11.03.1954
Efri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta er nú 2. umr. um málið, svo að það ætti að vera ósköp auðvelt fyrir dómsmrh. að fá upplýsingar við 3. umr., og ætti ekki þess vegna að fresta umræðu nú. Ég skal reyna að láta þær liggja fyrir við 3. umr.

Ég skal þá ekki snúa mér að dómsmrh. fyrst, heldur að hv. síðasta ræðumanni, 4. þm. Reykv. Það eru náttúrlega allir sammála um, að þörf fyrir fasteignaveðslán er nú ákaflega mikil og þörf brýn fyrir miklu fleiri menn en þá, sem þetta frv. kemur til með að fullnægja, sem er ákaflega takmarkaður hringur. Hins vegar verð ég að segja það frá mínum bæjardyrum séð, að ég tel gróflega mikinn mun á því, hvort einhver maður, húseigandi hér í Reykjavík t.d., sem á óveðsett hús, getur fengið fasteignaveðslán út á húsið sitt til þess t.d. að setja upp verzlun eða bara til þess að setja í eitthvað, t.d. fyrirtæki, eða hvort maður, sem er að hrekjast af jörð, af því að hann fær ekki umráðarétt yfir henni, geti fengið aðstöðu til að sitja þar kyrr og haldið áfram að framleiða í landinu. Þess vegna er allt annað frá mínu sjónarmiði séð, hvort maður samþykkir þetta frv. með þessum takmörkuðu möguleikum, sem það gefur, þessum þrönga hóp manna, sem annars verður að yfirgefa jarðir sínar og hætta búskap, ef hann getur ekki fengið lán, eða hvort maður færir það út yfir alla fasteignalánastarfsemi í landinu, eins og hv. 4. þm. Reykv. vildi láta gera með því og taldi þurfa, og það náttúrlega þarf. Það vita allir, að veðdeild Landsbankans er lokuð og hefur ekkert lánað nema bréf með miklum afföllum, sem ómögulegt er að koma í verð. Ég skal ekki fara meira út í það, en ég geri mikinn mismun á þessu.

Dómsmálaráðherra vil ég benda á það, að þetta er 2. umræða um málið og milli umræðna ætti að vera auðleyst að útvega honum þær upplýsingar, sem hann óskar eftir, og ég skal reyna að sjá um það. Ég veit reyndar ekki, hvað það er mikið, sem hann vill fá. Það er hægt að segja honum það strax, að veðdeild Búnaðarbankans skuldar núna sparisjóðsdeildinni mikið á þriðju millj. kr., af því að það hefur verið reynt að píra í menn, sem hafa verið í nauð og hafa verið að fara frá jörðum, sem fara þá í eyði. Það er hægt að segja honum líka núna strax, að sparisjóðsdeildin skuldar bæði ræktunarsjóði og byggingarsjóði. Allir þeir peningar, sem hann lofaði frá Ameríku, hafa ekki komið fyrr en eftir dúk og disk, og þó að þeir komi, þá hrökkva þeir ekki til að borga það, sem búið er að lofa af lánum. Þetta er hægt að segja honum allt núna strax. Hvernig sparisjóðsféð annars skiptist í útlánum, hvað er í hlaupareikningi og hvað er mikið í lánum eða hvað er hjá kaupmönnum og hvað er hjá verzlunarmönnum og hvað það er hjá bændum o.s.frv., það veit ég ekki, og ég veit ekki einu sinni, hvort það er hægt að fá nokkurt yfirlit yfir það í skyndi, en ég skal athuga, ef hæstv. ráðh. vill, hvernig það skiptist, ef það er eitthvert skilyrði frá hans hálfu fyrir að fylgja frv. Ég efast um, að það sé hægt. En svo vil ég benda honum á það, að þessu frv. er ekki beint stefnt að Landsbankanum. Hann hefur ekki lesið 1. gr. (Dómsmrh.: Ég hef lesið hana.) Nú jæja, það stendur „við Landsbanka Íslands og aðrar peningastofnanir“, og ein af þeim öðrum peningastofnunum, sem um er að ræða, er Búnaðarbankinn. Það er eftir samningum við Landsbankann og aðrar peningastofnanir eða á annan hátt, og þá eru m.a. þessar þrjár stofnanir, sem ríkið á, Brunabótafélag, Söfnunarsjóðurinn, sem ekkert gerir nú annað en kaupa veðdeildarbréf, og tryggingarnar. Ég held þess vegna, að það sé ákaflega hættulítið fyrir hæstv. ráðh. að leyfa frv. að ganga til 3. umr. og sjá, hvort ekki er hægt að útvega honum upplýsingar á milli umræðnanna, og forsetinn tekur það þá ekki aftur á dagskrá fyrr en ég og dómsmrh. erum sammála um, að hann geti nú fengið þær upplýsingar, sem honum eru nægilegar. Hann getur látið það liggja á milli umr. á meðan. Þá held ég, að það sé óhætt að hleypa því til 3. umr., og vildi nú vonast til þess, að ráðh. gerði það, því að það er ekki þörf á að draga það þess vegna lengur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta. Það er alveg rétt, sem hér var sagt áðan af síðasta hv. ræðumanni, 4. þm. Reykv., að þetta frv. leysir ekki þörf nema ofur lítils hóps af þeim mönnum, sem þurfa að fá fasteignaveðslán árlega. En það leysir þann hópinn, sem verður að kippa að sér höndum og hætta við að framleiða og reyna að fara yfir í atvinnu hjá öðrum mönnum, ef ekki er hægt að leysa þeirra vanda. Það eru þeir fjórir flokkar, sem taldir eru upp í 2. gr. Þess vegna er þessi hópur þeirra, sem þurfa að fá lán út á fasteignir, tekinn út úr, en ekki af neinu öðru.