10.04.1954
Neðri deild: 86. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

205. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur leyft sér að leggja fram frv. það, sem er á dagskrá, svo síðla þings í fullu trausti þess, að þetta mál, sem hér um ræðir, eigi samúð þm. yfirleitt og jafnvel allra og megi því ná fram að ganga, þótt svo sé áliðið þingtímans sem raun ber vitni um. Ég tel rétt að fylgja frv. úr hlaði með örfáum orðum.

Það munu vera liðin um seytján ár frá því, að sjómannastéttin íslenzka ákvað að helga sér einn dag árlega til þess að minna á störf sjómannastéttarinnar og hagnýtt gildi hennar fyrir þjóðfélagið í heild. Þessi dagur hefur hlotið nafnið sjómannadagur, svo sem öllum er kunnugt um. Það kom í ljós þegar í öndverðu, að nokkur tekjuafgangur varð af þeim skemmtunum, sem haldnar voru í sambandi við þennan fagnað sjómanna, og vaknaði þá eðlilega sú spurning hjá forustumönnum sjómanna, hvernig bæri að verja þessum tekjuafgangi. Menn báru saman ráð sín um það og komust nokkuð fljótlega að þeirri niðurstöðu, að rétt þætti og eðlilegt að safna í sjóð til þess, þegar tími þætti til kominn, að byggja dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn, og verða nú, held ég, allir að viðurkenna, að sú hugmynd er reist á grundvelli sanngirni og réttlætis í garð þeirra manna, sem á langri ævi við örðugt starf hafa slitið kröftum sínum í þágu þjóðfélagsins. Þegar hér var komið málum, þá kusu þessir forustumenn sjómanna — fulltrúaráð sjámannadagsins er samkundan kölluð — sér nefnd, sem skyldi hafa með höndum fjáröflun til viðbótar þeim tekjuafgangi, sem sjómannadagurinn hverju sinni færði. Þessari nefnd varð gott til fjár, eins og líka málefnið verðskuldar. Henni bárust margar allstórar gjafir, ekki sízt frá útgerðarfélögum og öðrum fyrirtækjum í landinu, en einnig fyrir almenna þátttöku þjóðarinnar og almennan skilning á því þarfa máli, sem um var að ræða. Ég skal í því sambandi varðandi forustu þessa máls ekki telja hér upp mörg nöfn, en get þó ekki stillt mig um að minna á hinn aldna nýlátna sægarp, Björn Ólafs skipstjóra frá Mýrarhúsum, sem var gjaldkeri byggingarsjóðs dvalarheimilis aldraðra sjómanna allt frá öndverðu og ef ég man rétt formaður byggingarnefndarinnar einnig, frá því að hún var stofnuð, og svo okkar fornkunningja — ég leyfi mér að nefna hann einnig — Sigurjón Á. Ólafsson, fyrrverandi formann Sjómannafélags Reykjavíkur og fyrrverandi alþm., sem frá byrjun hefur veitt þessu máli allan þann stuðning, sem á hans valdi hefur verið. En einnig hafa margir aðrir af forustumönnum sjómanna lagt þar fram óeigingjarnt og mikið starf, vegna þess að þeir telja, að það sé þeirra skylda, svo göfug hugsjón sem hér sé borin fram.

Eftir að fjáröflunin hafði gengið vel, töldu menn, að rétt væri að hefjast handa. En þá urðu á vegi þessa góða máls örðugleikar, sumpart fyrirsjáanlegir, sumpart óvæntir, en ég á þó fyrst og fremst við það, að ekki fékkst heimild til fjárfestingar, þ.e.a.s. ekki leyfi til þess að hefjast handa um byggingu þessa dvalarheimilis. Og það var ekki fyrr en á síðast liðnu vori, að slíkt fjárfestingarleyfi fékkst, eftir að ríkisstj. hafði gengizt í málið og beitt sér fyrir því. En þá var líka strax ákveðið að hefjast myndarlega handa, enda hafði bæjarstjórn Reykjavíkur látið sjómönnum í té stóra og góða lóð á Laugarásnum svonefnda. Voru gerðir samningar við ýmsa aðila varðandi byggingu dvalarheimilis aldraðra sjómanna:

Það er ætlað að ljúka þessu dvalarheimili eða byggingu þess í tvennu lagi, ef svo mætti segja. Fyrri hlutinn er miðaður við tvo þriðju heimilisins og ætlað, að sá hluti muni kosta um 8 millj. kr. og rúmi 179 vistmenn. Seinni hlutinn er miðaður við sama vistmannafjölda, 179, eða um það bil, og ætlað, að hann kosti aðeins 3 millj. kr. Þessi mikli munur á kostnaði við fyrri hluta og seinni hluta stafar af því, að við byggingu fyrri hlutans er margt það gert, sem kemur heimilinn öllu að gagni, þegar það er fullreist. En alls er ætlað að þetta heimili muni kosta 11 millj.

Þegar í stað, eftir að fjárfestingarleyfi fékkst, var samið um framkvæmdir, sem var áætlað- að mundu kosta 4 millj. kr. Þeim framkvæmdum verður lokið 1. júní n.k., og mér er það ánægjuefni að mega hafa það eftir forustumönnum þessa máls, að þessi framkvæmd muni ekki fara fram úr áætlun. En þegar henni er lokið, þá er talið, að búið sé að. reisa helming fyrri hluta byggingarinnar, enda kemur það heim við, að fyrri hlutinn eigi að kosta 8 millj, og þessi hluti verði reistur fyrir 4 millj. En þegar lokið er þessari byggingu, sem nú stendur yfir, og eins og ég segi, er ætlað, að henni verði lokið 1. júní n.k., þá er þrotið fé sjóðsins. Þá eru til þurrðar gengnar þær 4 millj., sem sjóðurinn hafði til umráða, og er þá meðtalið það fé, sem Reykjavíkurbær og ríkissjóður leggja hælinu á þessu ári, árinu 1954.

Þegar svo var komið, þótti forustumönnum málsins sýnt, að gripa yrði til nýrra ráðstafana, ef ekki ættu að verða óeðlilegar og sérstaklega óæskilegar tafir á framkvæmd málsins. Og eftir að hafa borið saman ráð sín, sjálfsagt við marga menn, þá ákváðu forustumenn sjómanna á þessu sviði, þ.e.a.s. fulltrúaráð sjómannadagsins og byggingarnefnd dvalarheimilisins, að fara fram á heimild til happdrættis og viss önnur fríðindi, - ég þori nú varla að nefna þau í þingsalnum, — það eru innflutningsheimildir á bilum. Fóru þeir fram á við ríkisstj., að hún styddi að því, að slík lög um heimíld til happdrættis yrðu samþykkt á Alþ., og hjálpaði einnig að sínu leyti til að greiða fyrir vissum bilainnflutningi, sem þurfa þykir í þessu sambandi.

Ríkisstj. barst þetta mál nokkuð seint í hendur og- hafði, eins og allir vita, einkum þegar líður á þingið, mörgum störfum að sinna, en ég hygg ég megi segja, að eftir öllum atvikum hafi stjórnin tekið fljótt og vel á málinu, og var strax sammála um að reyna að greiða fyrir því, eftir því sem auðið þætti. Afleiðingar af bollaleggingum ríkisstj. sjá menn í þessu frv., sem hér liggur fyrir og nú er til umr. Eins og menn sjá, er þar farið fram á, að gefin sé heimild fyrir stofnun happdrættis til framdráttar dvalarheimili aldraðra sjómanna, og happdrættið á að vera um bifreiðar, báta og búnaðarvélar, eins og þar er nánar ákveðið. Verð á happdrættismiðunum ákveður ráðh. að fengnum till. frá stjórn dvalarheimilisins. Drættirnir eiga að fara fram í Reykjavík, dregið skal mánaðarlega, og heimildin á að gilda í 10 ár: Öllum ágóðanum á að verja til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir dvalarheimilisins. Vinningarnir eiga að vera undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári, sem þeir falla. Ráðh. getur sett nánari ákvæði um starfsemi happdrættisins.

Þetta er aðalefni þeirra till., sem ríkisstj. hefur leyft sér að bera fram hér fyrir hv. Alþ. að óskum forustumanna sjómanna og í samráði við þá.

Ég hef ekki nægan kunnugleika til þess að dæma um, hver fengur dvalarheimilinu er að þessu frv:, en forustumenn málefnisins telja, að það ráði úrslitum um þeirra vonir varðandi framgang málsins innan hæfilegs tíma. Leyfi ég mér að byggja á þeirra staðhæfingum í þeim efnum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég leyfi mér að vona, og ég veit, að ég má treysta því, að allir hv. þm. taki vel á þessu máli. Undirtektirnar undir málið eru miklu meira virði heldur en mörg lofsamleg og vingjarnleg orð um sjómannastéttina, sem falla frá okkur öllum oft og einatt og öll eru í einlægni mælt, því, að þótt við séum stundum að brigzla hvor öðrum um það, að þetta sé nú meira fagurgali héldur en góður hugur, þá er það nú sannleikurinn um okkur alla, að við kunnum að meta þessa stétt og viljum greiða fyrir henni í hvívetna.

Ég vildi svo aðeins segja frá því, að sá eini meinbugur, sem okkur í stjórninni datt í hug að gæti verið á málinu, var sá, hvort þetta kynni að. koma í bága við hagsmuni Sambands ísl. berklasjúklinga. Náttúrlega væri rétt að leita allra ráða til framdráttar dvalarheimilinu, áður en væri vegið að svo þjóðmerku og þjóðnýtu starfi sem þar hefur verið unnið af hendi forustumanna berklasjúklinganna, því að það er nú sannast sagna annars verðugt af hendi hins opinbera en þess, að lagður væri beint og óbeint steinn í þeirra götu. Ég hef það eftir forustumönnum þessa máls, dvalarheimilisins, að þeir hafi gert þetta eftir ráðum og í samráði við og fengið leiðbeiningar frá forustumönnum berklasjúklinganna. Ég hef einnig leitað mér sjálfur persónulegra upplýsinga um það, og ég tel, að ég hafi fengið það alveg staðfest, að forustumenn berklasjúklinganna telja, að þetta komi á engan hátt í bága við þeirra hagsmuni. Mér þætti vel viðeigandi, að þm. sýndu hug sinn til sjómanna með því að afgreiða þetta mál nefndarlaust á þrem fundum hér í hv. deild í dag.