17.12.1953
Efri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd., og var fullkomið samkomulag um afgreiðslu þess þar í þeirri mynd, sem það er núna. Nú eru fáir fundir þangað til þingi verður frestað, og hefur mér þess vegna dottið í hug að fara þess á leit við þessa hv. d. að reyna nú að nota þennan stutta tíma, sem eftir er af þinginu fyrir jólin, til þess að lögfesta þetta frv. Dettur mér í hug, að það megi takast, þar sem samkomulag var milli allra flokka í Nd. um frv. eins og það er útlítandi.

Það hefur oft verið rætt um þörfina fyrir drykkjumannahæli, og er það ekki að ástæðulausu. Það er ekki sæmandi að láta lengur reka á reiðanum í þessu efni. Það verður nú þegar að hafast eitthvað að, og ég held, að það væri gott verk núna, áður en þinginu væri frestað, að gera þetta frv. að lögum, svo að strax nú í þinghléinu megi fara að undirbúa þetta mál og gera það að veruleika í framkvæmd.

Þetta frv. gerir ekki ráð fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Það er gert ráð fyrir að reisa og reka gæzluvistarhæli með því fé, sem þegar er komið í gæzluvistarsjóð, og því fé, sem kemur árlega í sjóðinn. Nú munu vera um 3 millj. kr. í gæzluvistarsjóði, og árlega bætast í hann sjö, átta eða jafnvel níu hundruð þús. kr. af áfengisgróðanum. Þessu fé er vel varið í því skyni að byggja og reka gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, þessa ógæfumenn, sem nú er ekki hægt að meðhöndla eins og vera ber, vegna þess að það er ekki til stofnun, sem getur veitt þeim viðtöku. Það sýnist líka vera ástæðulaust að láta þetta fé, sem þegar er komið í gæzluvistarsjóð, vera lengur ónotað.

Ég sem sagt leyfi mér að mælast til þess við hæstv. forseta þessarar d. og hv. þm. þessarar d., að þeir bregðist nú vel við og afgreiði frv., geri það að lögum áður en þinginu lýkur. Mér dettur í hug, hvort hv. þm., með tilliti til þess allsherjar samkomulags, sem var í hv. Nd., gætu fallizt á að láta frv. ganga hér fram í gegnum d. án þess að það færi til nefndar.