03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það er alkunnugt, hvílíkum búsifjum sauðfjárpestirnar hafa valdið og að þær hafa kostað ríkissjóð mikið fé. En auk hins beina tjóns og kostnaðar fylgja í kjölfarið ýmiss konar leiðindi og árekstrar í sambandi við varnarráðstafanirnar, svo sem fjárskiptin og varnargirðingarnar. Þessar varnarráðstafanir eru ill nauðsyn og því ekki um þær að sakast, jafnvel þótt þær hafi stundum komið hart niður á einstökum mönnum eða heilum sveitum. En þegar svo þar við bætist, að aukið er á erfiðleikana að óþörfu, hvort heldur er af einstökum mönnum eða vissum stjórnarvöldum, þá virðist ástæða til þess, að ríkisvaldið taki í taumana, t.d. með nýjum lagaákvæðum, og í þeim tilgangi er frv. það, sem hér liggur fyrir, flutt.

Eins og sjá má á grg., stöndum við báðir þm. Eyf. að frv., þó að samþingismaður minn, hv. 2. þm. Eyf., geti ekki flutt það með mér, þar sem hann á ekki sæti hér í d., en frv. er flutt í tilefni af því, að hreppsnefndin í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði og bændur þar hafa borið upp fyrir okkur þingmönnum þau vandkvæði sín, að ekki er annað sýnna en þeir verði að hætta við alla sauðfjárrækt og lóga hinum nýja fjárstofni sínum, ef ekkert er að gert. Stafar þetta að sumu leyti af varnargirðingunum í Eyjafirði, sem útiloka bændur í Hrafnagilshreppi frá að reka fé sitt á hina litlu heimaafrétti þar eða á nokkurn afrétt í suðri, vestri eða norðri. Ekki er heldur viðlit að sleppa nema sárafáu fé í heimahaga jarðanna í Hrafnagilshreppi, því að bæði eru þeir litlir og svo hefur féð þar ekkert næði, því að vörður er við girðingarnar, og er fénu sigað frá þeim, þegar það nálgast, svo að það getur ekki hafzt þar við nema á mjög litlu svæði, sem mundi fljótt verða uppurið með öllu, ef mörgu fé væri sleppt til sumarbeitar í þessa heimahaga.

Aðalvandræðin stafa þó af því, að hreppsnefndin í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu hefur amazt við því og hefur til þess stoð í fjallskilareglugerð sýslunnar, sem ég vík síðar að, að bændur í Hrafnagilshreppi og raunar líka í Öngulsstaðahreppi fái að nota þann afrétt, sem hefur verið þeirra aðalafréttur frá ómunatíð, en það er vestri Bleiksmýrardalur vestan Fnjóskár, en það land átti Hrafnagilskirkja, en nú Akureyrarkirkja, eftir að kirkjustaðurinn fluttist þangað. Virðist mér það ekki breyta neinu um eignarréttinn á þessu landi, þótt það skeði fyrir nokkrum árum, að með einhverju ráðherrabréfi voru umráðin yfir afréttinum fengin hreppsstjóra Hálshrepps, en tekin af hlutaðeigandi presti á Akureyri. Þegar séra Friðriki Rafnar var veitt Akureyrarprestakall, þá var í veitingabréfinu talið til heimatekna hans afgjald af Bleiksmýrardal, og þegar áðurnefnt ráðherrabréf kom, sem auðvitað hefur ekki beint gildi, þá mótmælti hann þeirri ráðstöfun.

En vandkvæðin stafa nú ekkí af þessu, heldur af því, eins og ég aðeins vék að áðan, að í fjallskilareglugerð Suður-Þingeyjarsýslu er hreppsnefndum þar í sýslu heimilað að banna utansveitarmönnum að reka fé í afrétti í sýslunni, og það er vitað, að hreppsnefnd Hálshrepps hugðist að beita þessu ákvæði gagnvart fé úr Eyjafirði. Út af þessu sneri hreppsnefndin í Hrafnagilshreppi sér fyrst til sauðfjársjúkdómanefndar, og samkv. till. hennar kvað landbrn. upp úrskurð, samkv. heimild í 7. og 43. gr. l. um sauðfjárveikivarnir, um það, að hreppsnefnd Hrafnagilshrepps skyldi heimilt að láta reka á afrétt í landi Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal sumarið 1953 allt að 1200 sauðfjár, þar í talin lömb. Og enn hefur sauðfjársjúkdómanefnd látið álit í ljós með bréfi, sem ég hef undir höndum, dags. 23. sept. s.l., að ekki muni verða hjá því komizt að viðhalda varnargirðingum í Eyjafirði og hafa vörzlu með þeim að sumrinu næsta ár eða næstu ár, og telur því sömu ástæður fyrir hendi eins og voru á s.l. vori, þegar landbrn. gaf út áðurgreindan úrskurð. En hins vegar mun rn. ekki telja ákvæðin í 7. og 43. gr. l. svo óyggjandi, að það vilji, a.m.k. ekki nema í ýtrustu nauðsyn, endurnýja þann úrskurð, sem það gaf um þetta efni 20. maí s.l.

Til þess að bæta úr þessu ástandi er þetta frv. fram komið, en með frv. er lagt til, að á meðan upprekstrarfélög eða einstakar jarðir eru að einhverju leyti svipt aðgangi að beitilöndum sínum, skuli þeim heimil afnot annarra þeirra afréttarlanda, sem þau hafa til þessa haft afnot af, enda þótt lönd þessi liggi innan annars upprekstrar- eða sýslufélags, nema þau afnot komi í bága við nauðsynlegar sauðfjársjúkdómavarnir að dómi sauðfjársjúkdómanefndar.

Nú mætti spyrja, hvort Hálshreppi eða Fnjóskdælingum sé gert nokkuð rangt til með þessu frv., þó að það yrði að lögum. Ekki get ég séð það, enda hefði ég ekki flutt frv., ef ég liti svo á. Í fyrsta lagi ber aldrei að gera mönnum rangt til, og í öðru lagi er ég nú kunnugur flestum Fnjóskdælingum og líkar vel við þá og hef enga löngun til að gera þeim skaða. Hér er í fyrsta lagi ekki farið fram á annað en það, að nokkrir menn í Eyjafirði fái að halda þeim rétti um takmarkaðan tíma, ef til vill aðeins eitt eða tvö ár, sem þeir hafa haft um aldir, þeir og þeirra fyrirrennarar. Og raunverulega er aðeins farið fram á það, að þeir fái enn um sinn að nota sína eigin eign, því að auðvitað er það söfnuðurinn í Akureyrarsókn, sem á Akureyrarkirkju og þar með allar hennar eignir, Bleiksmýrardal einnig, en töluverður hluti Hrafnagils er í Akureyrarsókn. Í öðru lagi leyfi ég mér að fullyrða það, að Fnjóskdælingar hafi enga þörf fyrir þetta afréttarland, a.m.k. ekki í fyrirsjáanlegri framtíð. Undanfarin ár hafa þeir ekki rekið neitt fé á vestri Bleiksmýrardal, ekki heldur austan Fnjóskár, og litið sem ekki á eystri dalinn. Það þarf ekki annað en að líta á landabréf af þessum landshluta til að sjá það, að Fnjóskdælingar eiga mikla og góða afrétti, bæði í suðri og norðri, og mundi fjáreign þeirra þurfa að margfaldast frá því, sem nú er, til þess að afréttarlönd þeirra nægðu ekki. Hér í hv. d. liggur og frv. fyrir, sem gengur í þá átt að auka við afréttarland þeirra. Þar sem ég sé ekki, að það frv. komi í bága við hagsmuni nokkurs manns, þá mun ég fyrir mitt leyti fylgja þessu frv. og finnst það sanngjarnt, og þá auðvitað, þegar það er orðið að lögum, er enn síður ástæða til að óttast um afréttarleysi í Fnjóskadal eða fyrir Fnjóskdælinga.

Ég hef líka orðið þess var, að sumum, sem kunnugt er um þetta mál, finnst, að frv. gangi allt of skammt. Menn hafa talið réttara, að Hrafnagilshreppur og Öngulsstaðahreppur eignuðust þetta gamla afréttarland sitt og að það verði síðan lagt undir lögsagnarumdæmi Eyjafjarðarsýslu. Menn hafa sagt sem svo, að Eyfirðingar þurfi á þessu landi að halda hér eftir sem hingað til, en Fnjóskdælingar hafi ekkert með landið að gera, og auðvelt væri að sjálfsögðu að breyta sýslumörkunum að þessu leyti, því að landið liggur að Eyjafjarðarsýslu. Ég fyrir mitt leyti hef þó ekki viljað fara út á þessa braut, heldur legg aðeins til að gera tímabundnar ráðstafanir, á meðan bændum í Hrafnagilshreppi eru allar aðrar bjargir bannaðar í þessu efni.

Ég óska ekki að koma af stað neinu stríði á milli Eyfirðinga og Þingeyinga. Þvert á móti hefði ég talið æskilegast, að þetta mál hefði leystst með samningum á milli aðila og ekki þurft að koma til kasta Alþingis. Þeir samningar hafa verið reyndir, en ekki tekizt. Og forsvarsmaður íbúa Hrafnagilshrepps telur vonlaust, að þeir samningar muni geta tekizt. Þess vegna er frv. fram borið. Eins og ég hef nú skýrt,. er þetta frv. borið fram vegna þeirra ástæðna, sem fyrir liggja í Eyjafirði og þá sérstaklega í Hrafnagilshreppi, en eftir að hafa átt taf við framkvæmdastjóra sauðfjárveikivarnanna, þá er mér nú kunnugt um það, að viðar um land stendur svipað á og þarna. Og ég veit, að hann telur því af almennum ástæðum í landinu gagnlegt að fá þessa lagabreyt. gerða.

Ég vil svo vona, að hv. d. taki vel undir þetta mál, og meira að segja vil ég vona, að hv. þm. S-Þ. geri það einnig. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. landbn.