05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

12. mál, áfengislög

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í sambandi við setningu nýrra áfengislaga tel ég, að æskilegast hefði verið að geta miðað öll lagaboð fyrst og fremst við óskir neytenda, á sama hátt og gera ber um almenna sölu og dreifingu neyzluvarnings. Hitt er annað mál, að vegna þess, hve tíð ofnautn áfengis er með okkar þjóð, og raunar væri réttara að kveða fastar að orði og segja: Vegna þess, hve alvarlegt böl hlýzt af áfengisnautn í okkar landi, þá hef ég heldur kosið að fylgja fram þeirri stefnu, að fremur beri að hindra rýmkun áfengissölunnar en að stuðla að henni. Þ.e.a.s.: Ég tel það eðlilegra, miðað við ríkjandi ástand í áfengismálum, að leggja nokkrar hömlur á möguleika þess fólks til áfengisneyzlu, sem telur sig hófsamt og heilbrigt í þessu efni, en að opna nýjar snörur fyrir allt of marga einstaklinga, sem neyta áfengis með sjúklegum hætti.

Þeir hv. andstæðingar mínir í þessu máli, sem fært hafa rök fyrir þeim sjónarmiðum, að til heilla mundi reynast að rýmka um sölu áfengis, hafa yfirleitt haldið því fram, að hér væri nauðsyn að koma til móts við nokkuð almennar óskir fólks, óskir, sem miðuðu að aukinni menningu í meðferð áfengis, enda væri núverandi ástand í áfengismálum óþolandi.

Vissulega er ástandið í áfengismálum Íslendinga vont í dag. En alveg sérstaklega með tilliti til þess ætti Alþingi að finna til þeirrar ábyrgðar að,bæta ekki gráu ofan á svart, en það óttast ég að geti orðið, ef svo heldur fram sem horfir um setningu nýrra áfengislaga.

Ég leyfi mér líka að efast um, að óskir um breytingar í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, séu eins almennar og hv. andstæðingar mínir vilja vera láta.

Ég bendi hv. alþm. á, að Alþingi er þannig í sveit sett, að stofnunin er umkringd af veitingahúsum á allar hliðar, og er mér ekki grunlaust um, að þeir virðulega nágrannar Alþingis, sem sjá pyngju sinni nokkra hagnaðarvon- í þessari væntanlegu fjölbreytni í söluvarningnum, hafi látið áhrifa sinna gæta hér öllu meira en landsmenn almennt, og má segja, að ekki sé það á móti vonum.

Það er á hinn bóginn óeðlilegt, að Alþingi samþykki lög um rýmkun áfengissölu á þeim forsendum, að þar sé stigið spor í menningarátt, ef jafnframt er opnaður upp á víða gátt möguleiki fyrir jafnfráleitri ómenningu og gegndarlaust okur veitingahúsa á söluvörum til viðskiptafólksins er.

Nú, þegar fullvíst má telja, að áfengislagafrv. nái fram að ganga með sínum ákvæðum um veitingar á gisti- og veitingahúsum, tel ég, að sjálfsagt sé að setja skorður við okri þessara aðila á áfengi, þannig að álagning þeirra á vínföng verði bundin við ákveðið takmark, sem telja má hóflegt.

Ákvæði frv. eru heldur óglögg um það, hver veitinga- eða gistihús skuli fá vínveitingaleyfi. Nokkra tryggingu fyrir því, að hinir verðugustu hljóti leyfin, teldi ég einmitt þá, að leyfin fælu ekki í sér neina stórkostlega gróðamöguleika og yrðu því ekki sérlega eftirsóknarverð, nema fyrir þá, sem vildu framreiða vín af þjónustusemi við gesti sína fyrir hæfilega þóknun og án okurgróða.

Ég vil einnig vekja athygli á því að lokum, að yfirlýstur tilgangur frv. er að koma í veg fyrir misnotkun áfengis. Til misnotkunar á áfengi tel ég að horfi okur einstakra veitingahúsa á áfengi umfram allt það, sem hóflegt gæti talizt.

Með tilliti til alls þessa leyfi ég mér að bera hér fram brtt., sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 12. gr. Á eftir 2. málsgr. komi ný málsgr., svo hljóðandi: Eigi skal veitingahúsi, sem leyfi hefur til áfengisveitinga, heimilt að selja áfengi með hærra verði en sem nemur 20% álagningu frá útsöluverði áfengisverzlunar ríkisins.“

Ég hef orðið helzt til síðbúinn með þessa till., en þó mun nú búið að útbýta henni hér í d., og verð ég að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir till., að hún fái að koma hér fyrir.