03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Örfáar athugasemdir vil ég gera út af ræðu hv. 1. þm. Eyf. — Það virðist svo sem hann hafi fengið skakkar upplýsingar hjá presti um afstöðu hans til þess, að Bleiksmýrardalur var lagður undir umráð hreppsstjórans. Mér finnst ekki vera hægt að hugsa sér, að það geti verið um misritun í bréfi því að ræða, sem ráðstafaði þessari eign. Mér finnst fráleitt að halda, að prestur hefði ekki leiðrétt þá misritun, — undarlegt og óskiljanlegt, óþarft að trúa því, að hann hefði ekki mótmælt því, ef honum hefði verið sagt það í bréfinu, um leið og landinu var ráðstafað, að hann væri búinn að samþykkja það. Hér hlýtur að vera um misskilning eða gleymsku að ræða, enda 25 ár liðin síðan.

Þá lagði hv. framsögumaður áherzlu á það, að hér hefði verið um heimatekjur prestsins að ræða. Satt var það. En úr því að var um heimatekjur hans að ræða, sem hann fékk bættar með gjaldi, sem hann samþykkti, þá virðist mér ástæðulaust að gera athugasemdir við þessa ráðstöfun, einmitt vegna þess að Akureyrarprestur hefur ekkert með umráð yfir löndum að gera. Hann þarf peningatekjur og fær þær.

Þá benti frsm. á það, sem rétt er og ég var búinn að taka fram áður og kom fram í bréfi oddvitans, sem ég las, að fé gengur saman úr Öngulsstaðahreppi og Hálshreppi, af því að lönd liggja þar saman. Við því er ekkert að gera, og um það er ekki heldur fárazt, en hitt þykir athugavert, að fé vestan fyrir Eyjafjarðará skuli vera flutt yfir á Bleiksmýrardal, af því að það fé er næst girðingunni, sem hætta er á að smitun eigi sér stað yfir, en Eyjafjarðará er ekki svo óveruleg varzla, að víðs vegar í landinu sé ekki stuðzt við slíkt, þegar verið er að reyna að hindra það, að samgangur fjár valdi smitun. Það er stuðzt við slíkt, því að það gefur líkur til þess, að ef smitun á sér stað, þá kunni að vera hægt að hlaupa veiki uppi, eins og kallað er, með niðurskurði. Og það setja Fnjóskdælingar sérstaklega út á, hvernig brugðizt var við, að þegar garnaveiki kom upp í Hrafnagilshreppi, sem þeir halda fram að hafi breiðzt út austur fyrir, þá var ekki framkvæmdur sams konar niðurskurður og á Svalbarði, þegar garnaveikin kom þar upp, eins og hv. frsm. vitnaði til. Þar var gerður gagnger niðurskurður.

Frsm. tók fram, að það sýndi ekki, að Fnjóskdælingar teldu sér brýna nauðsyn á notkun dalsins, að þeir sleppa fé sínu í heimalönd. En þeir halda því aftur fram, að þeir sleppi fé sínu í heimalönd af því, að dalurinn sé upptekinn af aðkomufé. Og enn kemur annað til greina, þegar talað er um það, hvort þörfin fyrir þetta land hafi aukizt eða ekki í Fnjóskadal, að menn hafa gert sér grein fyrir því, alveg sérstaklega nú í sambandi við fjárskiptin, að þrif fjár fara miklu meira en menn höfðu hugsað eftir landrýminu. Það kom sem sé í ljós í Fnjóskadal elns og annars staðar, þegar skipt var um fé, að vænleikur þess, meðan það var fátt, var miklu meiri en áður var, svo að ofseta landsins blasti við.

Þá vitnaði frsm. í það, að mjólkurframleiðsla væri í Fnjóskadal, og það er rétt, að bændur gera dálítið að því að selja mjólk úr Fnjóskadal til Akureyrar að sumrinu. En að vetrinum notast þetta ekki vegna þess, hve fljótt fennir á vegina. Vaðlaheiði hindrar þessa flutninga. Mjólkurframleiðslan er í smáum stíl og hlýtur að verða það. Og raunar var hún upp tekin aðallega vegna þess, að þegar fjárskipti fóru fram, þá þurftu bændur að hafa á tímabili hjálparbústofn, meðan fénu var að fjölga.

Þá lagði hv. frsm. áherzlu á það, að Akureyrarkirkja ætti landið. En mér er það mikil spurning, hvort er hægt að líta svo á, eftir að ráðherrabréfið hafði skákað þessari eign til, að Akureyrarkirkja eigi landið. Mér virðist miklu frekar, að þarna sé um þjóðareign að ræða, þetta land sé í þeim flokki, sem kallaður er þjóðjarðir, enda hefur kirkjan sem slík ekkert með landið að gera.

Hv. frsm. bað n. þá, sem á að fjalla um málið, að líta á landabréfið. Mér þykir mjög æskilegt, að n. geri það. Og þá mun hún sjá, hvernig viðhorfið er, hvað eðlilega liggur við, að Fnjóskdælir vestan Fnjóskár hreinsi heimalönd sín og reki féð fram með Fnjóskánni fram á Bleiksmýrardalinn. Og um leið munu þeir líka sjá, hve opið er af dalnum út í heimalöndin og hve réttmætt hlýtur að vera þess vegna, að Fnjóskdælingar kvarta undan ágangi af aðkomufé, sem á dalinn er rekið. Enn fremur veit ég, að þeir munu lita á það, um leið og þeir líta á landakortið, að heimalöndin eru ákaflega þröng og léleg. Allir hljóta nefndarmennirnir að hafa farið yfir Vaðlaheiði, — þar eru heimalöndin vestan árinnar, — og séð, hversu hrjóstrug hún er og litill hagi fyrir fé. En um leið og þeir athuga landabréfið, þá vona ég, að þeir hafi líka fyrir því að athuga atvinnuskýrslur úr þessum sveitum, sem hér er um að ræða, — athuga atvinnuskýrslur úr Hrafnagilshreppi og úr Hálshreppi til þess að fá hugmynd um það, hvaða atvinnuvegir það eru, sem eru stundaðir í þessum byggðarlögum, og hversu afkoma bændanna er mismunandi í þessum tveimur sveitum. Þá held ég, að það hljóti að fara svo, að þeir sjái, að Fnjóskdælingar þurfa að auka bústofn sinn og hafa varla önnur úrræði en að fjölga sauðfé. Hins vegar munu þeir sjá, að bændur í Hrafnagilshreppi munu vera með tekjuhæstu bændum í landinu og hafa sínar höfuðtekjur af mjólkurframleiðslu. Sauðféð er aukaatriði hjá þeim.

Annars er það svo þetta, sem ég óska sérstaklega eftir, að n. athugi það spursmál, hvort þörf er á lagasetningu, og ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að þörf sé á lagasetningu, þá hvort ekki er rétt að hafa í sambandi við lagasetninguna ákvæði um það, að hlutaðeigandi bændur, sem mundu þá verða fyrir því, að afrétt ætti af þeim að taka, gætu haft rétt til þess að krefjast álits dómkvaddra eða tilkvaddra manna um þörf sína og mótaðilans fyrir að nytja landið, svo að það verði ekki aðeins sjónarmiðið, hvort sauðfjársjúkdómanefnd telur rétt að heimila upprekstur til þess að forða sýkingu, heldur hitt, hvort fjárhagsleg nauðsyn er á upprekstrinum.

Hv. frsm. taldi, að ég hefði vafasamar heimildir; þar sem ég hef aðallega vitnað til orða oddvitans í Hálshreppi og lesið upp úr bréfi frá honum. Mér þykir þetta ómaklega mælt í garð oddvitans, því að hann er merkur maður, áhugasamur um hag sinnar sveitar, eins og oddvitar eiga að vera, og til greina tekinn í sínu héraði.