17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Brtt. á þskj. 169 frá hv. þm. S-Þ. virðist mér dálítið einsfæð í sinni röð. Tilgangurinn með henni er auðvitað auðsær, og hann er sá að gera —þeim, sem hingað til hafa haft rétt til að reka á Bleiksmýrardal, svo erfitt fyrir um það sem verða má með því að ætla þeim, jafnvel þó að þeirra réttur standi ekki nema eitt eða tvö ár, að girða fyrir afréttinn á sinn kostnað að öllu leyti. Að vísu telur flm. þessarar till. sig milda þetta dálítið með því, að öðrum aðilum beri skylda til að kaupa girðinguna, þegar þessi not hverfa úr sögunni, en þó á það að vera eftir mati dómkvaddra manna, sem auðvitað yrðu þá dómkvaddir af yfirvaldi annars aðilans og sennilega nákomnir málinu að einhverju leyti. Ég held, að till. sem þessi sé alveg einstök, elns og ég sagði áðan. Ég held, að það hafi aldrei tíðkazt að krefja þá menn, sem hafa rekið á afrétt gegn fullu hagagjaldi, um það, að þeir girtu. Að minnsta kosti þekki ég ekki til þess, og hef ég þó fengizt fyrir nokkru alllengi við svipuð mál eins og þetta er. Það er vitanlega sá, sem tekjurnar hefur af landinu, sem skyldan hvílir á, en ekki þeir einstaklingar, sem reka þangað gegn fullu gjaldi. En þó að tilgangur hv. flm. þessarar till. sé auðsær, þá virðist mér nú ekki alveg vist, að tilgangurinn næðist, jafnvel þó að þessi till. yrði samþ.

Í till. stendur: „Skylt er slíkum notendum afréttarlands að setja upp, ef krafizt er, girðingar og viðhalda þeim til þess að koma í veg fyrir ágang afréttarfjár sins í heimalöndum þeirra, sem afrétturinn er tekinn hjá.“

Þó að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé almenns eðlis og geti átt viðar við, þá er það öllum þm. hér í hv. d. vitað, að þessi till. er borin fram út af Fnjóskdælingum sérstaklega, og þá vildi ég nú spyrja hv. flm. þessarar till. að því, hjá hverjum afrétturinn er tekinn, ef um slíkt er að ræða. Mér virðist, að það hljóti að vera eigandi afréttarins, sem hann er tekinn hjá, og hér hefur ekki verið talað um aðra eigendur en Akureyrarkirkju sem arftaka Hrafnagilskirkju ellegar þá kirkjujarðasjóð, sem sumir hafa haldið fram að væri orðinn eigandi landsins. Þá ætti það vitanlega að vera annar hvor þessi aðili, sem ætti að krefjast girðingarinnar. Ég geri nú ráð fyrir, af því að ég veit líka, að flm. till. er mjög hygginn maður, að hann hafi séð þá veilu, sem að þessu leyti er í till., en huggað sig við það, að valdið yfir afréttinum hefur — með vafasömum rétti, vil ég fullyrða — verið fengið hreppsstjóranum í Hálshreppi, svo að þar af leiðandi telji hann það sama, hvort það er Hálshreppur eða sá rétti eigandi landsins, sem hér kemur til greina.

Mér virðist, að þessi till. sé með öllu óþörf. Það eru til ákveðin lög, sem kveða á um það, hvernig að skuli fara, ef þeir aðilar, sem telja þörf á að fá land girt á merkjum, krefjast slíkrar girðingar, og það eru ekki neitt gömul lagaákvæði. Girðingalögin eru frá 1. febrúar í fyrra, 1952, og það er þar skýrt tekið fram, ef krafizt er girðingar fyrir afrétt, að þá skuli eigendur eða notendur landsins leggja fram 3/4 kostnaðar við girðinguna, en þeir, sem girðingarinnar krefjast, sem er gert ráð fyrir að séu næstu bæir við afréttina, leggja fram 1/4. Mér virðist, að ekki sé ástæða til þess í þessu tilfelli að fara neitt lengra í þessu efni heldur en girðingalögin ákveða, og það fráleitast þó af öllu að ætla að sleppa þarna eiganda landsins við að girða, sem girðingalögin kveða skýrt á um að skuli taka þátt í því, þó að ekki sé nákvæmlega tiltekið, hvernig því skuli skipt á milli eigenda og notenda. Mér hefði því þótt réttast af hv. d. að fella þessa till., þar sem ég tel hana óþarfa. En ef d. vildi nú endilega fara að samþ. eitthvað um þetta, þá hef ég hugsað mér að bera fram brtt. við þessa brtt. á þskj. 169, og er hún svo hljóðandi:

„Meginmál till. orðist svo: Um skyldu til að setja upp girðingar fyrir slík afréttarlönd og um kostnað við uppsetningu þeirra og viðhald fer eftir ákvæðum girðingalaga, nr. 24 1. febr. 1952, þó þannig, að ef aðilar eru sinn úr hvoru sýslufélagi og komi til matsgerðar samkv. 6. gr. þeirra laga, skulu gerðarmenn frá upphafi skipaðir samkv. 2. málsl. 2. málsgr. þeirrar greinar.“

Þessi brtt. mín gerir ekki raunverulega breyt. nema aðeins síðasti hluti hennar. Í fyrri hlutanum er vísað til þeirra laga, sem nú gilda, og að eftir þeim skuli farið. Það er aðeins um þetta, þegar aðilarnir eru sinn úr hvoru sýslufélagi, eins og er að því er Bleiksmýrardal snertir, að þá líkar mér það ekki, að eins konar fulltrúi annars aðilans skipi gerðardóminn, fyrst í undirmati úttektarmann nærliggjandi hrepps og síðan skipi sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu gerðardóminn. Þess vegna legg ég til, að ef aðilar eru sinn úr hvoru sýslufélagi og komi til matsgerðar samkv. 6. gr. þeirra laga, skuli gerðarmenn frá upphafi skipaðir samkv. 2. málsl. 2. málsgr. þeirrar gr., en hann er svo hljóðandi:

„Liggi girðingin á mörkum 1ögsagnarumdæma, tilnefna hlutaðeigandi lögreglustjórar eða sýslumenn tvo menn hvor, og gengur einn þeirra úr eftir hlutkesti, hinir framkvæma svo matið.“

Í sjálfu sér er ekki önnur breyting í þessari till. minni heldur en þetta.

Ef aftur á móti eignarréttur Eyfirðinga yrði viðurkenndur fyrir þessu landi með einhverju móti og framtíðarnot þeirra af landinu til afréttar, þá, mundi ég glaður ganga að því að víkja að því leyti frá girðingalögum, að þeim bæri að girða landið af. En hitt, að ætla mönnum að leggja í þennan kostnað fyrir kannske eitt eða tvö ár, og eigandi það á hættu að fá ef til vill ekki nema lítinn hluta þess kostnaðar endurgreiddan, það skil ég ekki í að hv. d. samþykki og sýni með því, ég hygg, dæmafáa ósanngirni. Ég vil svo afhenda forseta þessa brtt.