11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég var ekki á fundi, þegar n. gekk frá þessu máli, en skrifaði undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari mína er þess efnis, að ég er yfirleitt andvígur því, að ríkis- og kirkjujarðir séu seldar einstaklingum, nema einhverjar knýjandi ástæður liggi til. Ég tel þann stóra ókost fylgja einstaklingseign á jörðum, að vandkvæðið af því að greiða andvirði jarðarinnar fylgir þá hverri kynslóð, ungur maður þarf sífellt að greiða út andvirði jarðarinnar, stendur oft í skuldabasli út af því, langt fram eftir sínum búskaparárum, og svo þegar hann hefur kannske komizt úr skuldafjötrunum, þá eiga hans börn, eitthvert þeirra eða fleiri, eða vandalausir að taka við að nýju og brjótast um í sama skuldafeninu, alltaf hafin ný barátta um sömu erfiðleikana.. Fram hjá þessum, vandkvæðum er hægt að komast með einu móti og aðeins einu móti, með því að ríkið eigi jarðirnar og láti þá, sem jarðarafnotin hafa, — og það er í raun og veru jafngildi eignarréttarins, — hafa jarðirnar með eins vægu afgjaldi og hugsazt getur, og þá geta jarðirnar rentað sig með mjög lágu jarðarafgjaldi. Hitt er svo annað mál, að það þyrfti að búa betur að því, að ríkið tæki þátt í að byggja þær jarðir sæmilega.

Ég hef ekki fengið vitneskju um það, að nein knýjandi nauðsyn lægi fyrir að selja einstaklingi kirkjujörðina Mosvelli í Mosvallahreppi í Önundarfirði eða jörðina Kot í sama hreppi. Ég held, að það væri ábúendunum affarasælast, það hvíli á þeim minni byrði með því jarðarafgjaldi, sem þeir nú þurfa að borga árlega til ríkisins, heldur en með því að taka á sig að þurfa að ávaxta kaupverð, með því, sem svo fylgir þar af fyrir þá, sem síðar verða að kaupa slíkar jarðir af. þessum einstaklingum. Kirkjujörðin Selárdalur í Suðureyrarhreppi er eyðijörð, og held ég, að hún sé langbezt komin í eigu ríkisins, en ekki í eign einstaklinga, þannig að hún fari að ganga kaupum og sölum til einstaklinga.