12.11.1953
Efri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1224)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir skjóta og frá mínu sjónarmiði góða afgreiðslu þessa máls. Ég skal þó taka það fram, að ég hefði talið æskilegra, að brtt. hv. n. hefði verið dálítið nákvæmari. Ég skil að vísu brtt. svo, að sú heimild, sem nefnd er í 1. gr. og n. leggur til að nái aðeins til svipaðrar fjártölu og upprekstrarfélög þessi eða ábúendur einstakra jarða ráku áður í landið, þýði það, að það sé miðað hér við lengri tíma, en alls ekki allra síðustu ár, því að það væri vitanlega ósanngjarnt að miða við allra síðustu ár, þegar þeir bæir, sem hér um ræðir, voru svo að segja sauðlausir vegna niðurskurðar og fjárskipta. En ef engin aths. kemur við þann skilning frá hv. n., þá sé ég ekki ástæðu til að hafa neitt á móti því, að þessi brtt. verði samþ. óbreytt, ef nefndin skilur þetta á sama hátt og ég.

Þó að það komi ekki beinlínis málinu við, eins og það liggur nú fyrir, þá vildi ég þó út af ummælum, sem hér komu fram við 1. umr. um það, að gamalt ráðherrabréf mundi hafa upphafið eignarrétt Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár, benda á það, að síðan hefur annar kirkjumrh. skrifað bréf, sem snertir þetta mál, og ef eitt ráðherrabréf getur breytt einhverju til um eignarrétt í þessu efni, þá hlýtur síðara ráðherrabréf, ef það kemur í bága við það hið fyrra, að upphefja það; hvorugt getur að vísu átt sér stað, því að eins og ég tók fram við 1. umr. málsins, þá er auðvitað ekki hægt að breyta eignarrétti í þessu efni, nema með lögum a.m.k., og þá einna helzt lögum um fárnám. En þetta síðara ráðherrabréf er dagsett 20. maí í ár og undirskrifað af Hermanni Jónassyni landbúnaðar- og kirkjumálaráðherra. Og þar segir m.a. í lok bréfsins:

„Að fengnum till. sauðfjársjúkdómanefndar og þar sem samkomulag hefur ekki náðst, vill ráðuneytið hér með samkvæmt heimild í 43. gr. laga nr. 44 9. maí 1947, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra, sbr. 7. gr. sömu laga, mæla svo fyrir, að hreppsnefnd Hrafnagilshrepps skuli heimilt að láta reka í afrétt í landi Akureyrarkirkju í vestri Bleiksmýrardal sumarið 1953 allt að 1200 sauðfjár, þar í talin lömb.“

„Í landi Akureyrarkirkju“, stendur hér skýrum stöfum, undirskrifað af kirkjumálaráðherra, sem að vísu gefur þetta bréf út sem landbúnaðarráðherra, en það er lítt hugsanlegt, að þegar sami maðurinn er landbrh. og kirkjumrh., þá hafi hann aðra skoðun á mátinu sem kirkjumrh. heldur en hann hefur sem landbrh. Hér er það alveg skýrt og ákveðið, að ráðh. viðurkennir eignarrétt Akureyrarkirkju á þessu landi, enda er ekkert í hinu fyrra ráðherrabréfi um það, að Akureyrarkirkja sé svipt eignarrétti yfir landinu, heldur aðeins um það, að hreppsstjóranum í Hálshreppi er falið eins konar umboð yfir landinu.