24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

12. mál, áfengislög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði úr ræðum tveggja hv. þm., sem ég vildi leyfa mér að gera stuttar aths. við.

Hv. þm. Borgf. talaði hér áðan. Hann minnti á það, að ég hefði flutt till. um rannsókn á möguleikum á útflutningi öls árið 1950. Þetta er rétt. Það, að ég gat ekki áfenga ölsins í þeirri sögu þess, sem ég sagði hér í frumræðu minni, sprettur af því, að aðalatriði þessarar till., sem ég flutti árið 1950, var um allt annað efni. Till. var till. til þál. um endurskoðun íslenzkrar áfengislöggjafar, og hún var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara fyrir næsta reglulegt þing endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um sölu og veitingar áfengis með það fyrir augum að stuðla að skynsamlegri og hóflegri meðferð áfengra drykkja en nú tíðkast með þjóðinni. Jafnframt verði framkvæmd athugun á því, hvort unnt sé að skapa landsmönnum auknar gjaldeyristekjur með því að leyfa hér bruggun áfengs öls til útflutnings.“

Það er alveg rétt, að hv. n., sem um þetta mál fjallaði hér í þingi, felldi athugunina á því, hvort hægt væri að brugga hér áfengt öl til útflutnings, úr till., en kjarni hennar var samþ., og ég held, að það sé ekkert oflæti, þó að ég telji það frv., sem hér liggur fyrir hv. Alþ. nú, ávöxt þessarar samþykktar minnar till. árið 1950. Þess vegna er ekki ástæða til þess fyrir minn hv. vin, hv. þm. Borgf., að telja þetta einhvern ósigur fyrir mig, að athugun á möguleikum á útflutningi öls skyldi vera felld aftan af till. Aðalatriði hennar var samþ., og ávöxtur hennar sést hér í dag.

Hitt verða menn svo að meta hver fyrir sig, hvort það er einhver goðgá að orða þann möguleika, að Íslendingar auki gjaldeyristekjur sínar með því t.d. að hefja útflutning á öli, eins og fjölmargar aðrar þjóðir hafa gert. Og ég er alveg sannfærður um, að þó að ég hafi róið einn á báti með þessa till., eins og hv. þm. minntist á, þá verður það nú þannig að lokum, að Íslendingar hika ekki við að flytja þessa vöru út eins og aðrar vörur, sem þeir geta aflað sér gjaldeyristekna af útflutningi á.

Ég er auk þess ekkert hræddur við það að róa einn á báti. Ég hygg, að það væri illa komið þeim þm. og jafnvel hverjum þeim einstaklingi, sem væri hræddur við það að framfylgja skoðun sinni aðeins af ótta við það að sjást einn á báti: Ég veit, að hv. þm. Borgf. er maður, sem fylgir skelegglega fram sínum skoðunum, og ég þekki hann það mikið og þekki það mikið hans þingsögu, að hann hefur ekkert verið hræddur við það að róa einn á báti, og hvorki álit mitt né annarra er minna á honum fyrir það.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta atriði frekar, en ég fagna þeim árangri, sem þessi till. hefur náð, og ég fæ ekki betur séð en að einmitt í þessi lög sé tekinn upp kjarni hennar, þar sem talað er um endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um sölu og veitingar áfengis með það fyrir augum að stuðla að skynsamlegri og hóflegri meðferð áfengra drykkja en nú tíðkast með þjóðinni, a.m.k. þegar þetta frv. var lagt fram af hæstv. dómsmrh. var þessi stefna greinilega mörkuð í 1. gr. þess. Mig minnir, að svo sé enn.

Hv. þm. Borgf. misskildi mig nokkuð, þegar hann lagði þau orð í munn mér, að ég liti á öl sem neyzluvöru og það bæri að líta á það sem framtíðarneyzluvöru í þessu landi. Ég sagði, að á Norðurlöndum, meðal þeirra þjóða, sem vanar væru þessum drykk, væri litið á öl sem almenna neyzluvöru. Ég gerði það ekki að mínum orðum, og ég hygg, að hver og einn, sem eitthvað þekkir til Norðurlandabúa og þeirra lífsvenja, geti staðfest þá skoðun mína, að þessar þjóðir líti á öl sem neyzluvöru, en ekki fyrst og fremst sem áfengan drykk, sem skaði eða hætta gæti af steðjað.

Hv. þm. Borgf. drap nokkuð á þau ummæli mín, að áfengi væri talið því meinlausara og óskaðlegra sem það væri þynnra, og þá spurði hann: Hvers vegna vill þá hv. þm. styrkja ölið? Ég vil það vegna þess, að ég held, að 2.2% sterkt öl, sem við höfum nú, hvetji engan til þess að hætta við að drekka sterku drykkina, hina brenndu drykki. Ég hygg hins vegar, að 4.4% sterkt öl að rúmmáli geti haft það í för með sér, að menn hverfi nokkuð frá hinum sterkari drykkjum. (Gripið fram í: Nei, það kveikir í.) Jú, það er náttúrlega hugsanlegt, en ég held, að það þurfi ekki að verða almenna reglan.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira í hinni ýtarlegu og að mörgu leyti þróttmiklu ræðu hv. þm. Borgf., sem ég þarf að svara. Ég vil aðeins segja það, að ég met mikils áhuga þessa hv. þm. fyrir bindindisstarfsemi í landinu, og hann hefur vissulega unnið merkilegt starf bæði hér á Alþ. og utan þess sem skeleggur forvígismaður bindindis og hófsemi í landinu. En það, sem mér líkar illa við hann og marga ágæta vini mína, sem deila við mig og aðra um ölið, er, að það er eins og þeir vilji láta liggja að því, að við, sem flytjum till. um að leyfa tilbúning öls, séum jafnvel að vinna að því að skapa aukið böl í þjóðfélaginu, nærri því vitandi vits. Ég veit, að hv. þm. Borgf. hefur mótað sína afstöðu eins og hann hefur gert vegna þess, að hann telur það henta sinni þjóð bezt. Ég vil bara biðja þennan minn góða vin að trúa því, — hann ræður því náttúrlega, hvort hann gerir það, — að ég hef tekið mína afstöðu á sama hátt og hann. Ég tel það ekki stýra neinni farsæld, að að þessari þjóð sé haldið eingöngu sterkum drykkjum, 40–60% brennivini, en henni bannað að neyta 4% öls, sem allar aðrar menningarþjóðir leyfa framleiðslu á í sínum löndum. Þetta er kjarni þessa máls.

Hv. 2. þm. Ey f. er horfinn héðan, því miður. Ég skal þess vegna ekki rökræða mikið við hann. Hann var eitthvað hvimpinn yfir því, að ég hafði nefnt hér „heilbrigða skynsemi“. —Sem betur fer, þá má nú enn þá tala um heilbrigða skynsemi í sambandi við áfengismál, og ég vona, að jafnglöggur og greindur maður eins og hv. 2. þm. Eyf. er þurfi ekki til lengdar að láta „reiðina úldna í hjartanu“, eins og stendur í biblíunni einhvers staðar, yfir því, að ég skuli leyfa mér að nefna heilbrigða skynsemi í sambandi við afgreiðslu áfengismála á Alþ.

Hann sagði, að það, sem skipti máli í þessu sambandi, væri reynsla þjóðanna. Ég er alveg sammála hv. 2. þm. Eyf. um þetta. En hvaða ályktanir draga þjóðir eins og Norðmenn, Danir, Svíar og Finnar af sinni reynslu? Ég álit, að það sé miklu meira virði að athuga, hvaða ályktanir þeir sjálfir draga af sinni reynslu, heldur en hvaða ályktanir hv. 2. þm. Eyf. og hans skoðanabræður draga af henni. Þeir draga þá ályktun af sinni reynslu, að það sé skynsamlegra til hófsamlegrar meðferðar áfengis og hverfandi skaða af áfengisnautn í löndum sínum að leyfa bruggun létts, áfengs öls. Þessar ályktanir hafa þessar þjóðir dregið sjálfar. Ég trúi betur leiðtogum þessara þjóða og þessum þjóðum sjálfum, sem þekkja, hvar skórinn kreppir að hjá þeim í áfengismálum, því að þau eru vandamál hjá þeim eins og okkur, heldur en hv. 2. þm. Eyf., þó að hann sé ágætur, glöggur og greindur maður, þegar hann ræðir þessi mál hér á Alþ. En það, sem hann lagði megináherzlu á í sinni ræðu, var áfengismagnið, sem samkvæmt opinberum hagskýrslum er neytt meðal þessara norrænu þjóða, frænda okkar og vina. En eins og ég mun nú sýna fram á, eru hagskýrslur ákaflega villandi og sýna ákaflega skrýtna hluti í þessum efnum. Ég vil leyfa mér að benda á það, að þegar sala áfengs öls var bönnuð í Svíþjóð, en leyfð bruggun á því til útflutnings, þá var læknum heimilað að gefa út resept á áfengt öl handa sjúklingum, sem það var talið heilsusamlegt fyrir að drekka bjór með sterkari prósentunni. Læknum var heimilað þetta, og það var ákaflega algengt, að sjúklingum væri ráðlagt og fengju resept upp á einn bjór með máltið, sem sagt, að maður drykki tvo bjóra á dag. Við skulum segja, að hann hafi verið 4.4%, hann hefur kannske verið heldur sterkari. En segjum, að hann hefði verið jafnsterkur þeim, sem við leggjum til að verði leyfður hér. Hvað hefði þetta þýtt? Hvað drakk þessi maður af hreinu alkóhóli á ári t.d.? Það er ósköp auðvelt að reikna það út, og það hefur verið reiknað út. Samkvæmt læknisráði drakk þessi sjúklingur, sem drakk tvær bjórflöskur á dag, eina með hvorri máltið, hvorki meira né minna en 13.5 1 af spíritus á ári. Ef íslenzkur læknir ráðlegði hv. þm. Borgf. að drekka einn pilsner með hvorri máltið tveggja aðalmáltíða dagsins, hvað mundi það þýða, ef hv. þm. Borgf. hlýddi því ráði? Það þýddi hvorki meira né minna en það, að hv. þm. Borgf. drykki 6.2 1 af hreinum spíritus á ári. En samkvæmt hagskýrslum eru Íslendingar ekki taldir drekka nema, eins og hv. 2. þm. Eyf. sagði, 1.33 l. (PO: Þetta eru nú kröftug rök.) Þetta eru nú kröftug rök, segir hv. þm. Borgf. En það, sem ég er að sýna með þessu, er það, að rök hv. 2. þm. Eyf. eru gersamlega út í bláinn, þegar hann talar um það, að ölþjóðirnar á Norðurlöndum drekki miklu meira en við, þau eru gersamlega út í bláinn. (PO: Hefur hv. þm. reseptin, sem þessir sænsku læknar gáfu?) Ég veit þetta, að læknarnir gefa iðulega resept bæði á öl og vin. Það veit hv. þm. vel, að sjúklingum er oft ráðlagt að drekka létt vín sér til heilsubótar, það er svo alkunn staðreynd, að ég taldi mig ekki þurfa að vopna mig með resepti, þegar ég kem hér í ræðustól á hv. Alþingi og minnist á þetta fyrir hv. þm. Ég veit, að þeir vita þetta. Nei, rök hv. 2. þm. Eyf. í þessu eru þess vegna gersamlega léttvæg. Ég hygg, að þetta dæmi sé svo greinilegt, að um þetta þurfi ekki að fara öllu fleiri orðum.

Sannleikurinn er sá, því miður, þó að við Íslendingar drekkum minnst áfengismagn af þessum norrænu þjóðum, þá verðum við að viðurkenna það hreinlega, sem við höfum séð allir, sem eitthvað höfum athugað þessi mál og t.d. haft tækífæri til þess að kynnast þessu í nágrannalöndum okkar, að við drekkum verr, þó að við drekkum minna. Við drekkum miklu verr en nágrannaþjóðirnar gera. Þetta er dapurleg staðreynd, sem við komumst ekki hjá að játa og viðurkenna.

Enn er svo aðeins eitt atriði í sambandi við áfengislöggjöf Svía. Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að þeir hefðu búið við hina hörmulegustu áfengislöggjöf, sem nokkur þjóð hefði búið við á undanförnum árum, þess vegna væri ekkert óeðlilegt, þó að þeir settu nú nýja löggjöf og þó að þeir jafnvel flýðu á náðir þessarar skelfingar, sem hann og aðrir skoðanabræður hans telja ölið. En ef við lítum nú aðeins örlítið aftur í tímann, man þá enginn hv. þm. það, að jafnvel hér á hinu háa Alþingi og ég tala nú ekki um í málgögnum þeirra mætu bindindismanna hér í landinu hefur oft einmitt verið vitnað til Svía sem fyrirmyndarþjóðar um löggjöf í áfengismálum? Og það er sérstaklega eitt atriði, sem menn hafa verið hrifnir af, þ.e. skömmtun áfengis í Svíþjóð. En það er einmitt hún, sem jafnvei bindindismenn í Svíþjóð núna viðurkenna hvað greinilegast að hefur gersamlega misheppnazt. Það er hún, sem verið er að afnema nú. Við reyndum þessa áfengisskömmtun hér á Íslandi einu sinni, og hvernig gafst hún? Hún gafst þannig, að jafnvel þing Stórstúkunnar, þar sem margir ágætir og skeleggir bindindismenn voru saman komnir, varð að gera ályktun um það að banna góðtemplurum að eiga áfengisbók. Það var orðið þannig, að sjálf Stórstúkan varð að viðurkenna það á þingi sínu, að fjöldi hennar ágætu félaga var farinn að taka út áfengisbók og taka áfengi út á hana. (Gripið fram í.) Ég býð hv. þm. Borgf. að taka þetta hiklaust aftur, um leið og hann leiðir rök að því, að þetta sé skakkt. En þetta var þannig, að sjálft Stórstúkuþingið varð að gera samþykkt um að banna góðtemplurum að eiga áfengisbók. Þannig gafst þá skömmtunin hérna, þannig gafst hún í Svíþjóð. Svo kemur hv. 2. þm. Eyf. og segir nú, að sænska áfengislöggjöfin hafi verið einhver sú hrapallegasta og hörmulegasta, sem um getur í heiminum. Hún er þá alveg nýlega orðin það að áliti hans og skoðanabræðra hans.

Að lokum vil ég aðeins minnast á það atriði í ræðu hv. 2. þm. Eyf., að það hefði verið með brögðum reynt að koma ölinu inn í þetta frv. Mér þykir sorglegt, að minn ágæti vinur er fjarstaddur. En ég mundi vilja spyrja hann: Hvaða brögðum? Hefur nokkuð annað gerzt en það, að það hafa verið fluttar brtt. við frv. hér í þingi, hreinlega fyrir opnum tjöldum, komandi til atkvæða eins og aðrar brtt., nákvæmlega eins og brtt. hv. 2. þm. Eyf., hv. þm. Borgf., hv. þm. A-Sk.? Hvaða brögð eru það, þó að ég og aðrir leyfi mér að flytja brtt. um eitthvað annað en þessir hv. þm. geta fellt sig við? Ég segi bara, að þegar þannig málflutningi er beitt, þá hlýtur það að vekja grunsemd um, að málstaðurinn, sem á bak við liggur, sé eitthvað göróttur, — að það þyki jafnvel þurfa að beita brögðum. Ég hef engum brögðum viljað beita í þessu máli, hvorki fyrr né síðar. Ég hef, eins og ég sagði áðan, flutt till. um þetta nú og fyrr, vegna þess að sannfæring mín hefur legið þar til grundvallar. Ég hef talið óskynsamlegt að halda sterkum drykkjum jafnharkalega að þjóðinni og hið íslenzka ríki gerir, en banna henni jafnframt að neyta létts og að flestra áliti óskaðlegs drykkjar, sem er þetta 4.4% öl. Ég veit að sjálfsögðu, að öl eins og aðra hluti er hægt að misbrúka. En hvaða lífsins gæði er ekki hægt að misbrúka? Það er hægt að borða svo mikinn sykur, það er hægt að drekka svo mikið kaffi, sem eru almennustu neyzluvörur almennings í hverju landi, að menn verði veikir af því, að þeir fái ákveðinn hættulegan sjúkdóm, að taugar mazma fari úr lagi. Það er hægt að misnota alla góða hluti.

Ég vil þess vegna endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég vona, að hv. þm. greiði atkv. um þessa till. eftir sannfæringu sinni, og þar með er ég ekki að drótta neinu ljótu að mínum virðulegu og ágætu þingbræðrum. Við vitum það, að máttur áróðursins getur stundum hrifið á hv. þm., og það hefur verið hafður í frammi mikill áróður af hálfu andstæðinga þessa máls, sem ég verð að telja ákaflega hæpinn. Það hefur jafnvel verið beitt mjög ólýðræðislegum aðferðum. Það hafa verið gerðar tilraunir til þess að „terrorisera“ einstaka menn fyrir það að hafa þorað að segja það, sem þeir hafa meinað í þessum efnum. En ég endurtek þáð, sem ég sagði: Ég vona, að hv. þm. greiði atkvæði í þessu máli eftir sannfæringu sinni.