17.12.1953
Neðri deild: 40. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1373)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það hefur nú um nokkurt árabil verið unnið að því að koma hér upp rannsóknarstofnun á vegum Fiskifélags Íslands. Til þess að koma þessu áfram hefur Fiskifélagið notið nokkurs stuðnings af útflutningsgjaldi sjávarafurða, sem sé 1/3%.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur í sér það eitt, að til þessara framkvæmda renni áfram um fjögurra ára bil 1/8 hluti af útflutningsgjaldi sjávarafurða. Það er aðeins um að ræða framlengingu á þeim ákvæðum.

Það er þegar komið nokkuð áleiðis um að byggja þessa rannsóknarstöð og að því stefnt, þegar byggingunni er lokið, að þá verði búið að sameina þar á einn stað allar rannsóknir í þágu sjávarútvegsins. Hér er um ákaflega þýðingarmikið mál að ræða, svo mjög sem Íslendingar eiga undir því að geta aukið fjölbreytni í meðferð, nýtingu og verkun sjávarafurða sinna.

Sjútvn. leggur eindregið til, að þetta frv. verði samþ., og leggur á það áherzlu, að frv. verði afgreitt, áður en þingi verður nú frestað fyrir jólin.