09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

12. mál, áfengislög

Forseti (GíslJ):

Út af brtt. á þskj. 754, sem er við 9. gr. frv., þykir mér rétt að taka fram vegna þess, sem áður hefur komið fram hér í þessari hv. d., að þessi till., þ.e. síðasti málsl. greinarinnar: „Óheimilt er að gefa veitingamönnum afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði til almennings“ — var borin fram hér í þessari hv. d. og samþykkt hér þá inn í frv. Hæstv. dómsmrh. lét þá í sambandi við aðra brtt. falla þau orð, að hann teldi, að það mætti ekki bera upp brtt., sem hefði verið samþykkt inn, til þess að fella hana úr aftur. Minn úrskurður féll í gagnstæða átt, og þess vegna mun ég að sjálfsögðu bera upp þessa brtt., þó að hún hafi verið samþ. inn í frv. hér áður, vegna þess að brtt. hefur aldrei verið felld, og er það í samræmi við það, sem ég hef úrskurðað áður. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram. Ég vil hins vegar gjarnan fá nafnakall um þessa brtt.