16.11.1953
Efri deild: 21. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað þetta frv. og tillögurnar, sem hér liggja fyrir.

Í frv. sjálfu er talað um tvær jarðir, Eyvindará og Heiðarhús. Það eru hvort tveggja eyðijarðir sem liggja á Flateyjardalsheiði. Ég hef ekki getað fundið, hvernig Eyvindaráin er leigð. Sá maður, sem sér um leigu kirkjujarðasjóðsjarða, Friðgeir Björnsson, veit ekkert um það, — ekki heldur um Heiðarhús. En árið 1951 hafa verið borgaðar 50 kr. í leigu fyrir Heiðarhús, greiddar af hreppsstjóranum í Hálshreppi fyrir hönd hreppsins, að ríkisféhirðir heldur, svo að það lítur út fyrir, að Hálshreppur hafi Heiðarhús á leigu. En það er ekki um það neitt sjáanlegt, hvort þessar 50 kr. eru fyrir eitt ár eða mörg ár. Aðrir segja bóndann í Fagrabæ hafa Heiðarhús í 10 ára leigu og nota til upprekstrar. En ekki vita þeir í ráðuneytinu um það. Þessar jarðir eru báðar inniluktar í afrétt og eðlilegt og sjálfsagt, að hreppurinn eignist þær og fái þær. Öll n. er þess vegna sammála um að mæla með því.

Grísaráin var eign Davíðs sáluga Jónssonar á Kroppi, sem lagði hana undir Kropp og gerði eina jörð úr báðum. Þegar lögin um jarðakaupasjóð voru stofnuð, þá var hann hugsjónamaður, sem vildi taka sínar jarðir úr braski í framtíðinni og sjá, að þær hækkuðu ekki, heldur yrðu þeirra hlunninda aðnjótandi, sem þar væru gerð, án þess að í raun og veru þyrftu ábúendur að standa undir síhækkandi rentu á jörðunum, og seldi þess vegna báðar jarðirnar jarðakaupasjóði. Grísará er með sérstökum, ákveðnum landamörkum, og þegar hann seldi jarðakaupasjóði þessar jarðir eftir matsverði, þá voru engin hús á Grísará, ekki nein. Í landi Grísarár er ofur lítil velgja, og er hún vel fallin til garðræktar. Hún var byggð 1949 fyrir 323 kr. á ári til fimm ára, með því skilyrði þó, að á þeim tíma yrði byggt upp á jörðinni. Það hefur ekki verið gert enn. En Grísaráin er heldur lítil jörð til þess að reka á henni búskap eins og algengast er að búa hér á landi. Hins vegar er hún nægilega stór til þess að geta búið þar með sæmilegu kúabúi, svona tíu, tólf kúm, og mikilli garðrækt. Garðræktarskilyrði eru þar ágæt. Og bóndann, sem núna hefur hana á leigu, langar til þess að fá hana keypta og gera hana að ættaróðali fyrir sín börn. Hann hefur þá aðstöðu, að hann getur búið hvort heldur hann vill hjá venzlafólki sínu í Reykhúsum, eins og hann gerir núna, eða á Kroppi. Og það, sem ég hef lagt til í till. á þskj. 136, er það, að hann fái Grísará keypta eins og hún núna er að landamærum til, en ekki eins og hann hefur hana leigða, því að hann hefur leigt land frá Kroppi, sem Kroppurinn ekki missa, og hann er ásáttur um að fá bara Grísará eins og hún er með sínum landamörkum — eða var áður en hún var lögð undir Kropp — keypta og gera hana að ættaróðali og þá eðlilega á fasteignamatsverði. Nú vil ég taka það fram, að það hafa jarðir verið seldar eins og Grísará, sem ekki er til á sérstakt fasteignamat. Þá leiðir af því, að ríkisstjórnin verður að ákveða söluverðið og láta fara fram millimat, millifasteignamat. Það er óhjákvæmilegt að gera það. En hún er núna komin inn í Kroppsmatið, af því að það var búið að leggja hana undir þá jörð, þó að hún enn þá hafi sín ákveðnu landamerki eftir landamerkjabréfum, sem ekki hafa verið ógilt hvað það snertir, nema meðan sami eigandinn var að báðum jörðunum og notaði þær náttúrlega jafnhliða. Nefndin er sammála um að leggja til, að till. á þskj. 136 verði samþykkt og leyfð sala á Grísaránni.

Þá kemur önnur till., á þskj. 137, sem er eins og till. á þskj. 136 hvað Grísará snertir, en bætir við Syðri-Bægisá í Glæsibæjarhreppi. Þar býr nú prestsekkja, ekkja séra Theódórs, sem þar var prestur langa tíð. Henni hefur verið byggð jörðin til lífstíðar, þegar maður hennar lézt, fyrir kr. 144.55, og það er jörð, sem er miklu betri en Grísará og er sæmilega hýst. Það er nú kannske of skarpt að orði kveðið reyndar, að hún sé sæmilega hýst hvað útihús snertir, þau eru léleg, en íbúðarhús gott. Nú langar þessa prestsekkju til þess fyrst og fremst að tryggja sér að vera þarna, að mér skilst, og það er búið að tryggja henni það með því að leigja henni jörðina sína lífstíð á 144.55 kr. Það er leiga, sem hún mundi þurfa að borga á einum mánuði fyrir eina litla kompu hér í Reykjavík. Aðstæðurnar þarna eru þær, að það eru ekki líkur til þess, þó að þessi jörð væri seld sem ættaróðal, að neinn verði til að taka við því ættaróðali, þegar gamla konan fellur frá. Það eru uppkomnar dætur, sem ekki eru líkur til, eins og málið liggur fyrir nú, að muni eiga erfingja, sem taka við jörðinni, svo að það, þótt prestskonan vilji gera hana að ættaróðali fyrir ættina, er þýðingarlaust, eftir því sem ég bezt get séð. Hins vegar er búið að sjá þannig um ekkjuna hvað hennar samastað snertir með því að tryggja henni jörðina til lífstíðar fyrir þetta eftirgjald, að ég sé enga ástæðu til þess að vera að selja henni jörðina, því að fyrirsjáanlegt er, að hún með því mundi seljast aftur, að vísu þá til einhvers, sem tæki við jörðinni sem ættaróðali að nýju eftir hennar dag, en ég tel það alveg þýðingarlaust, og n. getur ekki lagt til, að þessi till. sé samþykkt.

Þá er till. frá hv. þm. Barð (GíslJ) á þskj. 157 um að heimila að selja Moshlíð í Barðastrandarsýslu ábúandanum þar. Þetta er allt saman hálfgert vandræðamál, hvernig á að fara með það. Moshlíðin er gömul hjáleiga frá Brjánslæk. Á sínum tíma, fyrir ekki löngu, var ákveðið að skipta Brjánslæk og gera þar nýbýli úr hálfum Brjánslæk. Það var farið vestur eftir, og landinu var skipt. Og þá var Moshlíðarlandi skipt úr, sem áður hafði átt sameiginlegt beitiland með Brjánslæk, svo að nú er Moshlíðarlandið út af fyrir sig og á ekki lengur sameiginlegt beitiland með Brjánslæk. En hins vegar er mér sagt, að byggingarbréf bóndans á Brjánslæk muni enn vera hjá skrifstofustjóranum í kirkjumálaráðuneytinu, Gústafi A. Jónassyni, og ekki búið að skrifa undir það. Sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu hefur byggt sumarbústað inni á eyðibýli, sem heitir Hella og liggur dálítið fyrir innan Brjánslæk inn með firðinum. Það er út af fyrir sig ágætt, að þar er komin byggð, því að stóri. gallinn á Brjánslæk hefur frá alda öðli verið sá, að þar hefur verið ákaflega flæðihætt, og skerin, sem mest hætta er á að flæði á, eru skerin undan Hellu, bæjarstæðinu þarna, og öðru bæjarstæði, sem Þverá heitir. Úr því kemur fram í ágústmánuð, þá kostar það bóndann á Brjánslæk alltaf fjóra tíma á hverri fjöru að fara með sjónum og reka frá, svo að fé ekki flæði. Þetta þurfti ekki á meðan þessi tvö eyðibýli voru byggð. Nú er mér sagt, að sýslumaðurinn í Barðastrandarsýslu óski ákveðið eftir því, að Hella, þar sem hans sumarbústaður stendur, verði aftur metin sér í fasteignamati, — hún hefur við síðustu möt fallið inn í Brjánslæk, — og hann fái hana til ábúðar og láti vera þar ráðsmann að staðaldri. Og í sambandi við það er mér líka sagt, að það sé talað um það, hvort eigi ekki að taka upp skiptingu á þessum löndum að nýju, þannig lagað, að Moshlíð fái meira land en hún nú hefur, sem er ákaflega lítið, og löndin skiptist einhvern veginn öðruvísi á milli þessara Brjánslækjarparta og Hella komi þá þar inn og fái þá sitt land. Hvað úr þessu verður öllu saman, veit ég ekki. En ég held nú, að það sé athugandi að minnsta kosti, hvort það eigi ekki að bíða með að ákveða nokkuð um sölu á Moshlíð, þangað til maður sér, hvað úr þessu verður. Ég ætla nú að hringja vestur til að vita, hvað Moshlíð er byggð fyrir. Hún hefur verið byggð upprunalega, að haldíð er, af séra Bjarna Símonarsyni sem hjáleiga frá staðnum, Brjánslæk, og það er líklega núna í vörzlum hreppsstjórans, Hákonar Kristóferssonar, sem ég hef nú ekki talað við, en hér ekki hægt að fá það upp á stjórnarráðsskrifstofunum, hvað Moshlíð er leigð fyrir sér. Ég hefði því haldið, að það væri heppilegra, án þess að ég fullyrði það, að það væri beðið með þetta, þangað til maður sæi, hvernig þessum Brjánslækjarmálum þarna lyktaði, og a.m.k. vildi ég fara fram á það við flm., að hann tæki till. aftur til 3. umr., ef hann ekki vill alveg taka hana aftur, svo að ég gæti þá athugað hana betur.

Niðurstaðan verður þess vegna sú, að við leggjum til, að ein brtt. verði samþykkt, — um þá brtt., sem var tekin alveg aftur, þarf ég ekki að tala, — það er brtt. á þskj. 136. N. mælist til, að brtt. á þskj. 157 verði tekin aftur til 3. umr. Og við leggjum til, að brtt. á þskj. 137 verði felld.