05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

12. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Við 2. umr. þessa máls, flutti ég allmargar brtt. við þetta frv. Ég flutti þá till. um það, að felldar yrðu niður úr frv. allar heimildir til handa dómsmrh. að veita einstökum veitinga- og gistihúsum leyfi til vínsölu þar. Þessar brtt. mínar fengu að vísu nokkrar undirtektir hér í hv. d., en eigi nógu miklar samt til þess að þær næðu samþykki. Till. voru sem sé felldar. Í þessu frv., sem nú liggur fyrir hér til 3. umr., stendur því áfram sú heimild, hvað þetta snertir, sem í því var, þegar það kom frá Ed., þar sem málið var upphaflega lagt fram, og er því ekki um að ræða lengur að fyrirbyggja þá hættu, sem ég hef oft hér áður bent á og í því felst og þá sérstaklega fyrir æskulýð landsins, að teknar verði aftur upp vínveitingar á veitinga- og gistihúsum og þar með lagður grundvöllur að því samkvæmislífi, sem alkunnugt er, þar sem fjöldi manns er saman kominn og vínið flæðir um borð og stóla. Hér liggur því fyrir, hvað þetta atriði málsins snertir, einungis það, hvort kleift muni að herða nokkuð á þeim hömlum, sem í frv. felast og miða að því að draga úr þessari hættu. Í frv., eins og það liggur fyrir nú, eru að vísu sett nokkur ákvæði, sem ganga í þá átt, en sú smíð stendur mjög til bóta, ef hún á að ná tilgangi sínum. Ég hef þess vegna leyft mér nú, við 3. umr. þessa máls, að freista þess enn, að koma nokkrum, vörnum við með því að auka nokkuð á um þær takmarkanir, sem í frv. felast.

Fyrsta brtt. mín er við nokkur ákvæði 12. gr., sem fjalla um þessi vinveitingaleyfi. Þar er svo ákveðið í upphafi greinarinnar, að í kaupstöðum, þar sem áfengisútsala er, geti dómsmrh. veitt veitingahúsum leyfi til vínveitinga, þegar eftirtalin skilyrði eru fyrir hendi, sem hér eru svo upp talin í stafliðum á eftir. Hér vil ég bæta inn í, eftir að dómsmrh. er veitt þessi heimild, að þetta verði aðeins gert, ef áfengisvarnaráð mælir með því. Eins og kunnugt er, þá höfðu ákvæðin í þessu frv. um áfengisvarnaráð verið felld niður í meðferð málsins í Ed., en ákvæðin aftur tekin inn í frv. eftir till. allshn. við 2. umr. Og starf áfengisvarnaráðs er markað í 28. gr. þessa frv. Þar segir svo í upphafi gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengisvarnaráð fer með yfirstjórn allra áfengisvarna í landinu. Það skal stuðla að bindindissemi, vinna gegn neyzlu áfengra drykkja og reyna í samráði við ríkisstjórn, áfengísvarnanefndir og bindindissamtök að afstýra skaðlegum áhrifum áfengisneyzlu.“

Eins og þetta ákvæði 28. gr. ber með sér, þá á áfengisvarnaráðið að vinna mjög merkilegt og margþætt starf í þágu bindindisstarfseminnar í landinu. Þess vegna tel ég það sjálfsagt, að þegar um er að ræða slíkar heimildir til áfengissölu og annars í þessu frv., sem hnígur á sömu lund, að áfengisráð verði einmitt haft með í ráðum við ákvörðun slíkra heimilda. Þetta er ástæðan og grundvöllur þess, að ég hef lagt til, að því aðeins verði leyfðar vínveitingar á veitingahúsum, að áfengisvarnaráð mæli með því. Það virðist mér vera mjög í anda þess tilgangs, sem lýst er í 28. gr. um starfsemi áfengisvarnaráðs.

Næsta brtt. hjá mér, sem einnig er við þessa sömu grein, er að taka upp í frv. aftur ákvæði, sem felld voru niður í meðferð málsins í Ed. Það er um það, að eigi sé greitt þjórfé af sölu áfengra drykkja né að veitingahúsið launi starfsfólki sínu með hundraðsgjaldi af sölu þeirra. Þetta ákvæði var í frv. eins og ríkisstj. lagði það fyrir Ed., en var fellt þar niður. Mér virðist, að þetta eigi að geta verið nokkur þáttur í því að hamla á móti skaðlegum áhrifum vínveitingaleyfa á veitingahúsum, að þessi greiðslumáti til þeirra, sem framreiða þar áfengið í hendur hótelgestanna, sé ekki leyfður, enda er það í samræmi við ákvæði, sem tekin hafa verið upp í hliðstæða löggjöf sums staðar a.m.k. á Norðurlöndum. Það leiðir af sjálfu sér, þegar hótelþjónar eiga allt sitt kaup og greiðslu fyrir starf sitt undir því, að sem mest sé drukkið á hótelinu, að þá leggi þeir sig svo fram í því að greiða fyrir vínsölunni eins og þeir hafa getu og orku til. Og er það vitanlega mjög mannlegt frá því sjónarmiði, að eftir þessum leiðum einum eiga þeir þar að afla allra sinna tekna. Ég held þess vegna, að það sé allþýðingarmikill liður í áfengisvörnum hér hjá okkur, að slíkt ákvæði sem þetta sé tekið í lög, og þess vegna hef ég nú freistað þess að færa frv. aftur að þessu leyti í hið sama form og það var, þegar það var lagt fram af hálfu ríkisstj.

Hv. 7. landsk. þm. lagði hér gegn þessari till. við umr. fyrr í dag og taldi þetta vera — ég held hann hafi orðað það þannig — geigvænlegt brot og skerðingu á samningafrelsi. Það má nú náttúrlega, ef menn vilja fylgja þessari hugsun út í æsar, benda á, að í þessu frv. er að finna mörg ákvæði, sem leggja hömlur á athafna- og atvinnufrelsi manna. Að sjálfsögðu eru það hömlur á atvinnufrelsinu, að það skuli ekki öllum vera heimilt að verzla með áfenga drykki. Það eru einnig líka hömlur að sínu leyti, að bannaðar eru allar áfengisauglýsingar, og svona mætti margt telja upp í þessu frv., sem eru hömlur á atvinnufrelsi manna. En þetta setja menn ekki fyrir sig, af því að nauðsynin á því að setja þessar hömlur til þess að hamla upp á móti drykkjuskaparóreglunni er talin vera miklu þýðingarmeiri fyrir þjóðfélagið í heild heldur en það frjálsræði, að allir geti farið með þessar hættulegu nautnavörur og hagað athöfnum sínum í öllu og einu eftir því, — sem bezt þjónar þeirra hagsmunum. Ég sé ekki, að á þessu sé neinn munur eða á ýmsum öðrum ákvæðum frv., sem hv. 7. landsk. virtist ekki neitt hneykslast á, og þess vegna sé ekki ástæða til þess að mynda sér afstöðu gegn þessu ákvæði einu út frá þessu sjónarmiði, heldur eigi að gera það með tilliti til þess gildís og þýðingar, sem þetta ákvæði hefur, að því leyti sem það getur átt þátt í að hamla á móti drykkjuskaparóreglu á veitingastöðum, eftir að þannig hefur verið gengið frá löggjöfinni, að slíkar veitingar eru heimilaðar á þessum stöðum. Í þessu ljósi á að sjálfsögðu að skoða þessa brtt. og þau ákvæði, sem hún inniheldur.

Þriðja brtt. mín, sem er stafliður c, snýr að þeim ákvæðum frv., þar sem dómsmrh. er heimilað að veita veitingastöðum leyfi til áfengissölu utan kaupstaðanna. Eru aðeins sett þau skilyrði fyrir slíkri heimild í frv., að veitingahúsið hafi á boðstólum mat, fjölbreytta óáfenga drykki með hóflegu verði o.s.frv. og að veitingahúsið sé fyrsta flokks að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu. Ef samþ. verður till. mín um, að bannað sé þjónustugjald, þá er það einnig að því tilskildu, að það ákvæði sé uppfyllt. En í sambandi við heimild dómsmrh. til að veita slík leyfi er sett, að hann leiti fyrst umsagnar hlutaðeigandi sýslunefndar. Skilyrði fyrir því, að veitingahús utan kaupstaða fái vínveitingaleyfi, er, að veitingahúsreksturinn sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn. En hér er ekkert ákvæði sett um það, hver eigi að úrskurða um það, hvort þannig sé ástatt um þetta veitingahús eða þessi veitingahús, að þau séu að mestu leyti rekin í sambandi við erlenda ferðamenn. Það er ekki þess að vænta, að ráðh., sem situr hér í Reykjavík, hafi aðstöðu til þess að dæma um þetta víðs vegar úti um land. Til þess þarf kunnugleika manna heima fyrir. Ég hef þess vegna orðað þessa grein upp og sett inn í hana tvö viðbótarákvæði, sem ættu að gera hana fyllri og leiða það í ljós, að hér kæmi til fullkominn kunnugleiki, auk þess sem áfengisvarnaráð verði haft þar með í ráðum. Samkvæmt minn orðalagi hljóða ákvæðin á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta:

„Utan kaupstaða er dómsmrh. heimilt, að uppfylltum skilyrðum a–e-liða og eftir að leitað hefur verið umsagnar hlutaðeigandi sýslunefndar, að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga, ef áfengisvarnanefnd sú, sem í hlut á, telur, að veitingahúsreksturinn sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn, enda mæli áfengisvarnaráð með því, að leyfið sé veitt.“

Ég tel, að miklu sé betur gengið frá þessum ákvæðum með þeirri skipan, sem ég legg til að á þessu sé höfð. Hitt er ekki að efa, að það er vitanlega öllum fyrir beztu, að vel sé um það búið, að gætt sé allrar varfærni í veitingaleyfum slíkum sem þessum út um hinar dreifðu byggðir landsins.

Þá er í frv. í þessari sömu grein svo ákveðið, að ef áfengisútsala er lögð niður í kaupstað samkvæmt ákvæðum 10. gr., þá verður vínveitingaleyfi veitingahúss í þeim kaupstað ekki framlengt að gildistíma þess loknum. Nú er í þessu frv. gert ráð fyrir því að veita slík leyfi, að ég ætla, til fjögurra ára í senn. En það leiðir af sjálfu sér, að fyrir getur komið, að áfengisútsala verði lögð niður einhvern tíma á leyfistímanum, máske á fyrsta ári leyfistímans, og þannig geti haldizt áfram vínveitingaleyfi á veitingahúsum í allt að 3 ár, eftir að búið er að leggja niður áfengisútsöluna á staðnum. Það má þess vegna öllum ljóst vera, hve mikið ósamræmi er í þessu og hversu mjög það muni draga úr þeirri þýðingu, sem lokun áfengisstaðarins gæti haft fyrir viðkomandi umdæmi. Ég hef þess vegna lagt til að orða þetta þannig:

„Ef áfengisútsala í kaupstað er lögð niður samkvæmt ákvæðum 10. gr., falla samtímis úr gildi vínveitingaleyfi veitingahúsa þar.“

Það er sjálfsagt, þegar vínveitingaleyfi er veitt, að hafa fyrirvara á um það, að þetta megi gera, svo að valdi ekki árekstri, ef til þarf að taka. Ég held, að allir hv. dm. hljóti að vera mér sammála um, að það er í miklu meira samræmi hvað við annað, að þessi háttur sé hér á hafður.

Næsta brtt. mín er einnig við 12. gr. Í gr. er gert ráð fyrir, að löggæzlumenn hafi sérstakar gætur á starfsemi þeirra veitingahúsa, sem hafa vinveitingaleyfi. Ég er ákaflega vantrúaður á, að losaralegt ákvæði eins og þetta muni koma að haldi, að því er snertir nauðsynlegt eftirlit með veitingahúsum, sem hafa vínveitingaleyfi, svo mjög sem ætla má, að þar geti margt að höndum borið, sem full þörf væri á að líta eftir að staðaldri. Ég hef þess vegna tekið hér upp till., sem hv. 2. þm. Eyf. hafði nú upphaflega flutt, en tekið aftur, og ég að nokkru gert grein fyrir áður. Hún er á þá lund, að dómsmrh. skipi eftirlitsmann, einn eða fleiri, í öllum þeim veitingahúsum, sem vinveitingaleyfi fá, og ákveðið er, að ríkissjóður greiði laun þessara manna, en að veitingahúsið greiði aftur ríkissjóði kostnaðinn við þetta samkv. ákvörðun ráðherra. Eftirlitsmaðurinn á svo vitanlega — það er hans starf í veitingahúsinu — að gefa því gætur og fylgjast með því, að í öllu sé framfylgt reglum, sem settar eru í sambandi við veitingaleyfin. Þetta verður engan veginn öðruvísi gert, svo að nokkru haldi komi, heldur en að þar sé jafnan maður til staðar, sem hefur þetta verk með höndum og sé algerlega óháður eiganda veitingahússins eða þeim manni, sem rekur veitingahúsið. En ákvæðin í frv. upphaflega voru þannig, að bann átti að greiða laun hans, en það leiðir af sjálfu sér, að slíkt ákvæði var öldungis ótækt, enda má gera ráð fyrir því, að hv. d. fallist á, að svo sé, með því að taka upp þessi ákvæði.

Ég vil segja út af því, sem fram kom hér í dag hjá hv. þm. V-Húnv., sem vildi halda hinum losaralegu ákvæðum um löggæzlumenn, sem í frv. eru, að ef því ákvæði væri haldið, þá mundi það að sjálfsögðu verða framkvæmt með þeim hætti, að fastur maður yrði skipaður til slíks eftirlits, ef eftirlitið ætti að koma að nokkru gagni, þannig að það væri enginn munur á þeim kostnaði, sem fylgdi því, hvor leiðin sem væri valin. Munurinn yrði þá aðeins sá, ef ákvæðunum væri haldið eins og þau nú eru í frv., að í stað þess að ráðh. skipar þennan mann, þá mundi lögreglustjórinn á staðnum gera það. Ég held þess vegna, að hvernig sem á þetta er litið, þá verði því markmiði að koma á raunhæfu eftirliti með slíkum veitingahúsum langbezt og örugglegast náð með því að taka upp þau ákvæði í þessu efni, sem ég legg hér til.

Hv. allshn. hefur nú einnig flutt um þetta ákvæði brtt., sem er b-liður í brtt. hennar. Þar segir svo, að ráðh. geti ákveðið nánara eftirlit með veitingahúsum, er vínveitingaleyfi hafa, ríkissjóður greiði kostnað eftirlits, en leyfishafar skuli endurgreiða hann ríkissjóði eftir ákvörðun ráðherra. Þetta er alveg í samræmi við það, sem ég legg til. En munurinn er sá á þessum brtt., að hér er ráðherra aðeins gefin heimild til þess að koma á slíku eftirliti, en í mínum brtt. er lagt fyrir dómsmrh. að skipa slíkan eftirlitsmann. Og mér finnst, að hér sé um svo þýðingarmikið ákvæði þessarar löggjafar að ræða, að sjálfsagt sé að setja um þetta ákveðið ákvæði inn í frv., eins og ég hef lagt til að gert verði með brtt. minni. Náttúrlega er starf þessa eftirlitsmanns, eins og ég hef áður sagt, eingöngu miðað við það, að haldnar séu settar reglur. Hitt getur líka vel að höndum borið, og er ekki ólíklega til getið, að svo verði í ýmsum tilfellum, að lögreglumenn þurfi þarna einnig að koma við sögu í sambandi við það, að upp komi órói og ryskingar sem afleiðing af hóflausri vínnautn, svalli og sukki, sem því miður má gera ráð fyrir að verði fylgifiskur og afleiðing slíkra veitingaleyfa. Ég gæti vel trúað því, að það mundi sækja nokkuð í það horf, sem fram kemur í vísu Sigurðar Breiðfjörðs, er mun hafa verið kveðin á Hafnarárum hans, og hún er svona:

Veitt er snjöllum vigra Ullum,

verða sköll um drykkjugólf.

Þeytt er öllum augafullum

öls úr höllu klukkan tólf.

Ætli það verði ekki þessi drykkjumenning, sem við fáum oft og iðulega að horfast í augu við, eftir að búið er að nýju að lögtaka, að slík leyfi skuli veitt takmarkalítið samkv. ákvæðum þessa frv., ef dómsmrh. notar þær heimildir, sem honum eru veittar samkv. frv., út í æsar?

Næsta brtt. mín er við 16. gr. frv. Þar er svo ákveðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Áfengi má ekki afhenda né veita neinum, sem er bersýnilega ölvaður, og ekki heldur yngri mönnum en 21 árs. Kaupandi áfengis skal sanna aldur sinn með vegabréfi eða á annan fullnægjandi hátt.“ Og enn fremur: „Óheimilt er að selja þeim manni áfengi, er sekur hefur gerzt um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis.“

Eiga að sjálfsögðu að liggja fyrir á staðnum upplýsingar um þá menn, sem orðið hafa þannig brotlegir að þessu leyti.

Nú var felld till., sem hér var borin fram við 2. umr. þessa máls, þar sem lagt var til að banna að senda áfengi í póstsendingum. Til þess að hægt sé að framfylgja þessu ákvæði frv. um að veita ekki eða afhenda ekki yngri mönnum en 21 árs og ekki heldur þeim, sem sekir hafa gerzt um óleyfilega sölu eða bruggun, þá legg ég til, að tekið sé upp í frv. ákvæði um það, að óheimilt sé að senda mönnum áfengi í pósti, nema færðar hafi verið fullnægjandi sannanir fyrir því, að hvorki aldur né afbrot sé því til fyrirstöðu, að þeim megi afhenda slíkt vín. Nú fer afhending slíkra vína fyrst fram í hendur viðtakanda, þegar hann tekur á móti sendingunni á pósthúsinu. Þess vegna er ómögulegt að framfylgja þessum ákvæðum frv., þegar það er orðið að lögum, öðruvísi en að fyrir liggi, að hver maður, sem óskar eftir því að fá sér sent vín með pósti, verði, áður en vínið er sent, að gera fulla grein fyrir þessum tveimur ákvæðum, að hann sé ekki yngri en 21 árs og að hann hafi ekki orðið brotlegur við áfengislöggjöfina. Að öðrum kosti væri í þessu tilfelli hér af hálfu löggjafans gengið að því vitandi vits að vera að setja inn í frv. ákvæði, sem ómögulegt væri að framfylgja, og það leiðir af sjálfu sér, að það er gersamlega óforsvaranlegt að ganga þannig frá löggjöf á Alþ., að það sé alveg vitað fyrir fram, að það sé ekki hægt að uppfylla ákvæði laganna. Það er nógu margt, sem fyrir getur komið og ekki var hægt að sjá fyrir og felur í sér vandkvæði á því, að þetta verði þannig í framkvæmdinni. En að setja slík ákvæði inn í frv. eða lög vitandi vits er vitanlega gersamlega ósamboðið löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Þess vegna er ekki nema um tvennt að gera: að breyta þessum ákvæðum eða samþykkja þessa brtt. mína að því er snertir vín, sem sent er með pósti, og er ekki að efa, að svo verði einnig á málinu tekið.

Þá hef ég hér einnig flutt brtt. við 20. gr., þar sem lögreglustjóra er heimilað að veita félögum manna leyfi til áfengisveitinga í félagsherbergjum. Þar vil ég einnig bæta við, að lögreglustjóri megi þó, að fengnu samþykki hlutaðeigandi áfengisvarnanefndar, veita slík leyfi. Og skírskota ég enn til þess mikilvæga þáttar í lögum þessum, þar sem eru ákvæðin um starfsemi áfengisvarnanefndar og það hlutverk, sem hún á að inna af hendi í sambandi við framkvæmd þessara laga.

Þá hef ég flutt hér brtt. við 25. gr. Þar er svo ákveðið, að ef vafi leikur á því, hvort sakborningur samkv. þessum kafla, þ.e. 6. kafla áfengislaganna, sé undir áhrifum áfengis, skuli bæði dómara og sakborningi heimilt að láta skera úr því með blóðrannsókn. Í staðinn fyrir „heimilt“ vil ég setja „skylt“, því að hér getur verið um svo þýðingarmikið atriði að ræða um ölvun sakbornings, og þó allra helzt í sambandi við akstur bifreiðar, að ef vafi sé á um þetta, þá sé það ekki aðeins heimild til, að slík rannsókn verði gerð, heldur verði undir öllum kringumstæðum skylt að láta slíka rannsókn fara fram.

Þá flyt ég hér enn á ný breytingar um það, að stofna skuli áfengisvarnasjóð. Ég flutti um þetta brtt. við 2. umr. þessa máls og gerði þar ráð fyrir því, að í tveimur liðum yrði svo ákveðið, að 10% af ágóða áfengisverzlunarinnar yrði varið í vissu skyni, að 4% yrðu notuð til áfengisvarna, bindindisfræðslu og bindindisútbreiðslu, en 6% til byggingar drykkjumannahæla, til lækningastöðva handa drykkjumönnum, sjúkrahúsa og elliheimila og enn fremur til húsbygginga fyrir bindindis- og hjálparstarfsemi á vegum góðtemplarareglunnar. Þessar till. mínar voru felldar. Ég vil ekki gefast upp við þá hugmynd, sem í þessu felst og mér finnst sjálfsögð og eðlileg, að af áfengishagnaðinum renni einhver hluti — og það lítill hluti samkv. þessum till. — til þess að hamla upp á móti þeirri eyðileggingu og hörmungum, sem oft og einatt sigla í kjölfar vínnautnarinnar. Og ég heyri sagt um þá áfengislöggjöf, sem nú er verið að setja í Svíþjóð, að 1 því frv., sem nýlega er búið að leggja þar fyrir þingið, sé einmitt ákvæði um mjög ríkuleg framlög í þessu skyni. Það er náttúrlega sömu sögu að segja þar eins og hér og alls staðar annars staðar, að af vínnautninni stafar mikil óhamingja. Þess vegna þarf að vera fyrir hendi ríkur skilningur á því og stutt að því, að haldið sé uppi sem öflugustum vörnum við þeirri hættu, sem hér er á ferðinni. Nú hef ég í þessum brtt. mínum um stofnun áfengisvarnasjóðs fundið mig tilneyddan, miðað við þá útreið, sem fyrri till. mínar um þetta efni fengu, að draga hér allmikið úr og tek ekki hér upp nema helming þeirrar upphæðar, sem ég hafði ætlað að til þessara mála gengi samkv. þeim till., sem ég bar hér fram við 2. umr. málsins. Ég legg sem sé til, að stofna skuli áfengisvarnasjóð og hlutverk hans sé að standa straum af kostnaði við áfengisvarnir, bindindisfræðslu og bindindisútbreiðslu og að í hann renni einungis árlega 5% af hagnaði áfengisverzlunar ríkisins. Tekjur þessa áfengisvarnasjóðs ættu að geta orðið eitthvað á fjórðu milljón, miðað við áfengisgróðann eins og hann var á s.l. ári, og af þessari upphæð yrði varið til Stórstúku Íslands 350 þús. til bindindisstarfsemi og til bindindisfélaga í skólum 30 þús. í sama skyni. Að öðru leyti verði sjóðnum varið til byggingar drykkjuheimila, til lækningastöðva handa drykkjumönnum, sjúkrahúsa, elliheimila og húsbygginga fyrir bindindis- og hjálparstarfsemi góðtemplarareglunnar eftir nánari ákvörðun heilbrmrh., að fengnum till. áfengisvarnaráðs. Og svo er ráð fyrir því gert, að áfengisvarnaráð fari með stjórn og reikningshald sjóðsins og að nánari ákvæði um þetta verði sett í reglugerð.

Hv. allshn. hefur gengið nokkuð í áttina við þessar minar till. með brtt. sínum á þskj. 660. Þar leggja þeir til, að það komi ný grein, svo hljóðandi, að á árinu 1955–56 á að leggja í gæzluvistarsjóð af ágóða áfengisverzlunarinnar 750 þús. kr. á ári til viðbótar því framlagi, sem ákveðið er í 15. gr. þessara l., sem er sama upphæð, og þessu á að verja til þess að byggja hæli yfir ölvaða menn og drykkjusjúka. Enn fremur leggja þeir til, að á árunum 1957–59 verði greidd til sama sjóðs af ágóða áfengisverzlunarinnar 11/2 milljón hvert ár og um meðferð þess fjár fari eftir ákvörðun heilbrigðisstjórnarinnar, sbr. framangreinda lagagrein.

Eins og menn sjá, þá er æði mikill munur á þessum brtt. og brtt. þeim, sem ég flyt, bæði að því leyti, að þær eru mjög tímabundnar, eða tvö ár í fyrra tilfellinu og þrjú ár í seinna tilfellinu, sem þessi ákvæði eiga að gilda, auk þess sem þeim er markaður miklu þrengri bás en gert er samkvæmt mínum till. Og ég verð að segja það, að það er harla napurt og felur í sér litla viðurkenningu á starfsemi bindindismanna hér í þessu landi, að nú, þegar verið er að ganga frá þessu áfengislagafrv., sé ekki gert ráð fyrir neinu fjárframlagi til bindindisfræðslu og bindindisútbreiðslu í landinu, svo brýn þörf og rík nauðsyn sem á því er, að lyft sé undir og stutt að þeim áhuga, sem ríkjandi er til þess að hamla upp á móti skaðsemi áfengisins. Það eru aðeins lítilfjörlegar upphæðir á fjárl., sem ákveðnar eru í þessu skyni, þar sem mjög er við neglur skorið í þessu efni og fer að verðgildi lækkandi með hverju ári. Ég tel, að eðlilegt og sjálfsagt hefði verið í þeirri áfengislöggjöf, sem nú verður sett, að taka upp ákvæði eins og þau, sem ég hef flutt tillögur um, að verja nokkru fé af áfengisgróðanum til bindindisstarfseminnar í landinu, og að ákvæðin um þetta gildi til frambúðar.

Hér eru nú komnar fram frá einstökum þm. auk allshn. allmargar brtt. Það hefur ekki verið talað fyrir þeim öllum, og ég skal ekki heldur fara mörgum orðum um þær. Ég vil þó aðeins geta þess í sambandi við brtt. á þskj. 618, að þar er gert ráð fyrir því, að áfengisráðunautur eigi að hafa læknismenntun. Þetta er náttúrlega gott út af fyrir sig. En hitt er vitanlegt, að auk þess sem þýðingarmikið er, að sá maður, sem slíkt starf er falið, sé vel menntur, þá á náttúrlega öðru fremur að velja slíkan mann með tilliti til þess, að hann sé áhugasamur um það starf, sem honum er falíð, en það vitanlega getur sett nokkrar hömlur á það að vera að binda starfið við ákveðna sérmenntun, og gæti þá svo farið, að það brysti um það, er mestu máli skiptir.

Þess vegna held ég, að það væri óheppilegt að setja þetta ákvæði inn í frv.

Ég skal láta mér alveg nægja nú að reifa þessar brtt. mínar, en vil að lokum skírskota til þess, sem ég hef hér áður sagt við fyrri umr. þessa máls almennt um málið. Þjóðin á mikið í húfi, hvernig máli þessu lyktar. En sannarlega bendir allt til þess um afgreiðslu þessarar áfengislöggjafar, að hún muni reynast hinn mesti gallagripur.