30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað þetta frv., og eins og hv. þm. vita, þá felur frv. það í sér, að sauðfjáreigendum, sem að einhverju leyti hafa verið sviptir sínum beitilöndum með þeim girðingum, sem eiga að vera til vörzlu gegn sauðfjársjúkdómum, er heimilað samkvæmt þessu frv. að nota beitarlönd, sem þeir hafa ýmist notað eða ekki notað á undanförnum árum, svo framarlega sem það brýtur ekki í bága við sauðfjársjúkdómavarnir. Þetta getur átt við víðar en á einum stað hér á landi, og það er vitað t.d., að afréttarlönd Húnvetninga hafa bændur ekki getað notað vegna þess, að það hefur legið girðing þvert fyrir framan löndin, svo að þeir hafa ekki getað rekið fé sitt til fjalls. Þannig mun víðar vera hér á landi, að sauðfjáreigendur hafa ekki getað notað sín afréttarlönd til fullnustu. En sums staðar hagar þannig til, að hægt er að nota afréttarlönd, sem liggja í öðrum héruðum, en skortur er á nógu ákveðnum lagafyrirmælum um þetta. Frv. er því fram komið til þess að taka af öll tvimæli um þetta og leyfa sauðfjáreigendum að nota afréttarlönd, sem vafi hefur leikið á, að þeir mættu, ef það brýtur ekki í bága við sauðfjárveikivarnirnar.

Landbn. hefur rætt þetta frv. einnig við framkvæmdastjóra sauðfjársjúkdómanefndar, og telur hann nauðsynlegt, að þetta frv. nái fram að ganga. Einnig eru nm. allir samþykkir því, að frv. nái fram að ganga, en hv. þm. N-Þ. hefur áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. eða fylgja brtt., ef fram kæmu.

Ég vil mælast til þess, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. frv. eins og það nú er, því að ekki má láta neitt ógert til þess að tryggja sauðfjárræktina og öryggi gegn þeirri hættu, sem frá sauðfjársjúkdómum stafar.