30.11.1953
Efri deild: 26. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

38. mál, greiðslur vegna skertrar starfshæfni

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. var borið fram af hæstv. ríkisstj., og efni þess er að leita staðfestingar á samningi, sem gerður var milli Íslands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar á yfirstandandi ári og undirritaður á fundi félagsmálaráðherra Norðurlanda, sem haldinn var hér í Reykjavík í júlí síðast liðnum.

Efni samningsins er í stuttu máli það, að um greiðslur og aðstoð til manna með skerta starfsgetu, þ.e.a.s. öryrkja, skuli gilda gagnkvæmi milli samningsríkjanna allra fimm, þannig að ef þeir dveljast ákveðinn tíma utan síns heimalands í einhverju öðru Norðurlandaríkjanna, þá skuli þeir eiga sama rétt til örorkubóta og annarrar öryrkjaaðstoðar eins og eigin ríkisborgarar dvalarlandsins eiga samkv. tryggingalöggjöf þess lands. Það þýðir, að íslenzkir ríkisborgarar, sem dveljast í einhverju hinna samningslandanna og uppfylla skilyrði samningsins, eiga sama rétt til örorkulífeyris og sama rétt til aðstoðar til þess að ná aftur heilsu sinni eða vinnugetu eins og borgarar þess Norðurlandanna, sem þeir dveljast í á hverjum tíma. Á sama hátt eiga ríkisborgarar hinna samningslandanna, sem dveljast hér á Íslandi ákveðinn tíma, rétt til örokubóta, þ.e.a.s. örorkulífeyris, lífeyris fyrir sín börn og styrk til maka, ef það kemur til greina á annað borð, á sama hátt eins og íslenzkir ríkisborgarar eiga samkv. tryggingalögunum hér. Enn fremur eiga þeir útlendir ríkisborgarar, sem falla undir samninginn, rétt til aðstoðar samkv. lögum um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla til að útvega sér gervilimi og til annarrar aðstoðar til öryrkja, sem þau lög heimila.

Þetta er í stuttu máli efni samningsins, og n. er á einu máli um að leggja til, að samningurinn verði samþykktur. Þessi samningur er einn af fimm Norðurlandasamningum, sem gerðir hafa verið nú hin síðari ár um gagnkvæmi í tryggingum. Tveir þeirra samninga eru þegar komnir í gildi. Annar þeirra er um gagnkvæmar greiðslur ellilífeyris og gildir fyrir öll Norðurlöndin fimm. Sá næsti er um gagnkvæmar greiðslur fjölskyldubóta eða barnastyrkja og gildir fyrir Norðurlöndin öll nema Finnland. Þá er samningur frá í sumar, sem enn er ekki kominn í gildi, um gagnkvæma mæðrahjálp, en samkv. honum eiga þær konur samningslandanna, sem ala börn sín vegna dvalar um skamma hríð í einhverju hinna samningslandanna, rétt til fæðingarstyrkja eftir lögum þess lands, þar sem þær dveljast, þegar barnið fæðist. Og gildir það jafnt hér á Íslandi um þann fæðingarstyrk, sem Tryggingastofnunin greiðir, og þann styrk, sem sjúkrasamlögin greiða, en fyrir honum er þó það skilyrði, að hlutaðeigandi kona sé meðlimur í sjúkrasamlagi á staðnum. Þá er sá samningur, sem hér liggur fyrir til staðfestingar, um gagnkvæmar greiðslur og styrki til öryrkja. Og loks er svo samningur milli fjögurra Norðurlandanna, allra nema Finnlands, um sjúkraflutninga milli sjúkrasamlaga samningslandanna allra fjögurra og um bráðabirgðahjálp vegna veikinda, meðan menn dveljast um stundarsakir í einhverju þessara landa.

Það er sameiginlegt með öllum þessum samningum, og er það nýmæli, að gert er ráð fyrir því, að sá kostnaður, sem samningarnir hafa í för með sér, sé greiddur af því landi, þar sem bæturnar eru inntar af hendi eða sjúkrahjálpin veitt, og fellur þá niður öll endurgreiðsla eða allur réttur til kröfu um endurgreiðslu frá heimalöndum hlutaðeigandi manna.

Að sjálfsögðu er ekki unnt að segja um það með neinu sem nálgast fulla vissu, hvernig þetta kemur út reikningslega fyrir þau einstöku lönd. En talið er mjög líklegt, að á þeim viðskiptum náist mjög nálægt jöfnuði, a.m.k. þegar tekið er tillit til nokkurra ára. En hitt má telja vist að því er okkur snertir, að ekki yrði ástæða til þess að gera ráð fyrir, að á Íslendinga halli í þessum viðskiptum. Þvert á móti leit út fyrir, að það yrði heldur okkur til hags, a.m.k. fram til þessa nú yfirstandandi árs, eftir að fjölskyldubæturnar voru auknar svo sem gert var á þinginu siðast. Hver áhrif það hefur, er ekki séð enn með vissu. En meginástæðan til þess, að þessi regla er nú upp tekin í öllum þessum samningum, er sú, að endurheimt slíkra greiðslna og bóta sem hér um ræðir er ákaflega miklum erfiðleikum bundin og ákaflega hvimleitt fyrir alla, sem hlut eiga að máli, að þurfa að fara þá leið. Því hefur þessi leið verið tekin upp í milliríkjasamningum núna seinni árin með góðu samþykki allra hlutaðeigandi landa.

Af þessum fimm samningum, sem ég hef nefnt, eru fjórir, sem falla eingöngu innan marka almannatryggingalaganna, en þau veita ríkisstj. heimild til að gera slíka gagnkvæmissamninga. Um þennan samning, sem hér liggur fyrir, gegnir nokkuð öðru máli, því að hann fer út fyrir svið almannatryggingalaganna og inn á svið laganna um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, en í þeim lögum eru engin ákvæði, sem heimila slíka gagnkvæmissamninga sem hér er um að ræða. Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. talið rétt og skylt að leita staðfestingar Alþ. á þessum samningi, en um hina er það óþarft, eins og áður er getið.

Nefndin, eins og ég áður hef sagt, mælir eindregið með því, að frv. verði samþ., og telur, að rétt sé stefnt með þessum samningum og miðað að því marki að gera Norðurlöndin öll sem næst því að einu tryggingasvæði, þannig að tryggðir menn geti notið réttinda í hverju landi, sem þeir dvelja í, að uppfylltum þeim skilyrðum, sem samningarnir setja.