30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Í grg. fyrir frv. þessu er tekið fram, að það sé flutt að beiðni hreppsnefndarinnar í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu til þess að greiða úr aðsteðjandi vandræðum þar í hreppi vegna vöntunar á beiti- og afréttarlöndum fyrir sauðfé. Þá er tekið fram í grg., að viðar geti staðið eins á og þar er lýst, þó að frv. sé fram borið vegna ástæðna í einum hreppi sérstaklega.

Ég sé ástæðu til þess að láta það koma fram við þessa umr., að fjáreigendur á Akureyri eiga nú í sömu vandræðum og bændurnir í Hrafnagilshreppi vegna afréttarleysis. Það má segja, að Glerárdalur, sem gengur upp af Akureyri, sé eina afréttarlandið, sem eigendur sauðfjár á Akureyri hafi fyrir sauðfé sitt, eftir að þeim hafa verið meinuð afnot af Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár, en til margra ára hafa fjáreigendur á Akureyri rekið fé sitt á Bleiksmýrardal á það land, sem Hrafnagilskirkja og síðar Akureyrarkirkja á þar á dalnum. Það má segja, að þessi afnot dalsins hafi gert mörgum Akureyringum mögulegt að eiga sauðfé. Glerárdalur er nú eina afréttarlandið, sem þessir menn hafa fyrir bústofn sinn.

Fyrir alllöngu var komið upp sauðfjárveikivörnum á Glerárdal ofarlega. Hefur þessi girðing mjög takmarkað afnotin af dalnum, þar sem tvisvar í viku er rekið frá girðingunni og fénu stuggað niður allan dal. Kemur þetta beitiland því ekki núna nema að hálfum notum miðað við það, sem áður var.

Ég vildi nú aðeins láta það koma fram, að sauðfjáreigendur á Akureyri munu nota sér þann rétt, sem felst í frv. þessu, nái það fram að ganga. Þeir hafa til margra ára notað Bleiksmýrardal vestan Fnjóskár til sumarbeitar fyrir sauðfé sitt, og það hefur lengst af verið átölulaust af Þingeyingum, sem eru ekki í neinum vandræðum með mikil og góð afréttarlönd fyrir fé sitt. Vegna mæðiveikigirðingarinnar á Glerárdal kemur dalurinn ekki lengur að svipuðum notum og áður og ekki um neitt land annað að ræða í Eyjafjarðarsýslu, sem gæti komið í staðinn.

Ég vildi því lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv., sem kemur til með að leysa mikil vandræði, nái það fram að ganga, sem allar líkur benda nú til.