03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. sagði, að ég hefði ekki sagt nema hálfa söguna. Nú ætlaði hann að segja hinn helminginn, sjálfsagt í þeim tilgangi, að þegar báðir helmingarnir væru lagðir saman, þá yrði sagan rétt. En ég býst nú við, að ég þori vel að leggja minn söguhelming á móti hans, sem ég mun nú nokkuð rekja nánar. Ég er ekki að segja það, að hann fari hér vísvitandi með rangt mál, en það kom fram í hans ræðu, hvaðan hans aðalheimildir eru, og ég hygg, að þar a.m.k. geti verið nokkurt vafamál um sanngirnina.

Fyrst minntist hann á það ráðherrabréf, sem ég gat um áðan, og hann las það upp, og það stendur í bréfinu, að ákveðið sé að fela hreppsstjóranum í Hálshreppi umráð yfir þessu afréttarlandi, og stendur „með yðar samþykki, herra sóknarprestur“. Ég verð nú að segja það, að mér kemur það mjög á óvart. Ég hef núna fyrir örfáum dögum séð bréf frá þessum sama sóknarpresti, þar sem hann getur þess, að hann hafi mótmælt þessu, en að biskup muni hafa samþykkt það án þess að bera undir sig. Ætli að það hafi ekki misritazt þarna í ráðherrabréfinu, að þeir hafi tekið samþykki biskupsins þáverandi fyrir samþykki prestsins? En hvað sem um það er, þá er höfuðmisskilningur í þessu ráðherrabréfi. Það er sá misskilningur, að þar er talað um ítak og hv. þm. talaði um ítak. (KK: Nei, ég talaði ekki um ítak í þessu sambandi.) Jú, það stóð a.m.k. þarna í ráðherrabréfinu orðið ítak, en þetta er ekki nokkurt ítak, þetta er eign, og það er ekki sams konar eign eins og almennar kirkjujarðir og getur því ekki heyrt undir sömu lagaákvæði og þær. Þessi afréttur, Bleiksmýrardalur fyrir vestan Fnjóská, var beinlínis hluti af heimajörðinni Hrafnagili. Hann var fyrst og fremst ætlaður fyrir jörðina til sumarbeitar, eða þannig lít ég á það, enda hefði ekki, þegar séra Friðriki Rafnar var veitt embættið, afgjaldið af þessum afrétti verið sérstaklega talið til heimatekna hans, því að svo er ekki almennt um kirkjujarðir og ekki nema því aðeins, að svo hefði verið litið á, að þetta beinlínis tilheyrði prestssetrinu. Hér er því um það að ræða raunverulega, að ef á að meina þeim, sem notað hafa þennan afrétt hingað til, að gera það áfram, þá er það að meina mönnum að nota sína eign.

Þá fór hv. þm. að telja fram rök Fnjóskdælinga eða sérstaklega oddvitans í Hálshreppi, því að ég efast um, að allt það, sem fram kemur í bréfi hans og samtölum, sé nú almennt skoðun hans hreppsbúa, og þá átti það að vera ein aðalástæðan, að það væri ótti um, að sauðfjárpestir bærust með eyfirzku fé til þeirra í Fnjóskadal, vegna þess að féð gengi saman. Við þessu er nú það að segja, að ef hætta væri talin á þessu, þá þýðir ekkert eða a.m.k. mjög lítið að meina íbúum Hrafnagilshrepps að reka fé í Bleiksmýrardal, því að eins og þm. tók sjálfur fram, þá gengur fé úr Eyjafirði og Fnjóskadal saman. Það þyrfti þá nýja varnargirðingu eftir Vaðlaheiði og kannske langt inn á öræfi, ef ætti að tryggja þetta. Hrafnagilshreppur, Öngulsstaðahreppur og Þingeyjarsýsla austur að Skjálfandafljóti eru í sama hólfinu, og það er engin trygging fyrir því, að fé gangi ekki saman á þessu svæði og það einnig úr Hrafnagilshreppi, þegar þess er gætt, að það er brú á Eyjafjarðará, sem fé getur hæglega farið yfir, og jafnvel getur nú fé oft komizt yfir Eyjafjarðará án þess að fara á brú.

Ég get því ekki gert neitt úr þessari ástæðu og ekki sízt vegna þess, að garnaveikin kom upp í Þingeyjarsýslu. (Gripið fram í.) Ja, áður en hennar varð vart innan Akureyrar í Eyjafirði. Hún kom upp á Svalbarði á Svalbarðsströnd, og fé Svalbarðströndunga og Fnjóskdælinga gengur alltaf saman í heiðinni. Þetta er því aðeins sagt til að segja eitthvað, það hefur ekki við rök að styðjast.

Að eyfirzkt fé hafi mjög gengið í heimalöndum Fnjóskdælinga, dreg ég mjög í efa. Nokkuð er það, að á haustin í réttunum verður þess ekki vart, að margt eyfirzkt fé komi þar fyrir í heimalöndum Fnjóskdælinga.

Ég er nú ekki heldur viss um það, að það séu Eyfirðingar eða þeirra skepnur, sem aðallega hafi eyðilagt gróðurinn í Fnjóskadal, t.d. skógana, ef hv. þm. á við það. Ætli það hafi ekki verið Fnjóskdælingar sjálfir, sem hafa höggvið upp skógana í eldinn hér fyrr á árum? Og einkennilegt er það, ef gróður er þar mjög að spillast af sauðfé, að þeir skuli þá ekki, Fnjóskdælingar, reka á afréttinn, en það er mér vel kunnugt, líklega betur kunnugt en hv. þm. S–Þ., að fram að þessu hafa Fnjóskdælingar yfirleitt sleppt fé sínu heima í heimahagana, þó að þeir hafi næg afréttarlönd. Hann sagði nú reyndar, að þeir gerðu þetta til að rýma fyrir fé úr Eyjafirði. Því má nú hver trúa, sem vill. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að það séu margir hér í hv. d., sem trúa því, að þetta hafi verið tilgangur bænda með því að sleppa fé sínu heima og þverbrjóta með því fyrirskipun hreppsnefndarinnar, sem hefur fyrirskipað þeim að reka á afrétti. Sem betur fer, þá er það rétt hjá hv. þm., að fé hefur fjölgað í Fnjóskadal, en það er bara ekki orðið svipað því eins margt fé þar og var hér fyrr á árum, fyrir allan niðurskurð, — og ég tala nú ekki um fyrr á öldum, — og þá stöfuðu engin vandræði af því, svo að vitað sé, þó að Hrafnagilsprestur hefði og ætti Bleiksmýrardal og tæki fé á hann af nágrönnum sínum í Hrafnagilshreppi.

Síðan kom hv. þm. að því, sem kannske er aðalatriðið frá sjónarmiði oddvitans í Hálshreppi, að bændur í Hrafnagilshreppi og í Eyjafirði gætu stundað kúabú, framleitt mjólk, og þeir þyrftu ekki að vera að stunda sauðfjárrækt. Í því sambandi talaði hann um feitu bændurna í Eyjafirði og mögru bændurna í Fnjóskadal, Ja, ég hef nú séð bændur marga úr Eyjafirði og úr Fnjóskadal; ég hef nú ekki tekið eftir þessu, að fitan færi eftir sveitum, það eru feitir menn til í Eyjafirði, og það er líka sömuleiðis í Fnjóskadal. En svo að farið sé nánar út í þetta, þá má benda á það, að Fnjóskdælingar stunda ekki eingöngu sauðfjárrækt. Þeir flytja mjólk í mjólkursamlag Eyfirðinga. Það getur vel verið, að hægt væri að semja um þetta mál þannig, að Fnjóskdælingar hættu því að flytja mjólk í mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga, þá létti á markaðinum, en Eyfirðingar í staðinn hættu við sauðfjárrækt. En ég er ekki viss um, ef það ætti að greiða atkvæði um það í Fnjóskadal, að þá yrði það samþykkt.

Hv. þm. þótti það hart, ef tekið væri land til notkunar án vilja sveitarinnar, sem landið liggur að. En hann gekk alveg fram hjá því, að þetta land er raunverulega eign Eyfirðinga, og það er ekki nema algengt, að menn noti sína eign. Hann taldi það ekki neina nauðsyn fyrir Eyfirðinga að fá að reka á þennan afrétt. Það má alltaf deila um það. Ég geri ráð fyrir, að það mætti segja sem svo, að það væri ekki nauðsyn, ef markaður fyrir mjólk og mjólkurafurðir væri ótæmandi, en það vita allir, að það er að verða offramleiðsla á mjólk, vegna þess að ekki er um annan markað að ræða en innlendan markað. Og hvað á þá að gera? Mér sýnist, að þar sem því er hægt að koma við án þess að skaða aðra, þá sé þó ráðið einna helzt það að fjölga greinum landbúnaðarins og jafnvel þó að ein sveit sé vel fallin til nautgriparæktar, þá geti það verið réttmætt að hafa þar einnig sauðfé.

Hv. þm. sagði, að höfuðrök sín væru það, að Fnjóskdælingar þyrftu á dalnum að halda. Þessu vil ég alveg neita, að enn sem komið er þurfi þeir á dalnum að halda. Þeir hafa, eins og ég sagði, nægileg afréttarlönd. Ég vonast eftir því, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, geri sér það ómak að líta á landabréfið, og ef hún gerir það, þá skil ég ekki annað en að hún komist að þeirri niðurstöðu, að Fnjóskdælingar einir eða íbúar Hálshrepps hafi eins mikil afréttarlönd eða meiri heldur en allur Eyjafjörður innan Akureyrar, þ.e.a.s. þrír hreppar, sem hver um sig er fjölmennari en Hálshreppur.

Hv. þm. hélt því fram, að Eyfirðingar eða íbúar Hrafnagilshrepps gætu sleppt fé sínu í heimahaga. Þetta er mælt af algerum ókunnugleika á ástæðum og jafnvel landslagi í Hrafnagilshreppi. Það á að heita svo, að Hrafnagilshreppi fylgi ofur lítill afréttur, sem heitir Skjálgdalur, í daglegu tali kallaður Skjóldalur, og svo er annað dalverpi, sem reyndar er nú heimahagi, sem heitir Finnastaðadalur. En varnargirðingin liggur alveg fyrir neðan Skjóldalinn og þannig upp í Finnastaðadalinn, að hvorugt þetta dalverpi er hægt að nota. Það eru því ekki nema heimahagar jarðanna þarna í þrengstu merkingu, sem um er að ræða, og það er áreiðanlega rétt, sem ég sagði áðan, að það land yrði strax uppurið, ef sauðfé gengi þar á sumrin að nokkru ráði; það er ekki stærra en það, eins margir bæir og þarna eru. Að hrossaeign komi þessu máli mikið við, sé ég ekki, vegna þess að ég veit ekki til, að bændur í Hrafnagilshreppi hafi stóð heima yfir sumarið. Þeir koma því eitthvað á Bleiksmýrardal og einhverju af því lengra inn í fjörðinn, inn á afdali, sem þar eru. Stóð gengur þar alls ekki í heimahögum og ekki önnur hross en þau, sem þarf að nota við vinnu.

Hv. þm. sagði, að á minni ræðu hefði verið yfirbragð sanngirninnar, en það er þó gott, að það var a.m.k. yfirbragðið, því að ég gat ekki einu sinni fundið það yfirbragð í ræðu hv. þm.