17.12.1953
Efri deild: 39. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Páll Zóphóníasson:

Ég vil nú fyrst og fremst þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf gagnvart Kvíabryggju, og trúi því vel, að fyrir honum vaki ekki, að þangað fari sérstaklega menn, sem þurfa að fara þangað sem drykkjumenn. Þó mun það nú reynast svo, að oft fer það saman, að menn eiga að sendast þangað til þess að vinna af sér barnsmeðlög og þeir þurfi líka að komast burt frá vini til lækninga.

En ég fékk ekkert svar viðvíkjandi Úlfarsá. Ég veit vel, að það er lítið pláss þar, og hafa fáir menn verið þar. Það var ekki talað um þegar hún var stofnuð, að það mundi þurfa rúm nema fyrir svona 6–10 manns, og þegar hún var tekin og hælið var flutt frá Kumbaravogi og svo Kaldaðarnesi og svo áfram, — það er nú búið að flytja það hingað og þangað, — þá var talið, að hún væri fullnægjandi, og ég held það hafi komið til þingsins álitsgerð bæði landlæknis og Helga Tómassonar um það mál á sínum tíma. Nú er ég ekki alveg hreint viss um nema þá greini hér eitthvað á, þá lærðu menn, sumir þeirra haldi, að það þurfi alveg tvö sjálfstæð hæli, annað hæli, sem á séu þeir, sem þeir kalla ólæknandi drykkjusjúklinga, en á hinu séu þeir, sem þurfi að vera skemmri tíma og von sé um að hægt sé að koma aftur það á laggirnar, að þeir geti orðið starfandi þegnar í þjóðfélaginu, en ekki bara illgresi þar, sem ekkert gagn er í, nema síður sé. Og það er þá kannske meiningin að koma hælunum —tveimur í anda þeirra lækna, sem halda, að þau eigi að vera tvö. Svo munu aðrir halda, að það eigi bara að vera eitt hæli fyrir alla drykkjusjúklinga. Vafalaust ber þá að skoða þetta svo, og það vona ég að ráðherrann upplýsi, að fyrir ríkisstj. vaki nú að koma upp tveimur, nema þetta nýja hæli eigi bara að vera stækkun á Úlfarsá. Ég er yfirleitt ákaflega ófróður um þetta.

En ég vil nú fylgja þessu frv., og ber þar tvennt til. Annars vegar það, að ég hef meðaumkun með þessum drykkjumönnum og vil reyna að gera þá aftur að nýtum mönnum í þjóðfélaginu. Og svo í öðru lagi hitt, að þriggja ára reynsla er búin að sýna, að það þýðir ekki fyrir Alþ. að bjóða fram fé og ætla bæjarstjórninni í Reykjavík, eins og hún hefur verið skipuð, að sjá um framkvæmdina. Það er þýðingarlaust. Og það er fyrst og fremst það, sem gerir það að verkum, að ég fylgi frv. og vil þá heldur láta ríkið sjá nm það allt en ætla bænum að gera nokkurn hlut af því eins og hefur verið.