11.03.1954
Efri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get fallizt á það, sem hv. frsm. fór fram á, að láta frv. ganga til 3. umr., ef hann kýs það frekar, ef nefndin vill afla þeirra upplýsinga, sem ég bað um, vegna þess að ég tel, að hér sé um að ræða mjög mikið nytjamál, sem nauðsynlegt sé að nái fram að ganga, og ég vil alls ekki fallast á eða taka undir þau ummæli hv. 1. þm. Eyf., að þetta mál sé í raun og veru lítilsvirði. Við sjáum það, ef við berum saman smáíbúðirnar í kaupstöðunum, sem mér er kunnugra um en ástandið í sveitum, að þar mun hafa þótt gott, ef smáíbúðarlán væri 35 þús. kr. Og það er enginn vafi á því, að sú þátttaka ríkisins að útvega þau lán, þótt ekki væru hærri, hefur ráðið algerlega úrslitum um það, að hundruð manna hafa getað ráðizt í þær framkvæmdir, sem ekki hefðu getað það ella, þannig að þar hefur með ekki meiri lánsfjárhæð verið leyst úr brýnni þörf og margra manna vandræði leyst. Hitt getum við svo allir fallizt á, að það væri betra, ef við hefðum efni á að gera betur í þessum efnum. En ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel meginefni frv. vera mjög til bóta; ég er því eindregið fylgjandi. og ég vil segja það strax, að jafnvel þó að ekki fáist leiðrétting á því atriði, sem ég hreyfði hér, þá mun ég verða með frv. út úr deildinni, svo að enginn misskilningur sé um það. En það breytir ekki því, að ég get ekki fallizt á, að gögn liggi fyrir um það, að Búnaðarbankinn sé ekki megnugur að leysa þetta sjálfur.

Ég tel — hef ef til vill ekki sagt það nógu skýrt áðan — að Búnaðarbankinn hafi ekki sams konar skyldur við aðrar atvinnugreinar í landinu eins og hinir bankarnir hafa, vegna þess að hans skylda sé fyrst og fremst við landbúnaðinn og hann eigi að verja því fé, sem hann hefur yfir að ráða, ekki aðeins í hinum umtöluðu sjóðum, heldur einnig sparisjóðsinnstæðunum, til þess að greiða úr vandræðum landbúnaðarins, alveg eins og hv. 1. þm. Eyf., sá ágæti vinur landbúnaðarins, segist hafa gert í þeirri deild Búnaðarbankans, sem hann sjálfur ræður yfir. Nú er það skoðun mín, að sé ekki nægilega fylgt þeirri sömu stefnu hér í aðalbankanum í Rvík. Ég er sannfærður um það, þangað til ég sé gögn um annað, að það er ærið fé, sem Búnaðarbankinn hefur yfir að ráða, sem hann gæti varið betur til hagsældar landbúnaðinum en hann gerir. Og það er ekki einhlítt að vitna þar um, að Landsbankinn eigi þarna að hlaupa undir bagga og seðlabankinn láni alls staðar öðrum fé. En hvernig er þar nú samkv. þessari skýrslu, sem ég vitnaði í, síðustu skýrslu Landsbankans? Þá er það að vísu þannig, að Útvegsbankinn er í des. 1952 í hér um bil 69 millj. kr. skuld við seðladeild Landsbankans, að því er ég fæ séð, en Búnáðarbankinn á þar inni 41/2 millj. kr., og ég spyr nú: Væri ekki nær að verja því fé, sem þarna stendur, til þess að bæta úr þeirri brýnu þörf, sem hér er um að ræða, heldur en að láta féð standa inni með þeim hætti, sem fram kemur í skýrslu Landsbankans. (Gripið fram í: Er það sama og sjóður Búnaðarbankans?) Ja, sama og sjóður Búnaðarbankans, það kemur fram hjá Útvegsbankanum, hvernig hann fer að. Ég skil það ákaflega vel, að minn góði vinur, hv. þm. Seyðf., sem er málaflutningsmaður hér í bænum og vill hafa góðan aðgang að Búnaðarbankanum til þess að hjálpa sínum vinum hér í margs konar viðskiptum, vilji hafa Búnaðarbankann rekinn eins og hann er rekinn, en þeir, sem eingöngu hugsa um það að útvega sem mest fé í landbúnaðinn, geta ekki litið á það mál með augum málaflutningsmanns í Reykjavík, hversu mætur og gegn maður sem hann annars er. Og það er fyllilega orðið tímabært, að þetta mál sé tekið til rækilegri umræðu en verið hefur.

Hingað til hefur því verið haldið fram, að það sé ekki hægt að ætlast til þess, að sparisjóðsdeildin hjá Búnaðarbankanum kaupi löng lán, af því að það sé svo oft skipt um og menn megi búast við, að sparisjóðsinnstæðurnar standi ekki nema stuttan tíma. Hvað segir reynslan um þetta? Segir reynslan það, að spariféð hjá Búnaðarbankanum sé mjög óstöðugt og hafi sveiflazt mjög, t.d. til minnkunar, frá ári til árs? Ég hygg, að skýrslur sýni allt annað, og ég veit það. Sjálfur er ég nú búinn að vera eitt eða tvö ár í stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur, sem ver fé sínu nær eingöngu til þess að lána löng lán, fasteignalán, til 10 ára a.m.k., og það verður vitanlega að hafa þarna vissan varasjóð við höndina upp á að hlaupa til þess að mæta úttekt sparifjár á tilteknum tíma. En reynslan er auðvitað búin að sýna, að það eru ekki nema tiltölulega takmarkaðar sveiflur, sem eiga sér stað, og meginhluti sparifjárins stendur alveg eins örugglega inni í sparísjóðunum eins og í nokkurri annarri peningastofnun í landinu. Þess vegna er einungis um að ræða þarna vilja — og ef til vill, hvað menn vilja að Búnaðarbankinn græði mikið í beinu fé, en það tel ég að geti ekki skipt meginmáli í þessu sambandi, heldur verði að líta á hitt: Er ekki eðlilegra, að það mikla fé, sem hleðst inn í Búnaðarbankann hér í Rvík, sé tekið út úr venjulegum Reykjavíkurviðskiptum, sem að vísu gefa kannske betri og meiri ágóða, en sé í ríkara mæli en fram að þessu varið til hags landbúnaðinum sjálfum og þá þar með að einhverju leyti létt á öðrum peningastofnunum skyldum við landbúnaðinn.

Ég segi þetta af fullkominni góðvild til Búnaðarbankans, umhyggju fyrir því, að landbúnaðurinn fái sem mest fé, en tel, að hér sé um svo alvarlegt mál að ræða, að Alþingi komist ekki hjá því að skoða það betur en gert hefur verið fram að þessu, og það gleður mig, að hv. þm. N-M., sá skörulegi framkvæmdamaður, hefur lofað að útvega okkur skýrslur um þessi efni, og ég bíð eftir því af mikilli fróðleiksfýsn að fá þær til skoðunar.