14.12.1953
Neðri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er síður en svo, að ég hafi nokkurn hlut á móti till. hv. 2. þm. Reykv., en við nánari athugun efast ég um, að þær séu til mikilla bóta frá því frv., sem hér um ræðir, vegna þess að eingöngu er um að ræða bráðabirgðaákvæði, á meðan veðdeild Búnaðarbankans er ekki séð fyrir nægjanlegu fjármagni á öruggari hátt.

Það er vitanlega ávallt gagnslaust að samþ. lög hér á Alþingi, sem síðan er enginn vegur að framkvæma, og ég sé ekki betur, þó að þetta frv. sé samþykkt, en leiðin til þess að útvega veðdeild Búnaðarbankans aukið fé sé opin jafnt eftir sem áður. Þetta er eingöngu lágmarkskrafa frá landbn. Það er lágmarkskrafa að fá 800 þús. kr. á ári til veðdeildarinnar og að því fé, sem á þann hátt fæst, verði varið á þann hátt, sem um er getið í frv., og svo það, að ekkert lán megi vera hærra en 35 þús. kr., en það fyrirbyggir það ekki, ef hægt er að útvega veðdeild Búnaðarbankans meira fé, að það megi lána 100 þús. kr. eða meira. Þess vegna finnst mér, að till. landbn., sem hér liggja fyrir, sé vel hægt að samþ., því að þær fyrirbyggja það alls ekki. að hægt sé að útvega landbúnaðinum meira fé en hér er gert ráð fyrir. Leiðin, eins og ég gat um áðan, er opin jafnt eftir sem áður, og ég efast ekki um, að þeir menn, sem fjalla um þessi mál, bæði ríkisstj. og bankaráð Búnaðarbankans, hafa ávallt opin augun fyrir því, ef einhvers staðar er hægt að ná í aukið fjármagn til veðdeildarinnar.

Okkur mun það öllum kunnugt, að hinar einstöku deildir Búnaðarbankans, byggingarsjóður og ræktunarsjóður, fá að mestu leyti fé sitt frá erlendum bönkum sem lán úr mótvirðissjóði. En ég hygg, að það sé þannig með mótvirðissjóð, að það megi ekki taka fé úr honum til veðdeildarinnar, vegna þess að það á að nota það fjármagn eingöngu til framkvæmda eða umbóta á jörðum. En það er ekki beint hægt að segja, að það fé, sem veðdeildin hefur, megi nota til framkvæmda, en aftur á móti til annarra hluta, þ.e.a.s. til jarðarkaupa eða til þess, að menn geti á einn eða annan hátt komizt yfir jarðnæði. Í þessu frv. eru reistar skorður við því, að það sé hægt að nota veðdeildarlánin til framkvæmda, vegna þess að meðan deildin hefur ekki yfir meira fé að ráða en hefur sýnt sig á undanförnum árum, þykir það ekki eðlilegt. En ég vil benda hv. þd. á það, að þetta frv. brýíur ekki á nokkurn hátt í bága við, að það sé hægt, ef fjármagn fæst, að útvega veðdeild Búnaðarbankans það og að þá geti bændur fengið hærri lán en um getur í þessu frv.