16.11.1953
Neðri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

101. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 166, er, eins og fram er tekið í grg., undirbúið og flutt að tilhlutun þfkn., enda þótt ekki séu nema þrír þm., sem í henni eru, flm. að því. Hinir tveir, sem í n. eru, eru báðir í Ed. og eru hv. þm. Mýr. (AE) og hv. 10. landsk. (GÍG).

Það hefur á undanförnum árum verið svo, að það hefur verið allmikið á reiki, hvernig farið hefur verið með þau kjör, sem þm. hafa búið við, og lögin, sem um þetta eru, eru frá 1919, svo að það er ósköp eðlilegt, að það sé orðinn dálítill ruglingur á því, hvernig með þessi mál hefur verið farið, enda er það svo, að það er í mjög mörgum liðum, sem þingfararkaup alþm. er reiknað út. Núna á síðustu þingunum er svo komið, að þingfararkaupið er töluvert fyrir neðan almennt verkamannakaup, t.d. vegavinnukaup. Ég held nú, að það sé almenn skoðun, a.m.k. í þfkn., að þetta sé mjög óeðlilegt, og ég held, að það virði það enginn, að það sé með þessi mál þannig farið. Meira að segja hef ég og margir hv. alþm. orðið þess varir, að þeir, sem ekki eru kunnugir þessum málum, trúa ekki, að þetta sé svona lágt eins og það raunverulega er. Nú vill þfkn. koma þessu í fast horf, og þess vegna hefur hún flutt þetta frv., en aðalatriðin í því eru, eins og hv. þm. sjá, í 1. gr. og 4. gr.

Ég skal ekki fara neitt út í það, hvort það muni vera hér stungið upp á réttri tölu varðandi það, sem hér er ákveðið í 1. gr., en það mun þó samkvæmt öllu því, sem gerist í launamálum og kaupgjaldsmálum í okkar landi, ekki vera talið, að þarna sé frekt í farið samkv. þeim ákvæðum, sem í 1. gr. frv. eru, sem eru 130 kr. á dag.

Í 4. gr. frv. er komið fram með nýmæli, sem hefur ekki verið í lögum áður, og það er það, að fyrrv. alþm., sem hafa verið þrjú kjörtímabil eða lengur samfleytt á þingi eða verið þar 15 ár samtals, þótt það hafi slitnað í sundur, eigi rétt til eftirlauna, ef þeir hafa ekki þann rétt fyrir önnur störf. Nú er það kunnugt, að eftirlauna- og lífeyrisréttur í okkar landi er orðinn ákaflega víðtækur, og það hefur oft og einatt verið mjög undarlegt að sjá það og vita, að héraðshöfðingjar, sem komnir eru á gamalsaldur og búnir eru að sitja mjög lengi á Alþingi og eyða ævi sinni í félagsmálastörf að mjög miklu leyti, hafa engan rétt til lífeyris, en hvaða aðili sem hefur komizt á laun hjá ríkinu, hvort það er hjá stofnunum ríkisins eða hvarvetna annars staðar og jafnvel hve stutt sem hann hefur verið, hefur rétt til þessara hluta.

Nú gætu einhverjir hv. þm. haldið, að þessi till. sem hér er flutt, mundi verða töluvert kostnaðarsöm nú þegar. Ég skal ekki alveg um það fullyrða, hvað margir kæmust undir þessi ákvæði elns og sakir standa, en við lauslega athugun á þingmannatalinu og þeirri þekkingu, sem ég hef á því, hverjir af fyrrverandi brtt. gætu nú komizt undir þetta ákvæði, þá hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að það væru nú ekki nema fimm menn. Og ég sé ekki neitt við það að athuga, þótt ég nefni nöfn þessara fimm manna, sem þarna gætu komið til greina og hafa verið þetta lengi á Alþingi. Það eru Þorleifur í Hólum, Hákon í Haga, Páll Hermannsson, Sigurjón Á. Ólafsson og Stefán í Fagraskógi. Sjötti maðurinn, sem ég hygg að þetta þýddi einhverja dálitla hækkun hjá, er Halldór Steinsson, fyrrv. læknir, sem hefur eftirlaun samkv. eftirlaunaskipuninni.

Ég vil nú fyrir hönd þfkn. og þá náttúrlega fyrst og fremst fyrir hönd okkar flm. hér í þessari hv. d. óska þess, að þetta mál fái sem skjótasta afgreiðslu, og ég vil óska þess jafnframt, að það verði ekki af hálfu hv. þm. farið af stað með brtt. við þetta frv., nema haft sé samráð við okkur í þfkn., sem höfum um þetta mál fjallað. Málið er þess eðlis, að það er heppilegra, að það sé ekki farið að þræta hér um einstakar brtt., hvort sem þær eru til hækkunar eða lækkunar, án þess að það sé um það haft samráð við þá menn, sem hafa undirbúið málið.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.