07.10.1953
Neðri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, inniheldur ákvæði um að framlengja söluskattinn fyrir árið 1954. Eins og kunnugt er, hefur hann verið framlengdur aðeins frá ári til árs. Fjárlagafrv., sem nú hefur verið lagt fram, ber það með sér, að það verður ekki hægt á næsta ári að komast hjá því að innheimta þennan skatt svo sem verið hefur, og er því þetta frv. eins konar fylgifiskur fjárlagafrv. Ég mun gera grein fyrir fjárhagsmálunum í heild, þegar fjárlagafrv. verður tekið hér til 1. umr. á mánudaginn, svo að ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í þau efni hér almennt, en óska eftir því, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn. að lokinni umræðunni.