13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í B-deild Alþingistíðinda. (1229)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eftir því, sem ég veit bezt, þá finnst ekkert um eignarheimild fyrir Bleiksmýrardal fyrr en 1318. Þá var Bleiksmýrardalur fyrir vestan á og fyrir framan þverá, sem heitir, að mig minnir, Högná og rennur í Fnjóskadalsána skammt fyrir framan bæi, orðinn eign Hrafnagilskirkju og er það síðan óslitið í hverjum máldaga, og hvenær sem um kirkjuna er talað, þá er hann alltaf talinn eign Hrafnagilskirkju. Þegar jarðatal Johnsens var gefið út, þá leigir Hrafnagilskirkja afnot af landinu fyrir 8 ríkisdali til hreppsbúa Hrafnagilshrepps. Seinna veit maður svo, að prestur á Hrafnagili, séra Jónas Jónasson, leigði það fyrir 80 kr., sjálfum var honum metið það á 40 kr. upp í heimatekjur, afnot af dalnum, sem hann leigði aftur til hreppsfélagsins fyrir 80 kr. Sama gerði svo séra Geir á Akureyri, eftir að Hrafnagilskirkja lagðist niður og dalurinn fór undir Akureyrarkirkju. Eftir það var hann tekinn frá kirkjunni, eins og gert var með fjölda af kirkjujörðum, og látinn undir hreppsstjóra. Hefur hann leigt hann Gunnari á Reykjum fyrir 25 kr. á ári, sem renna í kirkjujarðasjóð, en Gunnar hefur svo aftur leigt hann út til þeirra, sem hafa notað hann, bænda úr Hrafnagilshreppi og Öngulsstaðahreppi. Ég held, að það sé ekkert um það að deila, hvað það snertir, að þessi afrétt hefur um aldir verið notuð af þessum mönnum og talin eign Hrafnagilskirkju og horfið frá yfirráðum hennar og yfir í kirkjujarðasjóðinn, eins og fjöldamargar kirkjujarðir hafa gert hringinn í kringum land. (Gripið fram í.) Að hún hafi farið yfir í kirkjujarðasjóðinn? Ja, það leiðir af sjálfu sér, þegar það er búið að taka hana undan prestinum og setja hana undir stjórnarráðið beint og hreppsstjórana eins og aðrar kirkjujarðir.

Þá kemur eitt spursmál í þessu máli. Það er það, hvort þörf sé á því, að Fnjóskdælingar hafi þennan afrétt og megi ekki missa hann, hvort þá vanti svo afrétt, að þeir geti ekki misst hann. Þá vil ég endurtaka það, sem ég sagði í gær, að þeir hafa norðanvert við Fnjóskadalinn Flateyjardalsheiðina með mörgum, mörgum eyðibýlum og núna þar að auki allan Flateyjardalinn, og það er sú langsamlega bezta afrétt að undantekinni Búrfellsheiði, sem ég hef farið yfir hér á landi, og hef ég farið yfir þær margar. Það er óþrjótandi land þar og fram úr skarandi gott land þar. Það er náttúrlega heldur seint hægt að reka á hana á vorin, hún er snjóasöm, en þó er það nú ekkert ákaflega seint. Dalurinn er allur snjóasamur. Það er sagt, að það sé langt að reka á hana fyrir þá, sem búa fremst í dalnum. Það er mikið rétt. Dalurinn allur er langur — ætli hann sé ekki uppundir 40 km, og er það nú ágizkun, svona ekki langt frá lagi eftir því, hvað menn eru lengi að ríða það. Þó hafa fjöldamargir menn miklu lengri upprekstur á afrétt heldur en það, t.d. Út-Bárðdælingar, ef þeir vilja nota sinn afrétt, og allir Árnesingar, ef þeir vilja nota sinn afrétt, o.s.frv., o.s.frv., svo að það er ekki nein frágangssök. En svo þurfa þeir þess ekki heldur, því að í hinum enda Fnjóskadalsins, framdalnum, er líka afrétt. Þar er fyrst og fremst þessi Bleiksmýrardalur, sem deilt er um, deilt um hann annars vegar við ána, en ekki hinum megin. Að vísu á Grund að gömlu lagi upprekstur á Bleiksmýrardal fyrir austan ána, en það mun ekki hafa verið notað árum saman, og mun því vera fyrntur sá réttur, sem Grund hefur átt þar. Ég hygg, að Bleiksmýrardalurinn sé uppundir 30 km langur frá bæjum og fram í botn, og annan helminginn, annars vegar við ána, er hér deilt um og talað um að láta Eyfirðinga nota eða fá að nota, en hinn helminginn eiga Fnjóskdælingar að halda áfram að nota, enda þótt þeir hafi nú ekki gert það; þeir hafa ekkert rekið í hann. Svo kemur Hjaltadalurinn, næsti dalur, hann er ekki eins langur, hann er alveg eins grösugur, heldur breiðari, en nær ekki eins langt fram, og svo kemur austast Timburvalladalurinn, sem er þeirra breiðastur, þeirra grösugastur og nær þeirra lengst fram, og hvorugur þessara tveggja dala eða Bleiksmýrardalurinn fyrir austan á eru yfirleitt notaðir neitt núna, svo að það er ekki hægt að tala um það, að Fnjóskdælingana vanti afrétt, — það er síður en svo, — en það er það, sem Eyfirðingana vantar, reyndar víðar en í Hrafnagils- og Öngulsstaðahreppi; þeir eru yfirleitt ákaflega afréttasnauðir. Það er þess vegna enginn vafi á því, að þörfin er meiri á að láta Eyfirðingana fá hana heldur en Fnjóskdælingana, og í öðru lagi er ekkert í veginum fyrir að gera það frá almennu sjónarmiði séð, því að hún er tvímælalaust eign, sem hið opinbera hefur umráð yfir eins og öðrum kirkjujörðum.

Þá getur verið tvennt enn í veginum fyrir að samþ. þetta frv., annars vegar það, að það stafaði af því svo mikil sjúkdómshætta, að það að lofa Hrafnagilshreppnum að reka yfir í þetta land gæti orðið til þess, að sjúkdómar, sem væru í fénu í Hrafnagilshreppnum, en ekki í Fnjóskadalnum, bærust á milli. Ja, ég held nú, að eftir því sem ég veit bezt, þá sé hættan öll Hrafnagilshreppsmegin. Það er fundin garnaveiki allvíða í Fnjóskadal og á Svalbarðsströnd, sem á féð, sem gengur þarna á þessari heiði, en ekki nema í tveim kindum á einum bæ í Hrafnagilshreppnum, sem strax voru skornar niður, og hefur ekki orðið vart við það síðan. Þannig eru meiri líkur fyrir, að kindur úr Hrafnagilshreppnum smituðust þarna, ef þær væru þangað reknar, af garnaveiki af Fnjóskdælafé eða Svalbarðsstrandarfé heldur en að þær bæru veikina á milli. Um hina sjúkdómana, sem nú er búið að skera fyrir og á að vera búið að útrýma úr landinu, veit maður nú ekkert um, hvernig hefur heppnazt; það hefur ekki orðið vart við þá, síðan það varð vart við þá á Hólmavík, veikin gaus upp þar, þ.e. mæðiveikin; síðan hefur ekki orðið vart við hana, og ég tel líkurnar fyrir því, að. hún komi upp einhvers staðar, vera litlar og fjarri því, að það sé þeirra vegna nokkur ástæða til þess að loka þarna á milli. Það er eðlilegt, að sauðfjársjúkdómanefndin vilji hafa varnirnar áfram á milli fjárhólfanna, svo að hægt sé að grípa til varna í einu hólfi, ef pestin kemur upp, án þess jafnframt að þurfa að fara í hólfin í kring, en hér er um sama hólfið að ræða. Hrafnagilshreppurinn og Bleiksmýrardalurinn eru í sama hólfinu, svo að það er ekki neinar samgöngur þar um að ræða á milli hólfa.

Ég tel alveg fráleitt, að sýslunefnd geti haft vald til þess að banna t.d. einhverjum kunningja mínum í Þingeyjarsýslu að taka af mér tvo hesta í hagagöngu. Við skulum segja, að ég væri hér í Reykjavík og ætti tvo reiðhesta og að það atvikaðist svo, að ég ætlaði mér að vera erlendis sumarlangt og hefði ekkert að gera með hestana, og ég bæði Karl Kristjánsson að taka þá fyrir mig í haga; hann væri bóndi norður í Þingeyjarsýslu. Hann má það ekki eftir fjallskilareglugerðinni. Ég tel það fjarri lagi og að það sé bara óaðgæzla, að slíkt hafi komizt inn í fjallskilareglugerðina, og að það sé sjálfsagt fyrir okkur að samþ. þetta frv., þannig að Hrafnagilshreppsbúar geti notað þessa afrétt eins og þeir hafa gert.

Enn gæti það komið til, að menn vildu ekki samþ. þetta frv., og þar stend ég nú anzi nærri, satt að segja, þar eð þetta frv. nái allt of skammt, því að þetta frv. veitir þeim ekki leyfi til annars en að reka í landið svipaða fjártölu og þeir gerðu, meðan fé þeirra var frískt og þeir ráku þangað, náttúrlega ekki svipaða tölu og þeir gerðu, á meðan ekkert fé var, því að þá ráku þeir ekkert; það þarf ekki að tala um það. En þegar varnirnar falla niður, og það ættu þær að gera eftir svona 4–10 ár, þegar búið væri að halda þeim í 10 ár yfirleitt, eftir að fjárskipti hefðu farið fram, þá tel ég, að það sé ekki ástæða til að leggja í þann kostnað að halda þeim lengur, og það hygg ég að dýralæknar landsins séu yfirleitt sammála um. Þá detta þær niður, en þá er líka um leið rétturinn, sem þetta frv. veitir, dottinn niður, því að það er einungis á meðan þeim er varnað að nota sitt eigið land, Skjóldalinn og Finnastaðadalinn, sem frv. gildir. Ég hef ákaflega mikla tilhneigingu til þess að stíga sporið lengra, fyllra, og lofa þeim að kaupa þetta land og reka í það alltaf, ekki bara á meðan það stendur bann um að reka á Finnastaðadalinn og Skjóldalinn, eins og núna er, heldur líka í framtíðinni. En aðrir líta svo á, að það sé ekki tímabært, eins og stendur núna, að gera það, og vilja heldur taka málið upp á ný, þegar að því kemur, að vörnunum verður aflétt, og ég ætla nú ekki að sækja það með neinu kappi og fylgi þess vegna frv. eins og það er, enda þótt ég hefði miklu heldur kosið hitt, að geta leyft þeim að fá afréttinn alveg strax til sinna ráða, svo að þeir hefðu getað girt hann og gert aðrar nauðsynlegar ráðstafanir, sem þeir þurfa að gera og eiga að gera, þegar þeir hafa framtíðarafnot af honum, en geta varla gert, þó að þeir fái afnot af honum í fáein ár, eins og þeir fá eftir þessu frv.

Ég skal svo endurtaka það, að n. mælir með þessu frv. óbreyttu. Ég skal fyrir nefndarinnar hönd lofa að taka til athugunar, hvort það muni þurfa eitthvað frekara viðvíkjandi brtt. n., hvort það þurfi að breyta henni eitthvað við 3. umr. Ég held þess þurfi ekki, en ég skal athuga það, og ef við sjáum, að það sé nauðsynlegt, þá skulum við koma með brtt. við það. Ég held, að það þurfi ekki, því að með svipaða fjártölu og þeir áður höfðu í landinn; það segir sig sjálft, að það er engin fjártala, þegar þeir ráku ekkert, það er fjártala á meðan þeir ráku og notuðu það, fjártala, sem veltur þetta frá 1200 og upp í 1800 fjár á ári. Það var það, sem þeir yfirleitt ráku þangað.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira, en legg til sem sagt, að frv. verði samþykkt.