05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

12. mál, áfengislög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. allshn. hefur lagt hér fram tillögur á þskj. 660, sem frsm. hennar var að mæla fyrir. Meðal annars er þar till. um viðbót við næstsíðustu málsgr. 12. gr. frv. Nefndin leggur til í þessari viðbótartill. sinni eða brtt., að ráðh. geti ákveðið nánara eftirlit með veitingastöðum, er vinveitingaleyfi hafa, og að ríkissjóður skuli greiða kostnað við eftirlitið, en leyfishafar endurgreiða kostnaðinn ríkissjóði eftir ákvörðun ráðherra. Ég hef veitt því athygli, að á öðru þskj., sem hér liggur fyrir, þar sem eru brtt. frá hv. þm. Borgf., flytur hann till. um eftirlitsmann eða eftirlitsmenn með veitingastöðum, er vínveitingaleyfi hafa, og leggur til, að dómsmrh. skipi slíka eftirlitsmenn. Ég tel, að það sé óþarft og að ýmsu leyti óeðlilegt að fara að skipa sérstaka eftirlitsmenn með þeim veitingahúsum, sem vínveitingaleyfi hafa Ég tel, að það sé eðlilegra, að það séu löggæzlumennirnir eða lögreglan á hverjum stað, sem hafi eftirlit með slíkum stöðum alveg eins og annarri starfsemi og hátterni manna yfirleitt. Hins vegar sýnist mér, að það geti vel komið til mála að láta veitingahús, sem fá vínveitingaleyfi, bera þann kostnað, sem kann að verða sérstaklega vegna vínsölunnar á veitingahúsunum, þ.e.a.s. kostnað við eftirlit með starfsemi þeirra vegna þessara veitinga, eins og n: hér leggur til. Ég vil því leyfa mér að leggja hér fram brtt. við till. nefndarinnar. Því miður hef ég orðið nokkuð seint fyrir með þessa till. og verð að leggja hana fram skriflega, fara fram á það við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða um þessa till. mína. En till. er þannig, með leyfi hæstv. forseta - það er brtt. við 1. tölulið á þskj. 660; þar eru brtt. nefndarinnar:

Meginmál b-liðar í fyrri brtt. nefndarinnar orðist svo: „Leyfishafar skulu greiða kostnað við það sérstaka eftirlit eftír ákvörðun ráðherra.“

Til nánari skýringar á þessu vil ég leyfa mér að lesa næstsíðustu málsgr. 12. gr., eins og hún er nú í frv, á þskj. 584. Sú málsgr. er þannig:

„Skylt er löggæzlumönnum að gefa sérstakar gætur að starfsemi þeirra veitingahúsa, sem vinveitingaleyfi hafa.“ — Og ef mín till. yrði samþ., þá kæmi þessi viðbót: „Leyfishafar skulu greiða kostnað við það sérstaka eftirlit eftir ákvörðun ráðherra.“

Ég vænti, að mönnum sé ljóst, hvað fyrir mér vakir með þessari till. Það er að koma málinu í það horf, að það verði, eins og segir í frv. nú, skylda löggæzlumanna að hafa sérstakar gætur á starfsemi veitingahúsanna, sem hafa vínveitingaleyfi, og að leyfishafar skuli greiða kostnað við það sérstaka eftirlit eftir ákvörðun ráðh, Þetta tel ég eðlilegra en að farið verði að stofna hér til sérstakra eftirlitsstarfa við veitingahúsin utan við lögreglu viðkomandi staða.

Þá hef ég hér aðra brtt. að flytja, sem einnig er skrifleg, en það er brtt. við 12. gr. frv., og vil ég leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi forseta. Þessi till. mín er þannig, að á eftir 7. málsgr. komi ný málsgr., þannig:

„Í veitingahúsum má aðeins selja vín með máltíðum og eigi eftir kl. 9 að kvöldi.“

Það eru ýmsir menn hér á landi, sem telja sér það nokkurs virði að geta fengið vín á veitingahúsum. Ýmsir þeirra, sem halda slíku fram, að þannig eigi þetta að vera, telja sig í hópi svokallaðra hófdrykkjumanna, og mér finnst, að þeim ætti a.m.k. að nægja þetta, ef þeir gætu fengið vín með mat á veitingahúsum, og ættu ekki að gera frekari kröfur. Ég fæ ekki séð, að það væri til neins gagns, hvorki fyrir þá og enga aðra raunar; að sitja yfir drykkju á síðkvöldum á veitingahúsum. Það ætti að vera nægjanlegt, að þeir gætu fengið þar vin með mat, þó að drykkju væri lokið kl. 9 að kvöldi. Ég hygg, að það megi segja, að það sé öllum fyrir beztu að stunda ekki drykkju fram á nætur, því að vera má, ef þannig er að farið, að það hafi nokkur áhrif á starfsgetu manna, ef þeir eru oft seint á kvöldi eða að næturlagi við drykkju.