunaut og áfengisvarnáráð, sem felldar voru niður úr frv. í Ed. N. álítur, að ekki sé rétt að fella þessi ákvæði úr frv. Úr því að ákveðið er, að áfengisvarnanefndir skuli vera í öllum hreppum á landinu, þá er eðlilegt og sjálfsagt, að einhver aðili sé til, sem samræmt getur störf allra þessara nefnda, leiðbeint þeim og haft eftirlit með störfum þeirra. Annars er starfið allt í molum, eins og reynslan hefur sýnt. Norðmenn skipuðu áfengisvarnanefnd hjá sér með lögum 1936, og virðist það hafa gefið góða raun.

Að lokum skal ég geta þess, að nokkur ágreiningur var í n. um tvö atriði, um þjórfé af vínveitingum og fjárframlög úr ríkissjóði til bindindisstarfsemi, eins og upphaflega var í frv. N. flytur samt engar till. í þessu efni, og hefur hver nm. óbundnar hendur að greiða atkvæði eins og honum sýnist.