12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1164)

205. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar ég sá fyrst þetta frv., þá kom í huga minn nokkur vafi um það, hversu mikill fengur væri að frv. Það, sem ég óttaðist, var það, að þegar litið er til þess, að nú eru tvö stór, föst happdrætti starfandi lögum samkvæmt hér í landinu, happdrætti Háskóla Íslands og happdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga, þá óttaðist ég, að það að setja á stofn þriðja fasta happdrættið með lögum, auk ýmissa smærri, eins og allir vita, mundi nánast vera að gefa ávísun á litla innstæðu, ef kalla mætti það svo, og sérstaklega óttaðist ég, að það mundi rísa urgur hjá aðstandendum happdrættis S.Í.B.S., þannig að þeir mundu telja frá sér tekið, ef þetta frv. yrði samþykkt.

Nú hefur hæstv. ráðh. skýrt frá því, sem ég tel vel farið, að hann hafi rætt um þetta við framkvæmdamenn S.Í.B.S. og að þeir hafi tjáð sér, að þeir sæju ekki neina ástæðu til þess að hafa á móti því, að þetta frv. yrði lagt fram.

Ég er að sjálfsögðu því mjög hlynntur, að Alþ. greiði fyrir byggingu sjómannahælisins hvern þann veg, sem því ber, og þar sem þetta frv. er spor í þá átt, sem væntanlega léttir eitthvað verulega fyrir í þessum efnum, þá tel ég sjálfsagt að samþ. frv., og eftir þær upplýsingar, sem fyrir liggja frá hæstv. forsrh., ber ég enga ósk fram um það, að það fari til n., get fullkomlega sætt mig við, að það verði afgreitt nefndarlaust í deildinni.