11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Til landbn. hefur verið vísað tveim frv. um sölu jarða í opinberri eigu. Annað frv. er flutt hér í hv. d., það er 66. mál þingsins, en hitt er komið frá hv. Ed. og er 78. mál þingsins. Auk þessara frv. hefur n. haft til athugunar brtt. á þskj. 358 við frv. það, sem komið er frá hv. Ed. Sömuleiðis hafa n. borizt erindi um kaup jarða, svo sem nánar er tilgreint í nál. á þskj. 447, og hefur hún einnig tekið þessi erindi til athugunar, þó að þau hafi ekki verið flutt í þinginu.

Um þessi mál hefur n. leitað umsagnar þeirra aðila, sem venjulegt er að spyrja um álit í slíkum málum sem þessum. Fengin hefur verið umsögn hjá hlutaðeigandi ráðuneyti, og fengnar hafa verið umsagnir frá landnámsstjóra, og sum þessara mála hafa verið borin undir biskupinn. Um sum þessara mála hafa n. einnig borizt sérstök erindi frá hlutaðeigandi aðilum, bæði skrifleg og munnleg.

Eftir að n. nú hafði athugað þessar umsagnir, sem ég hef áður nefnt, og önnur gögn, sem hún hafði í höndum, þá varð það niðurstaðan, að hún leggur til, að frv., sem komið er frá hv. Ed., verði afgreitt með þeirri breytingu, sem felst í till. n. á þskj. 448. Verði sú brtt. samþ., er um að ræða sölu þriggja jarða, en þær eru Grísará í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu, Betanía (Kot) í Mosvallahreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu og Mosvellir í sama hreppi í sömu sýslu.

Um aðrar jarðir, sem lagt hefur verið til að seldar yrðu, er það að segja, að n. treystist ekki til þess að svo stöddu að mæla með sölu þeirra. Vil ég í því sambandi fyrir hönd n. vitna til þeirra umsagna, sem ég hef áður nefnt. Það er um þær jarðir allar að segja, að ágreiningur er meiri eða minni um sölu þeirra milli þeirra, sem hér eiga hlut að máli, en hins vegar má segja, að sala þeirra þriggja jarða, sem nefndin leggur til að seldar verði, sé nokkurn veginn ágreiningslaus.

Þó að n. leggi ekki til að sinni, að seldar verði nema þessar þrjár jarðir, þá má vel vera, að síðar kynnu að koma fram gögn varðandi einhverjar af hinum, sem hefðu þau áhrif, að niður félli ágreiningur um sölu þeirra. En eins og sakir standa, þá hefur n. talið rétt að taka þá afstöðu sem ég nú hef lýst.

Varðandi það frv. sérstaklega, sem flutt var hér í hv. d., 66. mál, þá sér n. ekki ástæðu til þess að afgreiða það, að fengnum upplýsingum um, að ekki muni gerast þörf lagasetningar um sölu þeirrar jarðar, en það er framkvæmdaratriði hjá rn., hvort sú jörð verður seld eða ekki.

Hv. 3. landsk. skrifar undir nál. með fyrirvara.