15.03.1954
Efri deild: 61. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég mun hafa kvatt mér hljóðs við fyrri hluta þessarar umr. út af ummælum, sem þá féllu, einkum frá hæstv. dómsmrh. Nú skal ég játa það, að þar sem nokkrir dagar eru liðnir siðan þetta var, þá er sumt af þessu fallið í fyrnsku, og ég hefði þar af leiðandi raunar getað fallið frá orðinu. En ég man þó það, að út af þeim orðum mínum, að þetta frv. mundi ekki verða til mjög mikillar hjálpar fyrir suma þá, sem það ætti þó að hjálpa, og sums staðar á landinu, þá fór hæstv. ráðh. að bera saman smáibúðalánin og þetta frv. og taldi, að þetta frv. væri a.m.k. eins mikið til hagsbóta fyrir bændur og smáíbúðalánin fyrir þá, sem þar koma til greina. Og mig minnir, að hv. 4. þm. Reykv. væri þá að taka í sama streng um þetta. En ég vona nú, að það þurfi ekki langra skýringa við, að hér er ólíku saman að jafna. Ef þetta frv. væri aðeins um það að veita lán til smáíbúðarhúsa í sveitum, á minni jörðum o.s.frv., þá mætti auðvitað bera þetta tvennt saman. En hér er ekki um slíkt að ræða, heldur er hér um það að ræða að veita hjálp með þægilegu láni til þess ef til vill að kaupa jörð með íbúðarhúsi, útihúsum, verkfærum, bústofni og öllu tilheyrandi, og það held ég að sé dálítið ólíkt því að koma upp lítilli íbúð í kaupstað. Þó að svo undarlega vilji til, að það mun nú víða ódýrara að byggja í sveitum heldur en t.d. hér í Rvík, þótt varla sé hægt að skilja, hvernig á því stendur, þar sem flutningskostnaður á efni bætist við í sveitunum, þá mun vera þannig samt, að íbúðarhús í sveit og öll útihús, sem nauðsynleg eru á nútímajörð, kosta æði miklu meira en smáíbúð í kaupstað.

Að því er seðladeild Landsbankans snertir, þá sá ég ekki annað við fyrri hluta umr. en að hæstv. ráðh. sannaði einmitt mín orð, þar sem hann upplýati, að á ákveðnum tíma hefði Útvegsbankinn skuldað seðladeild Landsbankans nærri 70 millj. kr., á sama tíma sem Búnaðarbankinn átti þar inni 4 millj. Þessi inneign Búnaðarbankans í seðladeildinni var þar auðvitað á hlaupareikningi og aðeins ætluð til þess að tryggja sparisjóð bankans. Það hefði litlu skipt, þó að hann hefði haft þetta í sjóði, frekar en á hlaupareikningi í Landsbankanum. Mundi þá enginn hafa haft við það að athuga, þó að hann hefði haft 4 millj. kr. hærri sjóð. En mér finnst þetta alveg sanna það, að seðladeildin er, eins og ég sagði, ekki einasta ætluð til þess, að með hennar fé sé starfað í Landsbankanum, heldur er hún ætluð til þess einnig að lána öðrum bönkum, eins og seðlabankar allra landa veraldarinnar hafa sem hlutverk að lána bönkum þjóðanna og hafa viðskipti við þá. Og þar sem seðladeild Landsbankans getur lánað Útvegsbankanum upp undir 70 millj. kr., þá sýnist mega vænta þess, að hún geti innt þær skyldur af hendi, sem ætlazt er til að hún geri eða Landsbankinn með þessu frv., því að það er ekki farið fram á svo mikið hér.

Út af því, sem barst í tal um sparifé á milli okkar, hæstv. ráðh. og mín, þá vil ég endurtaka það, sem ég sagði við fyrri hl. umr. og ekki hefur verið hrakið, að ég tel ekki, að sparifé sé yfirleitt vel fallið til að lána það um langan tíma eða til að kaupa verðbréf fyrir það, nema þá fyrir varasjóð sparisjóða. Hæstv. ráðh. nefndi það, að Sparisjóður Rvíkur hefði lánað mikið af fasteignaveðslánum til langs tíma, að hann sagði, eða a.m.k. til 10 ára. Og það kann vel að vera með slíkan sparisjóð, að það sé óhætt fyrir hann að lána fasteignaveðslán til 10 ára, en 10 ára lán teljast ekki löng lán, og þó mun vera gætt þar nokkurrar varúðar, jafnvel með svo stutt lán, þar sem sparisjóður er rekinn af fyrirhyggju.

Hæstv. ráðh. er hér ekki viðstaddur, og get ég ekki gert að því og sá ekki ástæðu til að vera að hætta við þessar athugasemdir af þeim sökum.

Um þetta mál í heild sinni vil ég að lokum segja það, að ég játa, að það er nú þegar allvel séð fyrir lánum til bænda, til nýbygginga og ræktunar, í gegnum byggingarsjóðinn og ræktunarsjóðinn, en mér hefur lengi verið það áhyggjuefni, hvernig muni takast til, þegar eigendaskipti hljóta að verða á jörðunum, og ég er þegar farinn að reka mig á ákaflega mikil vandræði í því efni. Ég skil þetta frv. svo, að aðaltilgangur þess sé að hjálpa ungum mönnum til að koma fyrir sig fótum, geta byrjað búskap. Og eins og verðlag er nú í landinu á jörðum og öðru, sem þarf til þess að hefja búskap, þá sé ég ekki annað en það sé alveg rétt,sem ég sagði við fyrri hl. umr., að þessi hjálp mundi víða koma að litlu gagni vegna þess, hve hámark lánanna er lágt og féð lítið. Ég þekki ýmis dæmi til þess, að það er ekki annað sýnna en að t.d. ungir og efnilegir bændur verði að fara frá. jörðum sínum og hætta búskap, ef þeir geta ekki fengið nokkru hærra lán en hér er nefnt með sæmilegum kjörum.

Ef til vill hef ég verið misskilinn eitthvað á dögunum út af ummælum mínum um þetta. Þau var ekki þannig að skilja, að ég væri að mótmæla þessu frv. og ætlaði ekki að vera með því. Ég viðurkenni það, að lítið er betra en ekkert og að þetta getur komið að notum sums staðar og einhverjir bændur og bændaefni haft gagn af því, þó að ég efist mjög um, að viðtækt gagn verði af því. Þess vegna mun ég, þrátt fyrir þær athugasemdir, sem ég hef gert, að sjálfsögðu greiða atkvæði með þessu frv.