11.03.1954
Efri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er mjög sammála því, að það er þörf á að útvega fé í því skyni, sem hér um ræðir, og sú athugasemd, sem ég vil hér bera fram, á þess vegna ekkert skylt við það, að ég dragi úr því, að nauðsyn sé á ráðstöfunum í þessu skyni. En mér finnst eitt veigamikið atriði í þessu máli vera óupplýst, og það er: Af hverju þarf að leita út fyrir Búnaðarbankann til fjáröflunar í þessu skyni, og eru aðrar peningastofnanir í landinu betur fjármagni búnar til þess að standa undir hæfilegri fyrirgreiðslu í þessum efnum heldur en Búnaðarbankinn sjálfur? Það er vitað mál, að Búnaðarbankinn hefur ekki aðeins þá sjóði undir höndum, sem á að verja til langra útlána, þ. á m. þá veðdeild, sem hér á að greiða fyrir að geti starfað, heldur rekur hann einnig sparisjóðsdeild, sem er verulegur þáttur í starfsemi bankans og er einnig verulegur móttakandi alls sparifjár landsmanna. Reikningar sýna, að spariféð stendur svo staðfastlega inni hjá bankanum, að engin hætta er á því, að það sé skyndilega tekið út frekar hjá honum heldur en hjá Landsbankanum eða jafnvel tryggingastofnunum, sem hér er vitnað til, almannatryggingastofnun eða brunabótafélagi eða öðrum slíkum, sem hér geta komið til mála. Ég hafði hugboð um það, og sé það við mjög skjóta athugun á skýrslum Landsbankans fyrir 1952, sem nýlega var útbýtt til okkar hér á Alþingi, að sparifé Búnaðarbankans hefur á árunum 1948–52 aukizt hlutfallslega meira en hvort heldur Landsbankans eða Útvegsbankans. Jafnframt sést af þessari skýrslu, að útlán Búnaðarbankans eru tiltölulega minni en annarra banka, sem er eðlilegt, vegna þess að bæði Landsbankinn og Útvegsbankinn eru lánveitendur til atvinnuveganna og verja sínum sparisjóðsinnstæðum til þess að lána í rekstur landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar og verzlunar. Sannleikurinn er sá, að Búnaðarbankinn annast ekki hliðstætt verkefni með sinni sparisjóðsdeild til þess að leysa úr rekstrarfjárþörf landbúnaðarins. Og það er sannast sagt mjög mikill grunur á því, að hans fé sé varið til ýmissa miður nauðsynlegra hluta, sem gefa betri arð, heldur en til slíkra verðbréfakaupa, sem hér nm ræðir. Ég vil ekki vera með neinar getsakir í þessu efni, og skal þess vegna ekki rekja það mál frekar, en ég tel, að það sé með öllu óverjandi að samþ. þetta frv. fyrr en fyllri skýrsla liggur fyrir um það, í hvað sparifé Búnaðarbankans er varið. Hvernig er því mikla fjármagni, sem þar er lagt inn, ráðstafað, til hvaða þarfa gengur það? Er ekki aukning þess á seinni árum svo mikil, að það væri algert smáræði fyrir bankann að taka að sér þetta, ef vilji er fyrir höndum?

Ég þykist vita, að n. hafi ekki íhugað þetta til hlítar, og ég vildi þess vegna stinga upp á því, að þessu máli verði frestað og sú hlið málsins, sem ég hér hreyfi, verði athuguð nánar og skýrslur lagðar fyrir menn, annaðhvort þingnefnd eða deildina, um þetta, þannig að hægt sé að ræða um það á grundvelli staðreynda, en ekki getsaka, meira og minna út í bláinn. En það er vitað mál, að ef Landsbankinn á að verja fé í þessu skyni, þá getur hann ekki tekið það, að því er mér skilst, af öðru en því sparifé, sem menn hafa lagt inn hjá honum. Kvaðirnar á Landsbankanum eru hins vegar svo miklar, sparifjáraukningin tiltölulega lítil, kvaðirnar á sparifjárdeild Búnaðarbankans tiltölulega litlar, en aukningin hins vegar svo mikil, að mér virðist, meðan önnur gögn liggja ekki fyrir hendi, að af öllum peningastofnunum hér á landi hljóti Búnaðarbankinn sjálfur, þ.e.a.s. hans sparisjóðsdeild, að vera sá aðili, sem sé hæfastur og sterkastur til þess að fullnægja þessari skyldu.