09.03.1954
Efri deild: 59. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1429)

137. mál, stjórn flugmála

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er ekki stórmál. Það er flutt eftir beiðni flugvallastjóra ríkisins. Hann heldur því fram, að það heiti, sem nú er á embætti hans, gefi ekki rétta hugmynd um það starfssvið, sem hann á að starfa á, og hefur hann sérstaklega orðið var við þetta, þegar hann er erlendis. Með frv. þessu er lagt til, að í stað „flugvallastjóra ríkisins“ komi: flugmála- og flugvallastjóri. Þetta er dálítið langt nafn og sumir segja áferðarljótt heiti, en það er nú varla hægt hjá því að komast, ef orðið á að ná út yfir það starfssvið, sem þessi embættismaður hefur.

Eins og hv. þd. veit, þá voru upphaflega tveir menn, sem gegndu því starfi. sem flugvallastjóri ríkisins gerir nú. Það voru flugmálastjóri og flugvallastjóri. Síðan var þetta embætti sameinað undir einn mann af sparnaðarástæðum, og var það vitanlega vel og rétt gert að sameina það, enda þótt víða erlendis sé þessu embætti skipt, ekki aðeins milli tveggja, heldur milli fleiri manna, en þá er um meira að ræða heldur en hér á Íslandi, þessar tiltölulega fáu flugvélar. sem við höfum yfir að ráða. Em vegna þess að þetta voru áður tvö embætti, þá þykir ýmsum ekki heppilegt að breyta embættisheiti flugvallastjóra aðeins í flugmálastjóra, því að það grípur þá tæpast yfir allt það verksvið, sem honum er ætlað, á meðan mönnum er enn í fersku minni, að áður var hér sérstakur embættismaður með heiti flugvallastjóra, enda þótt annar maður hefði heitið flugmálastjóri. Ég hef rætt um þetta við flugvallastjóra, og það er hans ósk, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd. og eins og það hefur verið samþ. við tvær umr: í þessari hv. d., en að sjálfsögðu geri ég þetta ekki að neinu kappsmáli. Ég vil þó taka undir það, sem flugvallastjóri segir, að þáð geti verið dálítið varhugavert og skapað honum óþægindi, ef bæði orðin eru ekki höfð í embættisheitinu, a.m.k. að svo stöddu. Og það eru þó ein rök enn, sem ég hef ekki dregið fram og eru kannske veigamest, og það er, að það eru ýmsir starfsmenn á flugvöllunum, sem gjarnan vilja fá heitið flugvallarstjórar. Það eru t.d. menn, sem vilja gjarnan heita flugvallarstjóri Reykjavíkurflugvallar, flugvallarstjóri Keflavíkurflugvallar, flugvallarstjóri Sauðárkróksflugvallar, flugvallarstjóri Egilsstaðaflugvallar, flugvallarstjóri Akureyrarflugvallar. Þeir vilja fá þessi heiti og þá um leið hækkuð laun. Og flugvallastjóri ríkisins hefur tjáð mér, að hann ætti ef til vill erfiðara með að standa gegn þessum kröfum, et hann sjálfur bæri ekki sérstaklega þetta heiti.

Ég vil aðeins taka þetta fram, en án þess að leggja sérstaka áherzlu á það, og ég geri ráð fyrir því, að þó að hæstv. dómsmrh. hafi borið hér fram till. um að fella niður heitið flugvallastjóri, af því að það fer betur í málinu, að það sé aðeins talað um flugmálastjóra, þá leggi hann ekki heldur neitt sérstakt kapp á það, að sú brtt. verði samþ., a.m.k. ekki ef hann gæti sannfærzt um það, að hitt hjálpaði til að halda niðri auknum kröfum um laun og að það gæti auðveldað flugvallastjórastörfin að bera heitið flugvallastjóri og flugmálastjóri í stað þess að heita aðeins flugmálastjóri.