23.03.1954
Neðri deild: 66. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

12. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Ég hef borið fram nokkrar brtt. við þetta frv., svo sem fleiri hafa gert og ekki er heldur neitt tiltökumál, svo sem mál þetta er vaxið. Ég verð að láta í ljós nokkur vonbrigði um, hve skammt allshn. hefur gengið í till. sínum, þótt þar sé að nokkru um bætt.

Ég gerði nokkra grein fyrir því við 1. umr. þessa máls, að það væru á baugi tvær stefnur í þessu máli hér á Alþ., sem toguðust á. Það væri stefna þeirra manna, sem vilja hafa vinsölu og vínveitingar, helzt án allra takmarka, bæði að því er snertir útsölur í vínbúðum og að því er snertir sölu þessara vina á veitinga- og gistihúsum, og þeir, sem að þessari stefnu standa, hafa sumir hverjir gengið svo langt, að þeir telja, að þessum málum mundi verða bezt borgið með því, að áfengisútsölur ríkisins væru jafnvel opnar allan sólarhringinn, m.ö.o., að þar væru engar hömlur á lagðar. En hins vegar hefur stefna þeirra, sem lengst ganga í þessu efni, ekki enn fengið undirtektir á Alþingi. Fylgjendur hennar hafa kinokað sér við að tengja nafn sitt við hana. Hvað einstakir þdm. kunni að ala í brjósti sér í þessu efni, veit ég hins vegar ekki um, þó að alkunnugt sé, að frjálsræðið í þessum efnum eigi allrík ítök hér á Alþingi. Hins vegar eru svo þeir menn, sem líta á vínið sem hættulegan hlut og vínnautnina sem þjóðfélagsógæfu, og reynslan hefur á öllum tímum sýnt og á því hefur ekki orðið breyting til batnaðar, að nokkur hluti þjóðarinnar fer þannig með vínið,, að mikil þjóðfélagsógæfa stafar af, því að það er alkunnugt, að margir einstaklingar í þessu þjóðfélagi, sem fæddir eru í þennan heim vel af guði gefnir og hafa allt upplag til þess að verða nýtir og góðir þjóðfélagsborgarar, hafa með vínnautninni tapað starfsorku sinni og manngildi og orðið þyrnótt byrði þjóðfélagsins. Það er alkunnugt, að af þessum sökum hafa mörg heimili lagzt í rúst, fyrir það, að þessi ógæfa hefur komið þar upp innan dyra.

Stefna þeirra manna, sem vilja koma við takmörkunum í þessu efni, hefur um langt skeið, nú upp undir aldarskeið hér hjá oss, verið borin uppi af þeim mönnum, sem beitt hafa sér fyrir góðtemplarastarfsemi í landinu. Og þessi starfsemi hefur notið margvislegrar viðurkenningar, enda hefur hér verið af mörkum lagt mikið og fórnfúst starf. — Fyrir bein og óbein áhrif frá þessari starfsemi hefur mörgum verið bjargað frá þeirri eyðileggingu og vesaldómi, sem búin er hverjum manni, sem gefur sig vínnautninni á vald og hrekst viljalaus og ósjálfbjarga eins og strá fyrir straumi af þeim sökum. Þá hefur þessi starfsemi einnig notið um langt skeið viðurkenningar Alþingis, bæði með því, að veitt hefur verið nokkurt fé til starfsemi hennar, auk þess sem Alþ. hefur oft borið gæfu til þess að hagnýta sér ráð og tillögur þeirra manna innan reglunnar, sem borið hafa uppi og beitt sér fyrir þessari starfsemi í landinu. Og svo ríkulega gætti áhrifa bindindismannanna og góðtemplarareglunnar um eitt skeið, að Alþingi tók upp og samþykkti aðflutningsbann áfengra drykkja. Með þessu var stigið stærsta sporið gegn áfengisnautninni. En á því banni voru, eins og kunnugt er, þeir miklu annmarkar þegar í upphafi, sem drógu mjög úr gildi þess og raunar urðu þess valdandi, að erfitt reyndist að halda banninu uppi á viðhlítandi hátt. Til viðbótar þessu kom svo viðskiptastríð, þegar Spánverjar sögðu okkur stríð á hendur og neituðu að kaupa aðalútflutningsvöru landsmanna, saltfiskinn, ef eigi væru keypt vín af þeim, en þeir voru um það bil langstærstir kaupendur að þessari aðalútflutningsvöru landsmanna. Þetta varð svo til þess með öðru, að aðflutningsbanninu var komið fyrir kattarnef, enda létu frjálshyggjumennirnir í þessu efni ekki heldur sitt eftir liggja til þess að ganga í lið með Spánverjum og ráða niðurlögum bannsins. — Eftir að aðflutningsbannið var úr sögunni, þá er engan veginn því að neita, að Alþ. hefur á ýmsan hátt með setningu löggjafar um þetta efni tekið nokkurt tillit til þeirra. ráða og tillagna, sem bindindismenn í landinu hafa borið fram, þó að mjög skorti á, að ráðum þeirra hafi verið fylgt. Og þó að mjög skorti á, að þessar ráðstafanir ýmsar hafi gefið þá raun á undanförnum árum, er bindindismenn keppa að, þá er þó engum blöðum um það að fletta, að ef þessum takmörkunum ýmsum hefði þó ekki verið beitt, þá hefði ástandið í þessum efnum verið enn þá og miklu verra en það ástand, sem við nú búum við, þótt það sé hvergi nærri gott. Það kunna að vera menn, sem neita þessu, sem þó óneitanlega dálítið bólar á nú upp á siðkastið, en ég býst við, að samt sem áður geri þetta enginn í fullri alvöru, þó að annað verði stundum ofan á í tillögum manna og umræðum um þetta mál. Þess vegna er það, að nú, þegar gengið er að því verki að afgreiða áfengislög, vildi ég mjög beita mér fyrir því að koma hér á framfæri röddum, óskum og tillögum þeirra manna, sem einir hafa af alhug beitt sér fyrir því í landinu að hamla upp á móti ofdrykkju og þeim þjóðhættulegu afleiðingum, sem oss eru búnar af þeim sökum.

Við þetta eða á grundvelli þessa hef ég borið hér fram þær brtt. við þetta frv., sem miða að því að draga úr áfengisnautninni og þá alveg sérstaklega miða að því, að þar verði ekki lagðar gildrur fyrir æskuna, hið unga og uppvaxandi fólk. Það eru tvö meginatriði í mínum tillögum.

Annað atriðið er það, að bannað sé að hafa vin á boðstólum í veitinga- og gistihúsum, auk þess sem tekið verði fyrir það að veita leyfi til þess að hafa vín um hönd í veizlum, sem haldnar eru í félagsherbergjum, því að það er vitað, að á veitingahúsum safnast saman oft og löngum mikill fjöldi manns, og margt af því er auðvitað og e.t.v. meginhlutinn ungt fólk. Það er ríkt í eðli unga fólksins að lyfta sér upp og skemmta sér, og er slíkt vitanlega ekki nema eðlilegt og heilbrigt. En það er vitað, að í slíkum samkvæmum, þar sem margt ungt fólk er saman komið og vínveitingar eru leyfðar og víninu ört fram otað, eins og gengur, þá er ungu fólki, sem þangað sækir og þótt það hafi ekki verið haldið af neinni vinnautnartilhneigingu, mikil hætta búin, þar sem það dansar þar og skemmtir sér á annan hátt innan um annan hóp af ungu fólki, sem gefið hefur sig á vald vínnautninni. Þetta fólk lætur ekki sitt eftir liggja til að lokka og leiða hina til að taka glas með sér og auka þann veg á gleðskapinn. Margir standast þetta, en hinir eru máske fleiri, sem falla hér fyrir freistingunni. ekki í þetta eina sinn, heldur oftar, og missa þannig fótfestuna. Það er því hverjum manni auðsæ sú hætta, sem ungu fólki er búin í slíkum samkvæmum. Þarf ég ekki að fjölyrða frekar um það. Æskan er oft reikul í ráði, enda margt ungt fólk, sem slíkar skemmtanir sækir, engan veginn búið að taka svo þær ákvarðanir um lífsframtíð sína eða er svo sterkt á svellinu, að því ekki sé hætt við að falla í vald þeirra freistinga, sem fyrir því verða undir slíkum kringumstæðum. Það er einmitt út frá þessu sjónarmiði, að vínveitingar á veitingahúsum séu nokkurs konar drykkjuskóli fyrir ungt fólk, með þeim hætti séu lagðar hættulegar snörur á vegi þessa óráðna fólks, — það er út frá því sjónarmiði, sem ég kem hér á framfæri till. mínum um það, að tekið sé fyrir þessa hættu með því að veita ekki slík leyfi og að fyrir það sé girt með löggjöfinni, að vín sé haft á boðstólum á veitinga- og gistihúsum.

Sama máli gegnir líka að sjálfsögðu um veizlur, þar sem vínið flóir í félagsherbergjum. Þar er vitanlega sama hættan á vegi hins unga manns og raunar manna á hvaða aldri sem er, þó að eðlilegt sé, að æskan eigi þar meira á hættu en þeir, sem lengri lífsreynslu hafa.

Þessum breytingum hef ég komið hér á framfæri með því að leggja til, að felld verði niður 12. gr. frv., en hún hljóðar um vínveitingaleyfi á gisti- og veitingahúsum. Í sambandi við þessa meginbreytingu eru svo margar aðrar till., því að þetta grípur með ýmsum hætti inn í aðrar gr. frv., og hef ég gengið svo frá öðrum till., sem að þessu lúta, að ef þessi till. mín verður samþ. um að fella niður 12. gr., þá kemur það ekki í bága við önnur ákvæði frv., því að út úr er tekið með öðrum brtt., sem ég legg til, allt það, sem er í sambandi við ákvæði 12. gr. um vinveitingaleyfi á gisti- og veitingastöðum.

Fyrsta brtt. hjá mér er við 4. gr., en hún kemur raunar á undan þeim breytingum, sem ég nú var að lýsa. Í 4. gr. er svo ákveðið, að þegar skip koma frá útlöndum og hafa skipsforða af vínum til nota á skipunum utan landhelgi, sem leyfilegt er, þá megi skipið hafa hæfilegan skipsforða af áfengi óinnsiglaðan til neyzlu handa skipverjum, en aldrei megi gefa öðrum sé selja af þeim forða. Ég vil takmarka þetta eingöngu við það, að þetta sé leyfilegt í fyrstu höfn, sem skipið kemur á, en ekki sé leyft að sigla með slíkan forða óinnsiglaðan hafna á milli, máske í kringum allt land, af því að af slíku er vitanlega búin misnotkun í þessu efni. Ég hef því lagt til, að þetta undanþáguákvæði, sem hér um ræðir, taki aðeins til fyrstu afgreiðsluhafnar, sem skipið kemur á.

Annar kafli brtt. minna er um það, að stofna skuli áfengisvarnasjóð og sé hlutverk hans að standa straum af kostnaði við áfengisvarnir, bindindisfræðslu, bindindisútbreiðslu og að í þennan sjóð renni árlega 4% af hagnaði áfengisverzlunar ríkisins. Þessum sjóði á svo að verja, eins og sagt er, til að standa straum af kostnaði við áfengisvarnir og bindindisfræðslu. Úr þessum sjóði legg ég til að renni til Stórstúku Íslands, til bindindis- og hjálparstarfsemi, 500 þús. kr. árlega og til bindindisfélaga í skólum 50 þús. kr. á ári í sama skyni. Þetta er að vísu nokkru hærri upphæð en Stórstúka Íslands hefur fengið að undanförnu í fjárl., og munar það nú ekki neitt geysilega miklu. Hitt er vitað, að það hefur háð bindindisstarfseminni ákaflega mikið, hvað hún hefur haft yfir að ráða litlu fé til starfseminnar, sem er mjög margþætt, eins og kunnugt er, og vildi ég úr því bæta með því að auka nokkuð þetta fjárframlag, og er þá ekkert eðlilegra en einmitt það, að af þessum mikla áfengisgróða, sem borgarar landsins leggja ríkinu til, verði varið nokkurri upphæð, og það mun verulegri upphæð en verið hefur að undanförnu, til þess að hamla á móti þeim háska, sem af vinnautninni stafar. Verður ekki á annan hátt betur fyrir því séð en að efla starfsemi góðtemplarareglunnar. Þetta finnst mér að hljóti að verða sú ríkjandi skoðun í framtíðinni. Meðan ekki telst fært að gera þær ráðstafanir að taka hættuna í burtu með því að gera vinið útlægt úr landinu, þá skilst mér, að það hljóti að verða ríkjandi skoðun meðal Íslendinga, að eðlilegt sé og sjálfsagt að styrkja þann félagsskap, sem af sjálfsdáðum býðst til að leggja fram krafta sína í þessu efni, að honum verði veittur með þessum hætti nokkur aukinn fjárstuðningur til starfsemi sinnar.

Þá legg ég enn fremur til, að á næstu 10 árum skuli leggja til hliðar 6% af hreinum ágóða: áfengisverzlunar ríkisins, er sé varið þannig, að helmingur þeirrar upphæðar gangi til byggingar drykkjumannahæla og lækningastöðva handa drykkjumönnum, sjúkrahúsa og elliheimila eftir nánari ákvörðun heilbrmrh., að varið verði 1/6 hluta upphæðarinnar til húsbyggingar fyrir bindindis- og hjálparstarfsemi á vegum góðtemplarareglunnar, og þar af helming til byggingar í Reykjavík; afganginum af þessari upphæð skuli vera varið til lána til byggingar félagsheimila og gistihúsa, og að menntmrh. veitilánin að fengnum till. áfengisvarnaráðs, að lán þessi séu vaxtalaus og að menntmrh. ákveði lánstímann.

Það hefur nú um nokkurra ára skeið verið lögð til hliðar nokkur upphæð af áfengisgróðanum í því skyni að koma upp fyrir það drykkjumannahælum og lækningastöðvum fyrir drykkjusjúkt fólk. Það hefur nú verið um nokkurt bil safnað í þennan sjóð, og er nú þegar kominn nokkur skriður á það mál að fara að hefjast handa um að koma upp drykkjumannahælum og slíkum lækningastöðvum. Það fjármagn, sem fyrir hendi ér í þessu efni, er að vísu nokkurt, en þó engan veginn fullnægjandi til þess að gera þessum málum skil, miðað við þá miklu þörf, sem fyrir hendi er hjá okkur Íslendingum nú í þessu efni. Það er alkunnugt, hvernig ástandið er í þessu t.d. hér í Reykjavík, — en þar er það náttúrlega stærst í sniðum eins og annað, — að hér gengur um göturnar nokkuð stór hópur manna, sem eru svo hart leiknir af áfengisneyzlunni, að þeir hafa glatað starfskröftum sínum, bæði andlegum hæfileikum til starfa og líkamlegum kröftum til þess að inna af höndum slík vinnubrögð. Þessi hópur manna, sem gengur hér um göturnar og þannig er ástatt fyrir, — þetta eru að meiri hluta karlmenn, þó mun vera þar eitthvað af kvenfólki, — á flest, að mér er sagt, hvergi höfði sínu að að halla, og nýtur flest gistingar í lögreglustöðinni hér, í þeim kjallara, sem hún hefur þar yfir að ráða í því skyni að fjarlægja vandræðafólk af götum bæjarins, en hefur ekki að öðru leyti neinn samastað. Það leiðir af sjálfu sér, að í landi, sem telur sig vera menningarland og má á margan hátt gera það, er slíkt fyrirkomulag gersamlega óviðunandi. Hér verður að verða breyting á. Þessu fólki verður að búa verustað, sem hæfir því sjúklega ástandi, sem það er komið í, og fjarlægja það frá sjónum vinnandi fólks. Þessi starfsemi, sem hér er fyrir hendi, er sem sé tvíþætt. Hún er í öðru lagi í því fólgin að koma upp hælum fyrir það fólk, sem eyðilagt hefur lífsframtið sína með þessum hætti; og hins vegar fyrir það af þessu fólki, sem enn hefur ekki glatað öllum sínum hæfileikum, að taka það þangað til lækningar og aðgerða, sem gætu orðið þess valdandi, að þetta fólk fengi aftur heilsu og heilbrigði og gæti komið aftur inn í raðir starfandi manna í þjóðfélaginu. Eins og það er eðlilegt um bindindisstarfsemina eða þá menn, sem helga því starfi krafta sína, að hafa áhrif á hugi fólksins til bindindis og sjálfsafneitunar að því er vínnautnina snertir, eins og það er sjálfsagt og eðlilegt að verja nokkru af áfengisgróðanum til þess að styrkja aðstöðu þessara sjálfboðaliða í þjóðfélaginu, eins er að sjálfsögðu skylt að veita fé til þess, að búið verði betur að því fólki, sem borið hefur lægri hlut í þessum viðskiptum. Ég held þess vegna, að það séu fullkomin rök fyrir því um þann litla hluta áfengisgróðans, eða 10% samanlagt, sem ég geri hér till. um að varið sé í þessu efni; að þær till. hljóti góðar undirtektir og að menn geti orðið hér á Alþ. sammála um það, að rétt sé að ráðstafa eigi minni hluta hans í þessu skyni en ég hef hér lagt til.

Ég hef enn fremur, eins og fyrr greinir, lagt til, að þessum 6% yrði varið til húsbygginga til bindindis- og hjálparstarfsemi á vegum góðtemplarareglunnar og þar af helmingi til bygginga í Reykjavík. Það er vitanlega einn mjög mikilsverður þáttur í starfsemi góðtemplarareglunnar að eiga samkomuhús, hús fyrir starfsemi sína bæði úti á landsbyggðinni og hér í Reykjavík, en þar er aðalmiðstöð góðtemplarastarfseminnar fyrir landið allt. En það hefur gengið erfiðlega fyrir góðtemplarastarfseminni að koma sér upp slíkri aðstöðu, byggja slík hús úti um byggðir landsins og hér í Reykjavík. Eins og kunnugt er, kostar það mikið fé að reisa slíkar byggingar, og öllum þeim húsum og starfsskilyrðum, sem reglan og bindindismenn hafa skapað sér úti nm landið, hafa þau komið sér upp fyrir fé, sem lagt er fram af áhuga og fórnfýsi þessara sömu manna, án þess að þar hafi komið nokkur styrkur til frá því opinbera, því að sá fjárstyrkur, sem fallið hefur í skaut góðtemplarareglunnar, hefur ávallt verið svo naumt við neglur skorinn, að það hefur ekki einu sinni hrokkið til daglegrar starfsemi reglunnar, hvað þá heldur að hægt væri að verja nokkru af því í þessu skyni. Alþ. hefur viðurkennt þörfina á því að koma upp samkomuhúsum, félagsheimilum, víðs vegar úti um landið, og það er ekki að efa, að allír þeir menn, sem meta og vilja og skilja starfsemi góðtemplarareglunnar, geti einnig á það fallizt, að Alþ. láti þar af mörkum nokkurt fé einmitt af áfengisgróðanum. Samkomuhús eru fyrir hvaða félagsskap sem er nauðsynlegur og mjög mikilsverður þáttur í félagsstarfseminni, og á það vitanlega við um góðtemplararegluna ekki síður en um annan félagsskap, sem að útbreiðslustarfsemi vinnur.

Afganginn af þessu skal svo lána til hyggingar félagsheimila og gistihúsa, og veitir menntmrh. lánin, eins og ég gat um áðan, og ákveður lánstíma. Hér er um þýðingarmikla starfsemi að ræða, og vitanlega kemur ekki til mála að því er gistihúsin snertir, að slíkt framlag komi til, nema því aðeins að þar séu ekki neinar vínveitingar um hönd hafðar, enda eru þessar till. mínar miðaðar við það, að veitingahúsum og gistihúsum verði ekki veitt neitt vínveitingaleyfi.

Ég hef þá gert grein fyrir efni og innihaldi þeirra brtt., sem ég flyt hér á þskj. 496 og eru í þessum tveimur aðalköflum, sem ég nú hef hér lýst.

Hér eru komnar fram ýmsar brtt. Það hefur ekki verið mælt fyrir þeim enn þá, nema till. n. Og það virtist vera einhver tregða á því, að menn vildu taka til máls um þessar till., og jafnvel virtist mér hæstv. forseti vera að því kominn að slíta fundi hér, ef enginn kveddi sér hljóðs, og er hann þó flm. að einni till., sem ýmsir líta á að nokkru skipti hvort samþ. verður eða ekki. — Þar sem ekki er búið að tala fyrir þessum till. öðrum en till. n., þá tel ég rétt að láta bíða að ræða um þær, þó að ástæða sé til að gera þeim nokkur skil, svo sem þær eru vaxnar sumar hverjar. En hvað snertir till. n., þá verður fullkomlega að viðurkenna það, — ég veit ekki, hvar hv. frsm. er, mér heyrist ég heyra í honum hérna einhvers staðar í fjarlægð, — ja, það gerir ekkert til, hann má vera hvar sem hann vill fyrir mér. En ég vil fara viðurkenningarorðum um starfsemi n., þó að till. hennar nái skammt til þess að ná því marki, sem ég stefni að með mínum till. og ég hef sannfæringu fyrir að feli í sér bezta lausn í þessu máli af því, sem enn er fram komið.

N. leggur til að fella niður það ákvæði, sem komst inn í frv. í Ed., að hér verði farið að brugga áfengan bjór. Orðalagið á þessu ákvæði Ed. var mjög lævíslegt, en sá óvinafagnaður stóð við athugun ber og nakinn fyrir sjónum manna. Hv. frsm. allshn. benti mjög rækilega á það, hvað óviðurkvæmilegt það væri um bjór, sem hefði inni að halda svo mikið áfengismagn eins og gert er ráð fyrir í frv. eins og það kom frá Ed., að kalla það óáfengan drykk. Og ég held satt að segja, að þeir, sem komu þessu ákvæði inn í Ed., fluttu um það tillögur, og þeir, sem samþykktu þetta, hafi gert það að mjög óathuguðu máli, hafi látið blekkja sig, og þess vegna hafi sú gagnrýni, sem hv. frsm. allshn. flutti hér, verið alveg fullkomlega réttmæt. Vitanlegt er, að með þeim styrkleika, sem þarna er um að ræða, er þetta orðinn verulega áfengur drykkur, og það er ekki að efa, að bjór með slíku innihaldi, sem seldur hefði verið á öllum skemmtunum og annars staðar á landi hér undir því yfirskini, að hann væri óáfengur, hefði orðið mikil íkveikja gagnvart ungu fólki og leitt margan ungan mann og konu á glapstigu drykkjuskaparins, þannig að þar hefði verið lögð hættuleg snara fyrir unga fólkið í landinn. Þeir, sem samþykktu þetta ákvæði í Ed. af athugunarleysi og óvitahætti, fá að sjálfsögðu vægan dóm. En hinum, sem þetta gerðu vitandi vits og að yfirlögðu ráði, er ekki bót mælandi. Ég hefði viljað mega trúa því, að öll allshn. stæði að þessari lofsverðu tillögu um að kveða niður tiltektirnar um bruggun áfengs bjórs. En ég heyrði af ummælum hv. frsm., að svo er ekki, enda hefur nú komið hér fram í dagsljósið till., þar sem einn af nm. allshn., sem skrifar undir nál., flytur nú brtt. um það, að haldið skuli áfengum bjór að þjóðinni, aðeins breytt til um formið. Höfundar sterka bjórsins í Ed. eiga því andleg skyldmenni hér, og hefur raunar á því örlað áður, þótt þeim hafi verið jafnan í skefjum haldið. En þetta handtak er mjög virðingarvert hjá n., og vonandi verða nú samtök um það í þessari d. að létta af landsfólkinu þeim áhyggjum, sem að því hafa steðjað nú, eftir að slíkar till. voru komnar fram, því að ég veit, að allur almenningur og ekki sízt mæðurnar hafa gert sér grein fyrir þeirri hættu, sem börnum þeirra væri búin með samþykkt slíkrar till. sem þessarar. Þá eru enn fremur í brtt. allshn. gerðar nokkrar umbætur á ákvæðum 12. gr. Ef við ættum nú á annað borð að bita í það súra epli hér, að þetta mál yrði nú afgr. með þeim hætti, að teknar yrðu aftur upp vínveitingar á gisti- og veitingahúsum, þá verður fullkomlega að viðurkenna það, að sýnd er viðleitni í þessum till. í þá átt og einmitt í þá varnaðarstefnu, sem góðtemplarar í landinu standa að og Alþ. hefur tekið meira og minna á undanförnum árum tillit til, og þess er að vænta, að svo verði nú enn gert við afgreiðslu þessa áfengislagafrv., en miklu rækilegar en nefndin leggur til, með því að samþykkja mínar till. Ekki eru þó allar till. nefndarinnar til bóta. Vil ég taka það fram um brtt. við 9. gr., að fella það niður, að óheimilt sé að gefa veitingamönnum afslátt á hinu ákveðna útsöluverði almennings, að það væri miður farið að samþ. þessa brtt., enda sagði hv. frsm., að það væri ekki lögð slík áherzla á þetta í n., að það þætti verulegu máli skipta.

Það hefur nokkuð verið rætt um það hér, að dómsmrh. skipaði eftirlitsmann, einn eða fleiri, með öllum þeim veitingastöðum, er veitingaleyfi fengju, og skuli leyfishafar greiða laun eftirlitsmanns og allan kostnað af starfi hans eftir ákvörðun ráðherra. Þetta er sjálfsagt mjög þarft og nauðsynlegt, að skipa slíkt eftirlit, ef svo slysalega skyldi til takast, að það yrði ofan á, að heimilað yrði að veita slík leyfi. En það þarf að skilgreina það alveg fullkomlega í þessari till., að þó að veitingamaðurinn, sem leyfið fær, eigi að sjálfsögðu að greiða laun þessa manns, þá má það ekki vera með þeim hætti, að hann greiði það beint til viðkomandi manns og að maðurinn eigi þannig starf sitt undir þeim, sem hann er settur til höfuðs, heldur verður þetta að vera með þeim hætti, að eftirlitsmaðurinn taki laun sín úr ríkissjóði, en veitingamaðurinn greiði aftur ríkissjóði slíka upphæð. Þann hátt verður að hafa á þessu og mun það kannske hafa verið meiningin, þó að það sé ekki tekið fram í till. En þetta þarf að taka fram, og ég vil þá skírskota í því efni til hv. 2. þm. Eyf., sem einmitt flytur till. um þetta, að hann breyti till. sinni þannig, að það komi skýrt fram í henni, að það sé meiningin, að sú tilhögun verði á höfð, því að þessi eftirlitsmaður verður að sjálfsögðu að vera á allan hátt óháður þeim manni, sem hann á að hafa eftirlit með.

Ég skal þá ekki fara lengra út í þetta mál að sinni og vil þá enda þessi orð mín með von um það, að einmitt sú varúðarstefna, sem bindindismenn í þessu landi beita sér fyrir og beina kröftum sínum að, verði nú við afgreiðslu þessa máls engu síður tekin til greina og í heiðri höfð heldur en oft hefur verið gert áður. Það skortir að vísu mikið á, bæði fyrr og síðar, að þessi stefna hafi fengið þann stuðning hér á Alþ., sem hún verðskuldar. Hins er að vænta, að Alþ. sé ekki svo heillum horfið, að það gangi í beint berhögg við þá menn, sem öllum öðrum fremur helga því starfi krafta sína í þessu landi að vinna á móti vínnautninni og hafa bundizt sterkum félagssamtökum einmitt í því skyni. Það er áreiðanlega þjóðinni til mestra heilla, að sem nánast samstarf um þessi mál geti jafnan orðið á milli þessara forustumanna bindindisstarfseminnar í landinu og Alþ. Með þeim hætti mun bezt vegna um þær ráðstafanir, sem Alþ. telur sér nauðsynlegt að gera í þessu efni.