18.03.1954
Efri deild: 63. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm., 1. þm. N-M., þær upplýsingar, sem hann gaf hér á dögunum. En það er sá galli á gjöf Njarðar, að þær eru í raun og veru utan við það málefni, sem um var spurt. Sú skipting, sem hann telur þar á því, í hvaða skyni Búnaðarbankinn láni sitt fé, tekur sem sé til hinna föstu sjóða hans líka, en ekki sparisjóðsins eins. Það verður til þess, að hundraðstalan, sem fer til landbúnaðar, er miklu hærri en hún er hjá sparisjóðnum einum, og er þó eftirtektarvert, að jafnvel með þeim tölum, sem hv. þm. var með og hann hefur sagt mér að miðist við sparisjóðinn og alla sjóðina, eru þó ekki nema tæp 60% af fé Búnaðarbankans, sem er veitt til landbúnaðar. Hitt er veitt í hin og önnur því óskyld efni. Og þetta er þeim mun eftirtektarverðara sem það segir berum orðum í lögunum um Búnaðarbanka, í hvaða skyni bankinn starfar. Í 2. gr. laga um Búnaðarbanka segir:

„Tilgangur bankans er að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunda landbúnaðarframleiðslu.“

Bankinn hefur engan annan tilgang, en samt er það þannig, að þó að teknir séu með allir sérsjóðirnir, ræktunarsjóður og annað slíkt, samkv. upplýsingum hv. þm., þá eru ekki nema um 60% af fé bankans varið í þágu þessa atvinnuvegar. Og það stoðar ekki í því sambandi, eins og mér skildist að hv. þm. hefði gert, að vitna í Útvegsbankann og segja: Útvegsbankinn lánar í fleira en útveg, — vegna þess að með Útvegsbankann er berum orðum tekið fram, hvert hans verkefni á að vera. Hann á að styðja útveg, verzlun og iðnað. Og það kemur á daginn samkv. þeirri skýrslu, sem hv. þm. gaf, að meginútlán þess hanka eru einmitt í þessar þrjár atvinnugreinar.

En ég hef ekki hér verið að tala um þessa sérsjóði Búnaðarbankans. Ég efast ekki um, að þeim sé varið tilgangi sínum samkvæmt. Það, sem ég hef verið að ræða um, er sparisjóðurinn. Ég hef ekki skýrslur um það, en það er alveg ljóst, að það er ekki nema lítill hluti af honum, sem er varið sérstaklega til landbúnaðarframkvæmda. Ég hef skýrslu um það, í hvað aukningunni frá 30/9 1952 til 31/12 1953 hefur verið varið, aukningu sparisjóðsdeildarinnar. Og þá, er það, að landbúnaðurinn fær ekki nema tæpan þriðja part af þeirri aukningu. En það eru aðrir, sem fá líka bróðurpartinn af því, og það eru kaupmenn. Þeir fá helminginn, ekki einu sinni samvinnufélögin, heldur kaupmenn, fá helminginn. Og ég spyr nú: Er þetta í samræmi við tilgang Búnaðarbankans? Ég er ekki á móti því að lána fé í verzlun, síður en svo. En það eru aðrir bankar hér, sem fyrst og fremst eiga að annast það verkefni. Búnaðarbankinn hefur ákveðið verkefni, og það er að lána til landbúnaðarins.

Það er sannast sagt alveg farið öfugt að, þegar það liggur fyrir, eins og ég hef hér sýnt fram á, að Búnaðarbankinn ver sínu sparisjóðsfé ekki nema að litlu leyti til landbúnaðarins, að þá skuli hann vera að koma og vilja láta skylda aðrar stofnanir til þess að annast það verkefni, sem hann hefur ærið fé til þess að gegna og ekki með nokkru móti hægt að komast fram hjá. Og það er svei mér ekki svo lítið fé, vegna þess að á síðustu fimm árum t.d. hefur verið stöðug hækkun á sparisjóðsdeild Búnaðarbankans, þannig að í árslok 1948 stóðu þar ekki inni nema tæpar 50 milljónir. Nú eru þar inni rúmar 111 milljónir. Og á síðasta ári var aukningin hvorki meira né minna en 29 millj. Mundi nú banka, sem hefur svo mikið fé yfir að ráða, muna um að hjálpa sinni eigin veðdeild um þær 800 eða 1200 þús. kr., sem hér er um að ræða?

Sannleikurinn er sá, að það eru sjálfsagt margar stofnanir hér á landi, sem eru einkennilega reknar og þyrftu skoðunar við, en ég efast um, að það sé nokkur stofnun, sem er einkennilegar rekin en Búnaðarbanki Íslands og er fjær því í sinni starfrækslu að fullnægja því verkefni, sem hún á að annast. Ég efast ekki um, að hann sé vel rekinn sem gróðastofnun: Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það sé neitt óheiðarlegt, sem eigi sér þarna stað. En hv. þm. Eyf. sagði, að auðvitað væri þeim litla angá bankans, sem hann ræður yfir, fyrst og fremst varið til landbúnaðar, og gerði grein fyrir því með dæmum hér, hvernig hann annaðist um það. En sá stóri, fíni banki hér í Rvík er rekinn á allt öðrum grundvelli. Hann er fyrst og fremst rekinn sem verzlunarbanki hér í bænum, og það er ástæðulaust að vera að kvarta undan því, að ekki sé fé til landbúnaðarins, meðan þetta mikla fé er í höndum þessara manna og þeir lögum samkv. eiga að verja því til landbúnaðarins. Hvaða skýring er á því, að það er ekki gert? Ja, það er von, að hv. 1. þm. N-M. þegi; hann hefur stundum kallað fram í, hann gerir það ekki núna. Það er engin skýring til á þessu.

Ég skal ekki vera að rekja þetta frekar. Þetta er mál, sem sjálfsagt þarf að upplýsa menn miklu betur um en hér hefur verið gert, og það er einungis af þessu tilefni, að ég hreyfi þessu hér nú, en málið er svo merkilegt, að það er sjálfsagt eitt af furðuverkunum í íslenzku þjóðlífi.

Ég vil ekki amast við því frv., sem hér liggur fyrir, þó að það samkv. þeim upplýsingum, sem nú eru fram komnar, sé í raun og veru að fara yfir bæjarlækinn til þess að sækja vatn. Látum það eiga sig. Ég vil greiða fyrir því, að það nái fram að ganga, vegna tilgangs málsins, hann er svo góður. En ég tel, að það sé sjálfsagt að breyta frv., og þær allra minnstu breytingar, sem ég get hugsað mér að komi til greina, felast í skriflegri brtt., sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp. Það er við 1. gr., að orðin „Landsbanka Íslands og aðrar“ falli niður, þannig að það verði bara leitað samninga við „peningastofnanir“ og þá þar með auðvitað fyrst og fremst Búnaðarbankann sjálfan, — og svo á undan orðunum „Tryggingastofnun ríkisins“ og þeim, sem þar eru taldir upp að sé hægt að skylda til að kaupa þessi bréf, þá komi fyrst: „sparisjóðsdeild Búnaðarbankans“, að ríkisstj. geti skyldað hana til þess að kaupa bréfin, ef svo lízt og samningar nást ekki. Það má treysta því, að ríkisstj. mun ekki misbeita sinni heimild í þessu, en það er alveg ótvírætt, að fjárreiður Búnaðarbankans eru svo rúmar, að hann munar ekkert um að leysa þetta verkefni, ef nokkur vilji er fyrir hendi.