18.02.1954
Efri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

137. mál, stjórn flugmála

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það skýtur nú ef til vill nokkuð skökku við, að ég skuli fara að tala um þetta frv., þar sem það er flutt að tilhlutan starfsbróður míns, hæstv. flugmrh. En ég vil þó benda hv. n. á, að það embættisheiti, sem hér er ráðgert að taka upp, flugmála- og flugvallastjóri er ákaflega ólipurt, bæði til lestrar og tungutaks. Þetta eru alveg samfelld störf. Það er skiljanlegt, að það sé talað um póst- og símamálastjóra sem, hefur á hendi alveg ólík störf, tvenns konar, stjórn pósts og síma, en stjórn flugmála og flugvalla er svo skylt, að ég trúi ekki öðru en hægt sé að finna eitthvert orð ósamsett, er nái yfir þá hugmynd. Ég vildi því beina því til hv. nefndar, sem málið fær til meðferðar, að hún reyndi að finna liprara orð yfir þetta embætti. Mér skilst að vísu, að vel væri við það unandi að kalla manninn áfram flugvallastjóra ríkisins, en ef svo er ekki, þá er a.m.k. lítil bót að bæta öðru heiti framan við og halda þó þessu.