16.11.1953
Efri deild: 21. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég vil enn á ný benda hv. þm. Eyf. á það, að þegar nú prestsekkjan hefur jörðina til lífstíðarábúðar, þegar önnur systirin þar er gift manni, sem hann býst nú við að vilji búa þar, a.m.k. eftir hennar dag, að mér skildist á honum, þá ætti það að vera nokkur trygging, ef hún fengi að vera þar, meðan hún lifir. Ég sé ekki, að það sé neitt, sem bendir í þá átt, að það sé ástæða til þess að ætla, að þar komi ný ætt til sögunnar eða hennar ætt verði þar áframhaldandi á jörðinni með því að gera hana að ættaróðali.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Barð. skal ég nú ekki segja mikið, en einstaka atriði voru þó í ræðu hans, sem ég vil ekki láta alveg ómótmælt þegar á þessu stigi. Hann talaði að vísu um það, að hann mundi taka till. aftur til 3. umr., og ég er honum þakklátur fyrir það, því að það er ein hlið á málinu enn þá, sem ég þarf að athuga, áður en ég vil slá föstu um mína afstöðu til sölunnar á Moshlíðinni.

En það, sem hann sagði viðvíkjandi opinberri eign á jörðum, ættaróðulum fyrst og fremst, og eign einstakra manna, var það atriði, sem ég vildi gjarnan segja nokkur orð um. Ég vil þá fyrst benda honum á það, að jarðir og lóðir hækka í verði af mörgum ástæðum. Það var sú tíð hérna í Reykjavík 1931, að það var ákveðið að selja allar lóðir. Það var stefna meiri hlutans í bæjarstjórn Reykjavíkur þá, sjálfstæðismannanna, að selja þær, til þess að þeir, sem keyptu þær, gætu aftur selt þær hærra verði og grætt á því. En af því lóðarverði verða þeir, sem á lóðunum búa, að borga leigu, beint eða óbeint. Þess vegna er það til bölvunar fyrir þjóðfélagið í heild að skrúfa verð á opinberum fasteignum, opinberu landi, sem öll matvælaframleiðsla og allir menn þurfa á að halda sér til lífsnauðsynja, — að skrúfa það meira upp en eðlilegt er. En það skrúfast þær ævinlega við allar sölur. Nú dettur íhaldinu í Reykjavík ekki í hug að selja lóðir. Það hefur það vitkazt síðan 1931. Þegar verið var að selja Eimskipafélagslóðirnar hérna niðri á uppfyllingunni, var verið að rífast um það hérna niðri í gamla íþróttahúsinu, sem núna er búið að rifa, hérna skammt frá, og því var haldið fram af íhaldinu, að það væri alveg sjálfsagt að selja þær. Nú mundi ekki einn maður reyna að forsvara það, og ekki einu sinni þm. Barð. Nú er hann búinn að öðlast þann skilning. Menn vitkast með aldri og reynslu. En nákvæmlega sama gildir um jarðirnar.

Ég bý á jörð — einhverri jörð — mína lífstíð, látum það vera 20, 30, 40 ár, og geri jörðinni eitthvað til góða. Það er sama, hvort það er mikið eða lítið, jörðin batnar við það í verði. Það má segja, að þessi verðhækkun, sem verður á jörðinni fyrir þetta, sé mín eign, ég hafi lagt hana fram, en jafnframt áður hefur ríkið lagt veg um sveitina, það hefur lagt síma um sveitina, það hefur stutt að því, að það kæmist rafmagnsleiðsla um sveitina o.s.frv., og þetta allt saman verður til þess, að jörðin hækkar líka í verði. Að liða í sundur hvað hún hækkar í verði fyrir hvað eina, er ákaflega erfitt, en hún hækkar í verði fyrir þetta hvort tveggja og raunar líka margt fleira.

Kannske getum við bezt áttað okkur á því, hvað hún hækkar í verði, við það að líta á lóðir eins og t.d. lóðirnar, sem eru undir Hofsósi. Þær eru svolítill hluti af Hofi. Það var selt á 30 þús. kr. rétt fyrir 1920 og þótti hátt. Ríkið byggði þar bryggjur, sem hreppurinn hefur lagt á móti. Ríkið hefur lagt veg um sýsluna, sem liggur um Hofsós. Og núna, þegar ríkið keypti landið, svolitið brot af Hofslandinu, það sem er undir kaupstaðnum, þá gaf það fyrir það eitthvað hátt upp í 1 .millj. kr., ég veit ekki nákvæmlega hvað. Það. er verðhækkun, sem Hofsbóndinn hefur ekki átt nokkurn einasta þátt í að öðru leyti en það, að'.hann átti eignarrétt á landinu. Hann hefur ekki hreyft litla fingurinn til þess að láta þessa verðhækkun verða á þessu landi.

Nákvæmlega sama er t.d. núna að verða á Þórshöfn. Einstakur maður á þær lóðir allar saman. Það er ekki gert neitt til að láta þær hækka. Nú er kominn vegur þangað og í gegnum hana og áfram. Þar er verið að gera hafnargerð. Ríkið leggur í hana árlega. Og hvað skeður? Landið hækkar í verði og hækkar áframhaldandi í verði, og allir þeir, sem þurfa að búa þar, þegar búið er að selja lóðirnar næst, þurfa að borga meira, þeir þurfa að leggja meira á sína vinnu, þeir þurfa hærra kaup, þeir þurfa að selja sína vöru hærra, af því að þeir þurfa að standa undir meiri útgjöldum, sem væri hægt að losa þá alveg við með því að láta landið eiga það og verðið ekki hækka vegna þess arna.

Þess vegna er það, að ég mun aldrei verða með því a.m.k., hvað sem n. gerir, að selja hvorki Moshlíð né aðrar jarðir án þess að gera þær að ættaróðali. Það mun ég aldrei verða. En ég skal hvenær sem vera skal vera með því að selja jarðir og gera þær að ættaróðali. Það er alveg sama, hvort menn erfa ábúð á jörðunum hjá ríkinu eða erfa ættaróðul. Það er alveg sama, því að þegar ættaskipti verða á jörðunum, þá er það metið, sem ættin hefur gert á, jörðinni, og það borgað. Þá fyrst og fyrr ekki hækkar leigan, og í framtíðinni þarf að standa undir hærri útgjöldum og fá hærra verð fyrir afurðirnar, sem framleiddar eru á henni, þá fyrst, en fyrr ekki. Og það getur verið lengi, sem það er. Þetta sjá nú allir og skilja. Að þessu er nú unnið, t.d. í Þýzkalandi alveg ákveðið og markvisst og víðar í heiminum, og yfirleitt eru menn farnir að skilja þetta. Það eru ekki nema einstaka menn, sem enn þá eru þannig gerðir, að þeir vilja fá að eiga fasteignina, hvort sem það er lóð eða jörð, til að vera vissir um að geta selt hana og fengið í sinn vasa það, sem ríkið kann að hafa gert til þess að láta lóðina eða jörðina hækka, en ekki láta heildina njóta neins með því að geta búið hægara og öruggara að öllu í framtíðinni með því að láta verðið ekki hækka.

Þess vegna þýðir ekkert hvað mig snertir að fresta málinu í von um það, að ég verði nokkurn tíma með því að selja þessa jörð án þess að gera hana að ættaróðali. En það getur vel verið, að ég geti verið með því að selja hana, ef hún er gerð að ættaróðali. (Dómsmrh.: Hvar er Moshlíð?) Það er gömul hjáleiga frá Brjánslæk, liggur rétt hjá Brjánslæk. (Dómsmrh: Eru horfur á kaupstað þar?) Nei, en mín afstaða stendur í sambandi við það, hvað jarðirnar eru orðnar hærri en þær voru. Þær hækka, þótt hægara sé en lóðirnar.

Ég held ekki, að ég kæri mig um að segja meira um málið, en mér þykir vænt um það, að till. er tekin aftur til 3. umr., því að það eru viss atriði í henni, sem ég vil athuga, áður en ég tek afstöðu um, hvort ég er með því að selja jörðina eða ekki.

Það er náttúrlega með jarðir eins og Moshlíð, þar sem búið er að skipta núna öllu landi út, mjög litlu landi, að þær jarðir, sem þannig eru settar og eiga að byggjast eingöngu á sauðfjárrækt, eru í hálfgerðu hallæri. sérstaklega þegar þær eru eins og á Barðaströndinni, þar sem eiginlega enginn upprekstur er til, sem hreppsfélagið á, heldur er það litið, sem hægt er að reka á, upprekstur einstakra manna, sem þá verða að leyfa hann. En það skal ég athuga betur seinna, og skal ég ekki fara frekar út í það núna.