11.12.1953
Neðri deild: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að þeir menn, sem vilja berjast fyrir því að fá lán til landbúnaðarins, eins bráðnauðsynlegt og það er, verði af fullri alvöru að horfast í augu við, hvaða vald það er, sem verður að berjast við í þessu sambandi. Það er alveg rétt, eins og frsm. gat um, hv. 2. þm. Skagf., að það hafa komið fram margar till., bæði á síðasta þingi og þessu þingi, um lán til landbúnaðarins, og hafa yfirleitt allar haft við rök að styðjast. Og ég heyri það alveg á honum; að hann er farinn að örvænta um, að það verði mögulegt að fá í gegn við ríkisstj. nokkuð meira en það, sem felst í þessu frv. Ég verð að segja, að mér finnst það ákaflega lítið og það vera ákaflega hart, ekki sízt með tilliti til þess, að ég býst við, að þeir flokkar, sem eiga hvað mest fylgi á meðal bænda, telji sig standa að þessari ríkisstj., — mér finnst þa$ ákaflega hart, ef hv. landbn. treystir sér ekki til þess að knýja ríkisstj. til meiri fjárframlaga í þessu sambandi heldur en hérna er farið fram á.

Það var ekkert smáræði, sem var látið og knúið í gegn við síðustu kosningar, og við munum allir saman, hvernig það gerðist. Það gerðist með því móti, að eftir að einn þm. Sósfl., Ásmundur Sigurðsson, var búinn að flytja frv. um allmikil framlög til Búnaðarbankans, og við sósíalistar síðan fluttum við meðferð fjárlaganna aftur slíkar till. og Framsfl. felldi þær þá, en hins vegar fluttu þingmenn Framsfl. í Ed. tillögur um allmikil fjárframlög til Búnaðarbankans, auðsjáanlega í því skyni, að þær færu ekki í gegn, — þá þorði Framsfl. ekki annað, af því að kosningar voru í nánd, en að setja þær till. í gegn í þinginu að lokum, eins og hæstv. núverandi forsrh. upplýsti í útvarpsumræðunum fyrir kosningarnar. En nú mun nokkuð langt að biða kosninga, og nú heldur auðsjáanlega hæstv. fjmrh. fastar í peningana, og þeir, sem með bankana hafa að gera, eru tregari til þess að láta nokkuð undan.

En ég vil minna hv. þd. á, að það er Alþingis að ákveða, hvaða lán eru veitt. Þessi stofnun, Alþingi, hefur enga afsökun í þessum efnum. Það er hún, sem hefur valdið til þess að segja bankastofnunum landsins fyrir um, hvað á að lána, og það er þeirra að hlýða. Allar þær bankastofnanir, sem hér eru, eru búnar til með lögum frá þessari stofnun. Þær starfa samkv. lögum frá þessari stofnun, og þegar Alþ. setur þeim lög, þá geta þær ekkert annað en hlýtt þeim, því að þær eru til í krafti Alþingis og einskis annars. Við erum ekki að eiga hér við neinar stofnanir, sem eru einhverjar voldugar fjármálastofnanir einstakra ríkra manna. Við erum bara að tala við stofnanir, sem eru okkar eign, sem eru eign ríkisins, eign Alþingis, eign þjóðarinnar, búnar til af Alþ. og þjóðinni og undir þeirra yfirráðum. Og það er okkar að segja þeim fyrir um, hvernig þetta eigi að vera. — Þetta höfum við gert áður. Við höfum áður hér tekið ákvarðanir í þessu efni, þegar við vorum hér á árunum að setja í gegn bæði ræktunarsjóðinn og nýbýlasjóðinn og annað slíkt, — það var oft maldað í móinn, — svo ég tali ekki um, þegar við vorum að setja í gegn stofnlánadeild sjávarútvegsins. Það hefur Svo sem verið maldað í móinn af þessum peningastofnunum. Það hefur verið mótmælt, og það hefur verið beitt áhrifum þeirra hér inni á Alþingi. En ef Alþ. er nægilega ákveðið í þessum málum, þá er það það, sem ræður. Þess vegna er það auðséð einmitt af ræðu hv. frsm., hv. 2. þm. Skagf., að það stendur á ríkisstj. að vilja nota það vald, sem hún hefur í þessum efnum.

Viðvíkjandi peningum, þá eru nógir til, og það er engin afsökun til viðvíkjandi því. Mér er ósköp vel kunnugt um það, að t.d. Landsbankinn á nú um 200 millj. kr. í skuldlausum eignum, mestmegnis í sjóðum. Það er næstum því eins mikið og hans seðlaútgáfa. Og það er enginn smáræðis auður, þannig að það er ekkert spursmál um það, að peningarnir eru til til þess að veita þessi lán. Mér er líka kunnugt um það, að t.d. gróði Landsbankans eins, svo að ég tali ekki um hina bankanat, er milli 30 og 40 millj. kr. á hverju ári. Það þarf enginn að segja manni, að það sé ekki hægt að veita meira af lánum út til atvinnuveganna heldur en gert er. Það er engin spurning um það. Það er bara spurning um, með hvað mikilli festu þeir menn, sem ráða hér á Alþ., sækja sín mál. Ég veit ósköp vel, að það þarf enga smáræðis festu til. Mér er ósköp vel kunnugt um það frá þeim tímum, sem við tókum þátt í ríkisstj., sósíalistar, hvað það kostar að fást við peningastofnanir landsins. Það tók heilt ár að knýja í gegn einar einustu 100 millj. kr. til þess að stofna stofnlánadeild sjávarútvegsins og kaupa alla þá togara, sem nú standa undir atvinnulífi landsins. Það tók heilt ár, og meira að segja hálf ríkisstj. var hrædd við þetta, meira að segja meiri hl. ríkisstjórnarinnar. Við urðum að flytja frumvarpið um það eftir beiðni eins ráðh. af hálfu fjhn. Ég veit ósköp vel, að það þarf átök til þess að koma þessum hlutum í gegn. En mér finnst hv. landbn. sætta sig við fulllítið í þessum efnum.

Ég skal undirstrika það við ræðu hv. 2. þm. Skagf., frsm. þessa máls, að það er sannarlega fram á lítið farið. En mér finnst nú, að landbn. ætti að athuga það alvarlega, hvort hún ætti ekki að hækka þetta, og ég vildi hér við 1. umr. málsins láta það koma fram. Ég trúi varla öðru en að ef hv. landbn. fer fram á meira, þá verði það samþ. hér. 800 þús. kr. á ári til þessa, það eru ekki stórir peningar nú, og það er ekki mikið gagn að þeim, þegar á að fara að lána mönnum þetta til að kaupa jarðir. Það stendur í 2. gr., að það megi engum lána meira heldur en 35 þús. kr. Hvað eru. 35 þús. krónur? Ja, fá menn eitt herbergi í Reykjavík fyrir 35 þús. kr.? Það held ég ekki. Ég held menn fái ekki eitt herbergi í Reykjavík fyrir 35 þús. kr. í dag. Menn fá kannske hálft herbergi í Reykjavík, sæmilega stórt, fyrir 35 þús. kr. Mér finnst það ákaflega lítið að ætla það til þess að reyna að gera þeim, sem hafa áhuga á að byggja áfram sveitirnar, mögulegt að gera slíkt.

Ég held þess vegna, um leið og ég auðvitað lýsi mig samþykkan þessu frv. út af fyrir sig, að landbn. ætti alvarlega að athuga það, hvort hún treystir sér ekki til þess að fara þarna hærra. Og ég vil minna á eitt í þessu sambandi. Ég vil minna á það, að hæstv. núverandi ríkisstj. er raunverulega með eitt einasta „prógram“ í sambandi við atvinnumál, og það er að koma raforku sérstaklega út í sveitirnar. Ég býst ekki við, að það eigi að verja minna til þess en a.m.k. 6 millj. kr. sem hreinum gjöfum árlega frá Alþingi, bara í línurnar, sem á að leggja, og verði samt ekki nema nokkur hundruð bænda, sem njóta þess eftir kjörtímabilið. Ég geng út frá, að það sé reiknað með, að það, sem ríkið aðeins leggur fram sem sitt framlag til stauranna og línanna, séu 4–5 þús. kr. á hvert býli. Og ef nú ríkisstj. álítur, að það sé eðlilegt að gefa 45 þús. kr. til hvers býlis til þess að koma rafmagni á það, þá er það nú anzi hart, ef ekki er hægt að láta þá fá að láni heldur meira fé til þess að gera þeim mögulegt að byggja býli, að starfrækja það. Ég er hræddur um, að það verði skakkt hlutfall á milli þeirra stóru fyrirætlana í raforkumálunum og þeirra lánveitinga, sem þurfi að gera nú á næstunni, ef ekki er þarna tekið heldur dýpra í árinni. Ég álít þess vegna, að það væri ákaflega heppilegt, ef hv. landbn. vildi reyna að hækka ofur lítið takmarkið 800 þús. kr. og hækka ofur lítið í 2. gr. 35 þús. krónurnar. Hins vegar var það ekki mín ætlun að neinu leyti að tefja fyrir þessu máll, en þessu vildi ég aðeins skjóta fram við þessa umr.