16.11.1953
Efri deild: 21. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Mönnum hér í þessari hv. d. er nú e.t.v. farið að finnast, að Bleiksmýrardalur sé nokkuð mikið umræddur, en það er bót í máli, að dalurinn er sögufrægur. Espólín segir frá því, að síðasta raunverulegt hestaat á Íslandi hafi farið fram á Bleiksmýrardal 1625. Bóndinn á Illugastöðum í Fnjóskadal, Sveinn að nafni, átti bleikan hest, sem hann hefði til víga, og bóndinn á Garðsá í Eyjafirði, sem hét Sigmundur, átti vindóttan hest, sem hann líka æfði til víga. Með þessum bændum í Hálshreppi og Eyjafirði risu úfar metnaðar og ríkilætis og þeir stofnuðu til hestaats og leiddu saman hesta sína einmitt á Bleiksmýrardal. Atinu lauk þannig, segir sagan, að Bleikur Sveins á Illugastöðum reif Vind Sigmundar á Garðsá á hol. Ekkert slíkt gerist vitanlega í þessu máli, þótt deilt sé um dalinn, og ekki vil ég blása þar að kolum ófriðar milli arftaka Sveins og Sigmundar, en ættmenn þeirra munu margir vera í þessum sýslum. Hálshreppsbúar, sem hafa sterkari rétt til dalsins en Eyfirðingar, munu sigra, þótt seinna vergi, þegar landkreppa íbúa Hrafnagilshrepps leysist helma fyrir, eins og frv. gerir ráð fyrir.

En ég vil leyfa mér að bera hér fram litla brtt. við frv. Hún er skrifleg, en ég vænti þess, að hún verði tekin til greina.

Sveitarstjórnin í Hálshreppi hefur, eins og ég hef reyndar margtekið fram, lýst því yfir, að hún líti svo á, að bændur í Hálshreppi þurfi á Bleiksmýrardal að halda til beitar fyrir fé sitt, en með samþykkt þessa frv. er þörf íbúa Hrafnagilshrepps í Eyjafirði metin meiri um stundarsakir. Í öðru lagi telja íbúar Hálshrepps sig verða fyrir skaðlegum usla í ofbeittum heimalöndum af ágangi fénaðar Eyfirðinga, sem rekinn er á Bleiksmýrardal. Engin sanngirni er í því að ætla Fnjóskdælingum að búa við slíkan ágang á heimalöndin. Allir hljóta að geta fallizt á, að það verði að fyrirbyggja þennan ágang svo sem unnt er, en það verður ekki gert með öðru móti en því að girða fyrir hann að meira eða minna leyti.

Bóndinn á Reykjum, sem er fremsti bær í Fnjóskadal vestan ár og á land, sem liggur að Bleiksmýrardal, hafði fyrir allmörgum árum gert girðingu úr Fnjóská upp í klettabelti. Sú girðing er um 300 faðmar að sögn. Þessi girðing kom í veg fyrir það, að féð af Bleiksmýrardal og stóðið þar rynni út með ánni og út í heimalönd bændanna vestan Fnjóskár. Nú hefur girðingunni ekki verið haldið við, og hún hefur níðzt niður, en í henni er efni, sem mætti nota, og þarna blasir við möguleiki til þess að girða að verulegu leyti fyrir áganginn. Hins vegar getur ekki orðið að fullu girt fyrir hann með þessari girðingu, þótt hún væri upp sett, en til þess að girða að fullu fyrir hann er mér sagt að þurfi helzt um 5 km langa girðingu uppi á fjallinu. Nú þætti mér undarlegt, ef þeir hv. þm., sem kunna að telja við eiga að heimila Hrafnagilshreppsbúum upprekstur á Bleiksmýrardal, vilja ekki jafnframt leggja þeim einhverja kvöð á herðar um að girða fyrir ágang af fé sínu í heimalönd Hálshreppsbúa, og þess vegna leyfi ég mér nú að bera fram þessa litlu brtt., sem ég gat um áðan. Hún hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 1. gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Skylt er slíkum notendum afréttarlands að setja upp, et krafizt er, girðingar og viðhalda þeim til þess að koma í veg fyrir ágang afréttarfjár sins í heimalöndum þeirra, sem afrétturinn er tekinn hjá, enda sé þeim aðilum, er girðinganna krefjast, skylt að kaupa þær samkvæmt verðmati dómkvaddra manna, þegar úr gildi fellur beitarnotaheimild þessara laga.“

Það er að vísu undantekning frá girðingalögum að gera þeim, sem afrétt nota, alla skyldu við að setja upp girðingu og viðhalda henni. En það mun líka vera undantekning að heimila með sérstökum lögum afnot lands gegn vilja þeirra, sem að landinu standa, svo að hér er jöfnuður á. Kvöðin, sem yrði lögð á þá, sem landsnotin eru heimiluð, er hemluð með því, að ekki er hægt að krefjast þessa af þeim nema taka á sig þá skyldu að kaupa girðinguna aftur eftir mati dómkvaddra manna, þegar afnotarétturinn fellur niður. Ég vænti þess, að hv. þm. telji sanngjarnt að bæta þessari málsgr. inn í lögin, og ég vona líka, að flm. frv. telji það sanngjarnt.