05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

12. mál, áfengislög

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég tel, að hv. þd. hafi nú að mestu leyti sagt álit sitt á því frv., sem hér liggur fyrir, þ.e.a.s. frv. til áfengislaga. En hv. þm. Borgf. hefur flutt á þskj. 610 brtt. við frv. eins og það liggur hér nú fyrir; og það er aðeins einn liður þessara: till., sem ég vildi gera aths. við, en það er bliður till. hans við 12. gr., en þar er svo ráð fyrir gert, að ekki verði greitt þjórfé eða þjónustugjald með hundraðshlutagjaldi af vinveitingaþjónustu.

Hér yrði að mínu áliti, ef till. þessi yrði samþ., farið inn á geigvænlega braut með íhlutun löggjafans um kaupgreiðslur til einnar launastéttar launþegasamtakanna, en það yrði gert, ef setja ætti bann við ákveðinni kaupgreiðsluaðferð. Launþegasamtökin hafa oftlega farið þess á leit, að lögfest yrðu sjálfsögð hlunnindi til þeirra, og beitt til þess mikilli orku sinni. Hins vegar hafa þau aldrei farið fram á lögfestingu kaupgjaldsins eða kaupgreiðsluaðferða, sem fyrst og fremst er rökstutt af fenginni reynslu og ótta við þær geigvænlegu verðlagssveiflur, sem oftlega eiga sér stað í greiðslum til launþega almennt. Þessi afstaða hefur til þessa verið talin eðlileg og sjálfsögð, jafnframt því að stéttarfélögin hafi rétt til þess að semja hverju sinni við atvinnurekendur um kauptaxta sína og kaupgreiðsluaðferðir. Þennan rétt á að skerða varðandi þá launþegastétt, veitingaþjónana, sem hér eiga hlut að máli. Ég tel því, að hér sé verið að opna leið til frekari afskipta löggjafans af kaupgreiðslum og um leið skerðingu á helgasta samningsrétti verkalýðsfélaganna um veigamesta atriðið í öllum samningsgerðum, þ.e. kaupgreiðslur og kaupgreiðsluaðferðir.

Af þessum ástæðum er ég andvígur þessari till. fyrst og fremst. í annan stað sé ég ekki, að samþykkt þessarar till. gæti á nokkurn hátt komið í veg fyrir, að þeir, sem á annað borð neyta áfengis, t.d. á opinberum veitingastöðum, greiddu veitingaþjónunum umframgreiðslur, og þar með er grundvöllur till. að mínu áliti fallinn.

Hv. þm. V-Húnv. ásamt fleirum hefur lagt hér fram tvær skriflegar brtt., sem miða að því ásamt annarri till., sem hann er meðflm. að ásamt þm. A-Sk. og 11. landsk. þm., að setja hömlur við því, að dans fari fram í þeim veitingasölum, þar sem áfengi er veitt, a.m.k. á sama tíma og áfengi er veitt.

Ég tel, að þessár brtt. séu komnar fram af þeim hvötum að spyrna við sölu áfengra drykkja, enda hafa aðrar till. þessara hv. alþm. miðað í þá átt. En ég er algerlega á öndverðri skoðun við þessa samþm. mína, og mér fyndist það sönnu nær að fenginni reynslu og af að hafa verið sjónarvottur að þeim dansleikjum, þar sem vín er veitt og þar sem það hefur ekki verið veitt, að þeir gerðu það heldur að skyldu, að dans skyldi fara fram í þeim sölum, sem vín væri veitt í, ef það er einlægur vilji þeirra að draga úr sölu og neyzlu áfengis á opinberum vettvangi.

Fyrir till. allshn. hefur verið flutt sérstök framsaga, og tel ég ekki þörf á að ræða það sérstaklega. Það hefur verið skýrt ýtarlega, hvað n. hyggst fyrir með þeim brtt., sem hún hefur flutt.