11.03.1954
Efri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég er ekki neitt sérstaklega riðinn við þetta mál, hef ekki flutt það og á ekki sæti í þeirri nefnd, sem hefur fjallað um það. Þess vegna þarf ég ekki að svara fyrir frv. En það var þó út af orðum hæstv. dómsmrh., sem ég kvaddi mér hljóðs. Hann spurðist fyrir um það, hvers vegna farið væri út fyrir Búnaðarbankann, þegar talað væri um tekjuöflun til að fullnægja ákvæðum þessa frv., og taldi siðan nokkrar ástæður til þess, að Búnaðarbankinn ætti að vera einfær um að sjá fyrir þessu. Hv. frsm. n. hefur nú nýskeð svarað þessu að nokkru, en ég vil þó bæta því við, að mér finnst það ekki undarlegt, þó að bæði í þessu efni og sumum öðrum sé sérstaklega vísað til Landsbankans, og þá skil ég það svo, að það sé sérstaklega vísað til seðladeildar hans. Seðlar Landsbankans eru gefnir út á ábyrgð þjóðarheildarinnar, en Landsbankinn fer með þá og nýtur tekna af þeim, að svo miklu leyti sem þeir eru í umferð, og hann hefur einkarétt, eins og allir vita, á seðlaútgáfu. Það eru svo mikil hlunnindi fram yfir aðra banka landsins, að það út af fyrir sig finnst mér réttlæta það, að gert er jafnvel ráð fyrir, að Landsbankinn veiti öðrum bönkum lán eða kaupi af þeim verðbréf, og mun það vera í samræmi við það, sem gert er í öllum löndum. Ég hygg, að alls staðar sé það svo, að þjóðbankarnir, seðlabankarnir, láni öðrum bönkum fé.

Ég er ekki miklu kunnugri hag og rekstri Búnaðarbankans en aðrir þingmenn hér, þó að ég fáist við rekstur lítillar greinar af honum. En eins og hv. frsm. n. benti á, þá er sparifé Búnaðarbankans þegar bundið töluvert mikið í lánum til ræktunarsjóðs og til byggingarsjóðs, sem lögum samkv. á þó að sjá fyrir fé á annan hátt, en það er vitanlega svo, að sparité er ekki vel til þess fallið að verja því að neinu verulegu leyti í kaup verðbréfa, sem greiðast eftir langan tíma. Það veit enginn, hvenær að því kemur, að spariféð er heimtað aftur. Aftur á móti er það fé, sem seðladeild Landsbankans hefur, fastur stofn, sem hún á ekki á hættu að þurfi að skila aftur hvenær sem er. Sama er í raun og veru að segja um tvær aðrar stofnanir, sem hér er bent á í 1. gr., Tryggingastofnun ríkisins og Brunabótafélag Íslands. Vitanlega hafa þessar stofnanir útgjöld á hverju ári, en þó ekki eins óvíst um þeirra greiðslur ag um greiðslur sparisjóða eða sparisjóðsdeilda í bönkum.

Hæstv. ráðh. sagði, að Búnaðarbankanum væri ekki ætlað sama hlutverk til fyrirgreiðslu atvinnuveganna eins og hinum bönkum landsins. Ég kannast ekki almennilega við þetta. A.m.k. í þeirri starfsemi, sem ég þekki bezt til viðvíkjandi Búnaðarbankanum, þá er það algerlega látið sitja fyrir að veita fé til þeirra, sem landbúnað stunda, og vegna þess að ekki hefur verið til veðdeild og engin ákveðin lánsstofnun, sem bændur geta leitað til um föst lán, þá hefur sú stofnun, og ég tel víst Búnaðarbankinn í heild sinni, neyðzt til þess að lána töluvert af sparifé á þann hátt, sem hefði í raun og veru átt að vera veðdeildarlán.

Annars verð ég að segja það, að ég viðurkenni fyllilega þá nauðsyn, sem hér er fyrir hendi um þetta frv. Það er ekki nóg að útvega ræktunarsjóði og byggingarsjóði fé til útlána, ef enginn er til að búa á jörðunum, og auðvitað er bændastéttin dauðleg eins og aðrar stéttir, og það hljóta alltaf að verða skipti á eigendum jarða. Og mér er alveg fullkunnugt um, að það er að verða helzt alveg ómögulegt fyrir ungan mann, efnalítinn, eins og flestir ungir menn eru, að hefja búskap, nema þá hann taki við af föður sínum og sé einna helzt einbirni, því að í nútímabúi, a.m.k. víða um landið, með jörðinni og öllum mannvirkjum á henni, bústofni og verkfærum, liggur orðið svo mikið fjármagn, að það er ekki hægðarleikur að kaupa slíkt. Jafnvel þó að það sé sonur, sem tekur við af föður sínum, ef hann á systkini og þarf að leysa út til þeirra kannske 4/5 hluta af verði jarðarinnar með öllu tilheyrandi, þá er það flestum ofvaxið á unga aldri, jafnvel þótt ráðdeildarmenn séu. En einmitt vegna þess, hvað mér er ákaflega ljóst, hvað hér er mikill vandi á ferðum, ekki einasta fyrir bændastéttina sem slíka, heldur þjóðfélagið, þá verð ég að segja það eins og það er, að mér þykir fremur lítið til þessa frv. koma, þó að það kynni að bæta úr í einstaka tilfelli að einhverju leyti, en fyrir marga mundi það koma að sáralitlu gagni. Bæði er sú fjárupphæð, sem ráðgert er að útvega, svo lítil, að jafnvel þó að miðað sé við 35 þús. kr. hámark á hverju láni. þá yrði það ekki til ýkja margra, og í öðru lagi er 35 þús. kr. hámark í mörgum tilfellum svo lítið, að menn eru jafnnær eða næstum því alveg jafnnær, hvort þeir fá það eða ekki. Það er orðið algengt, að jarðir seljast fyrir mörg hundruð þús. kr., og svo er bústofninn og annað, sem tilheyrir. Þá eru 35 þús. kr. tiltölulega lítil hjálp, og ef menn, sem slíkar jarðir þurfa að kaupa, geta á annað borð sjálfir útvegað sér allt nema 35 þús. kr., við skulum segja, að þeir þurfi hálfa milljón, sem ekki er að verða með öllu óalgengt að menn þurfi til þess að geta hafið sómasamlegan búskap, ef þeir geta lagt fram eða útvegað sér á einhvern hátt 465 þús. kr., þá býst ég við, að þeir hefðu líka einhver ráð með þessar 35 þús. kr., sem á vantaði. Hitt kann að vera, eins og hv. frsm. n. minntist á, að í sumum héruðum landsins sé þetta öðruvísi, þar sem jarðir eru í lægra verði og bústofn kannske ekki heldur eins dýr, að þá geti féð orðið töluverð hjálp, þó að þetta hámark sé, en ég veit, að viða verður það mjög lítil og sama og engin hjálp.