17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. „Og enn kvað hann,“ má segja um hv. flm. þessa frv. Hann hefur flutt hér frv., sem vel má segja um að sé einstætt í sinni röð, og þarf hann þess vegna ekkert að undrast það, þó að það, sem er sagt í sambandi við það frv., sé að einhverju leyti óvenjulegt og að þær till. til breytinga við frv., sem fram koma, séu einstæðar með því. Hann heldur því fram, að till. sú, sem ég hef flutt til breytinga, sé miðuð við það að gera Hrafnagilshreppsbúum sem allra erfiðast fyrir. Þetta er ekki rétt. En till. er miðuð við það að taka af frv. ofur litið af þeirri einhliða umhyggju, sem þar kemur fram fyrir hagsmunum Hrafnagilshreppsbúa. Ég hef lýst því og þarf ekki að endurtaka það, hvernig Hálshreppsbúar eru settir í þessu máli, og ég hef með till. minni viljað tryggja þeim og þó ekki freklega, að þeir gætu krafizt þess, að Hrafnagilshreppsbúar girði fyrir þann ágang, sem frv. hlýtur að leiða af sér af þeirra hendi. Ég hef farið svo vægt í þessar sakir, að ég hef gert ráð fyrir því, að ef Hálshreppsbúar krefjast girðinga, þá verði þeir að kaupa þær girðingar að sjálfsögðu fullu verði í því standi, sem þær eru, þegar Hrafnagilshreppsbúar hætta að veita áganginn. Hv. flm. frv. óttast það, að hér verði aðeins um stuttan tíma að ræða, sem Hrafnagilshreppsbúar fá að nota Bleiksmýrardal. Hins vegar hefur hv. form. landbn. gert ráð fyrir því, að jafnvel um áratug geti orðið að ræða. En hvort sem tíminn verður langur eða stuttur, hafa Hrafnagilshreppsbúar tryggingu fyrir því að fá greiðslu fyrir girðingar, sem þeir skilja eftir í landinu, þegar þeir hætta að nota það.

Hv. flm. óttast það, að menn, sem sýslumaðurinn í Þingeyjarsýslu dómkveður til að meta verðmætið, verði ekki óvilhallir. Hann segir að vísu, að það þurfi ekki vonda menn til þess, jafnvel dómarar þurfi ekki að ganga úr sæti stundum og setudómarar að koma í staðinn. Þetta er rétt. En mundi nú nokkur halda því fram, að dómari væri ekki skyldugur og mundi ekki yfirleitt reyna að velja óvilhalla menn til þessara verka, einmitt þá menn, sem hafa hliðstæða afstöðu og setudómarar, þegar þeir eru kvaddir til? Mál getur verið þannig, að dómari sé svo nákominn því, að setudómara þurfi til. En dómari, sem kveður menu til að meta þetta, hefur aðstöðu til þess að velja mennina þannig, að þeir séu ónákomnir. Það er til þess ætlazt Og ekki ástæða til að tortryggja slíkt, að mér virðist.

Hv. flm. sagði, að þó að tilgangurinn væri auðsær með brtt. minni, þá væri ekki víst, að hann næðist, og benti á, að í till. er talað um, að þeir hafi réttinn til kröfunnar, sem afrétturinn er tekinn hjá, og hann spyr: Hjá hverjum er afrétturinn tekinn? Og hann svarar, að afrétturinn sé auðvitað tekinn hjá eiganda landsins. Þetta þykir mér undarlegt að heyra frá jafnrökvísum manni og hv. flm. er. Hér er frv. fram komið vegna þess, að Þingeyingar höfðu rétt þennan. Þeir höfðu hann fyrst og fremst vegna þess, að hreppsstjórinn hafði umráð yfir landinu. En það er ekki nóg. Þeir höfðu hann af því, að bóndinn á Reykjum hefur landið á leigu. Það eru þó ekki þyngstu rökin. En þeir höfðu hann vegna þess, að þau ákvæði eru í fjallskilareglugerð Suður-Þingeyjarsýslu, staðfestri fjallskilareglugerð, sem gefa þeim réttinn. Þess vegna er það skýlaust, að það eru bændurnir í Hálshreppi, sem rétturinn er tekinn hjá, mennirnir, sem búa í þeirri sveit, sem telja má að landið liggi i. Það er enginn vafi á því, og hann þarf engar áhyggjur að hafa af því, að tilgangurinn náist ekki. En tilgangurinn er ekki illur. Hann er aðeins til að tryggja þeim mönnum, sem á að taka rétt af, ofur lítinn sanngjarnan rétt á móti.

Flm. heldur því fram, að ákveðin í till. minni séu í raun og veru óþörf, og vitnar í því sambandi til girðingalaganna frá 1. febr. 1952, því að þar segir hann, að „ábúendur og eigendur“ jarða hafi rétt til þess að setja upp girðingar og krefjast þátttöku. Þetta er að nokkru leyti rétt, en þó er breytt einu orði í ívitnun laganna. 7. gr. girðingalaganna, sem inniheldur ákvæði um þessi efni, ræðir um þetta á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Vilji ábúendur eða eigendur jarða, er liggja að afrétt, girða milli afréttarinnar og heimalanda sinna, skulu eigendur eða notendur afréttarinnar greiða 3/4 hluta stofnkostnaðar girðingarinnar.“

Hér er ekki talað um „ábúendur og eigendur“, heldur „ábúendur eða eigendur“. Og það er ekki alveg ljóst og sízt af öllu í þessu tilfelli, á hverjum skyldan hvílir, „eigendum eða notendum“. Fyrst og fremst er nú ekki ágreiningslaust, hverjir eru eigendur þessa afréttarlands. Og í öðru lagi liggur það ljóst fyrir, að „eigendur og notendur“ í þessu tilfelli eru ekki hinir sömu. Mér virðist, að þar sem á að taka þetta land til nota fyrir Hrafnagilshrepp samkvæmt frv. og tímabundið, þá geti það orðið óþægilegur eltingarleikur fyrir bændurna í Hrafnagilshreppi, sem verða fyrir ágangi af fénaði þeim, sem rekinn verður á Bleiksmýrardal, að gera rétt sinn gildandi, því að svo óljós eru lögin, að þátttökuskyldan snertir annaðhvort „eigendur eða notendur“. Það mundi geta tekið þann tíma, sem ósanngjarnt væri að ætla þeim að bíða eftir þátttöku undir þessum kringumstæðum. Ég hef viljað með till. minni fyrirbyggja þetta. Ég verð að segja það, að mér finnst brtt. hv. flm. sem viðbótartill. við frv. alveg óþörf. Hún vísar aðeins til laganna. Vitanlega þarf ekki að vísa bændum á þessi lagaákvæði. Hitt er það, sem þarf að gera og mín till. gerir, ef hún verður samþ., að tryggja þeim girðingar jafnskjótt og þeir verða fyrir því, að af þeim er tekinn afrétturinn. Ég vona þess vegna, að hv, þdm. samþykki mína brtt., en felli brtt. hv. flm. frv. Og mér þætti það í raun og veru jafnvel nálgast það að vera hlægilegt, ef hún yrði samþ., þótt að vissu leyti væri það í samræmi við þá flækju mála, sem innleidd er með frv. þessu, — frv., sem er miðað við einstakt atriði, einstakt efni, aðstæður á einum stað, en búið út með orðaleik eins og það væri almennt ákvæði.