08.04.1954
Neðri deild: 82. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

202. mál, smáíbúðabyggingar

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í samningi þeim, sem gerður var, þegar stjórnarmyndunin fór fram í sumar, var ákveðið, að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir beittu sér fyrir ráðstöfunum til þess að auka lánsfé til íbúðabygginga. Hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða og yfirgripsmikið, og það er ætlun ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta þing till. um framtíðarlausn málsins. En til bráðabirgða vill ríkisstj. fara fram á það við hv. Alþ., að það veiti heimild til þess, að ríkissjóðúr megi taka að láni 20 millj. kr. til þess að lána út á smáíbúðir. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um það. Ríkisstj. er þegar farin að vinna að því að útvega þetta lánsfé og telur öruggt, að það muni fást.

Ég vil leyfa mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. og biðja n. að hafa hraðar hendur um afgreiðslu málsins, af því að eins og hv. þm. skilja, þá er það mjög þýðingarmikið, að það geti fengið afgreiðslu áður en þingi lýkur.