13.10.1953
Neðri deild: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

38. mál, greiðslur vegna skertrar starfshæfni

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var í sumar í júlímánuði fundur félagsmálaráðherra hinna fimm Norðurlanda haldinn hér í Rvík. Sá háttur hefur verið hafður að undanförnu, að slíkir fundir félmrh. hafa verið haldnir á Norðurlöndunum til skiptis og þá vanalega á tveggja ára fresti. Hefur á þessum fundum verið unnið að því að samræma löggjöf í Norðurlandanna á vissum sviðum, sem snerta félagsmál, þannig að borgari eins ríkis hafi sömu réttindi í hinum Norðurlöndunum varðandi ýmis hlunnindi, svo sem innan almannatrygginganna í þessum ríkjum og fleiri hliðstæð réttindi.

Á þessum fundi í sumar voru undirskrifaðir þrír milliríkjasamningar varðandi gagnkvæm réttindi borgara í þessum ríkjum. Þessir samningar voru: 1) milliríkjasamningur um flutning milli sjúkrasamlaga og um sjúkrahjálp vegna dvalar um stundarsakir; 2) milliríkjasamningur um gagnkvæma veitingu mæðrahjálpar; 3) milliríkjasamningur um gagnkvæmi varðandi greiðslur vegna skertrar starfshæfni.

Þessir samningar taka til Norðurlandanna allra fimm, nema samningurinn um flutning milli sjúkrasamlaga og um sjúkrahjálp vegna dvalar um stundarsakir. Sá samningur tekur aðeins til Norðurlandanna fjögurra, en ekki til Finnlands, sem ekki gerðist aðili að honum.

Nú er svo talið, að tveir fyrrnefndu samningarnir eða efni þeirra felist algerlega innan þess, sem almannatryggingalögin gera ráð fyrir hér hjá okkur, og þurfi því ekki að leita samþykkis Alþ. vegna þeirra. Hins vegar er talið, að viss ákvæði í þriðja samningnum, um gagnkvæmi varðandi greiðslur vegna skertrar starfshæfni, felist ekki að öllu leyti í almannatryggingalögunum eða annarri íslenzkri löggjöf og sé því öruggara, að Alþ. staðfesti þann samning.

Af þeim ástæðum er það, sem þetta frv. er hér fram borið af hæstv. ríkisstj. Áður en félmrh: fundurinn var haldinn í sumar, samþykkti fyrir sitt leyti þáverandi ríkisstj., að hún stæði einhuga að þessum samningi.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Þetta liggur nokkuð ljóst fyrir, og var jafnvel talið, að það orkaði tvímælis, hvort ástæða væri til að leita staðfestingar Alþ. á þessum samningi, sem hér um ræðir, en þótti þó öruggara.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessu frv., að lokinni þessari umr., verði vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.