19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1382 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í umræðurnar um stjórn bankanna, hverjum sé bezt stjórnað og hverjum sé verst stjórnað, eins og það var orðað hér, og ekki heldur leggja neina palladóma á hugarfar eða vinnubrögð einstakra bankastjóra. Ég skal þó taka það fram í sambandi við ummæli, sem féllu um það efni, að mér finnst alveg sjálfsagt og skylt að viðurkenna, að það er ekki hægt að festa allt eða meginhlutann af fé sparisjóðsdeildarinnar í löngum landbúnaðarlánum. Eðli þess innstæðufjár er að sjálfsögðu þannig, að það er ekki nema ákveðinn hluti, sem fer eftir mati á hverjum tíma, sem fært er að festa af slíku fé í löngum lánum. Hins vegar vil ég líka taka það fram, að mér finnst alveg sjálfsagt og eðlilegt, að einhver hæfilegur, ákveðinn hluti af fé sparisjóðsdeildarinnar sé einmitt bundinn við þá höfuðstarfsemi, sem bankanum er ætluð, þ.e.a.s. löng lán við landbúnaðinn, til að greiða fyrir öðrum deildum bankans, sem veita löng lán, að bæta úr þörfum, eftir því sem fært er á hverjum tíma. Það virðist mér alveg augljóst mál, að það er tilgangur stofnunarinnar.

Eins og umræðurnar hér hafa nú snúizt, þá virðist mér, að ekki sé eingöngu um það að ræða, hvaða aðili sé eðlilegt að festi féð í þessum lánum, heldur líka, hvaða aðili eigi að bera vaxtamun bréfanna miðað við venjulega vexti í landinu.

Hæstv. dómsmrh. virtist mér í ræðu sinni nú áðan gera ráð fyrir því, að ekki væri um vaxtatap að ræða í sambandi við kaup á þessum bréfum, því að ég hygg, að það sé alveg augljóst; ég hef þá misskilið hæstv. ráðh. Það stendur í frvgr., að það skuli tryggja affallalausa sölu á bréfum veðdeildarinnar, en vextirnir af veðdeildarbréfunum eru, að ég ætla, ekki nema 5%, þ.e.a.s. undir venjulegum sparisjóðsvöxtum og langt undir venjulegum útlánsvöxtum.

Ég skal þá víkja að brtt. hæstv. dómsmrh. á þskj. 483. g hlýddi á ræðu hans hér við fyrri hluta umr. og varð því nokkuð hissa á þessari brtt. þegar hún kom fram. Mér skildist á þeirri ræðu, að það væri ekki ætlunin að girða fyrir það, að leitað yrði samninga við Landsbanka Íslands og aðrar peningastofnanir um fyrirgreiðslu við sölu þessara bréfa, enda væri ætlunin að bæta sparisjóðsdeild Búnaðarbankans í þá upptalningu, sem nú er í frv. Nú sé ég, að brtt. er sú, að Landsbanki Íslands falli niður í fyrri málslið, en í seinni málslíð bætist aftur inn: sparisjóðsdeild Búnaðarbanka Íslands, þ.e.a.s., það er gert ráð fyrir því, að það sé alls ekki leitað samninga við Landsbanka Íslands um að greiða fyrir sölu á þessum bréfum.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því, að bæði eftír brtt. hæstv. ráðh. og samkvæmt frvgr. eins og hún nú er, þá er gerður reginmunur á því, hvort í hlut eiga lánsstofnanir eins og Landsbankinn og þær aðrar, sem þar eru taldar upp, eða þær stofnanir, sem um getur í síðari málsliðnum, þ.e. Söfnunarsjóður, Brunabótafélagið og Tryggingastofnun ríkisins. Við hina fyrrtöldu, bankana, á samkv. frv. að semja um fyrirgreiðslu í þessu efni, en um hinar síðartöldu stofnanir getur ríkisstj. ákveðið, að þær skuli kaupa. Mér finnst býsna mikið gert upp á milli þessara tveggja aðila, sem þarna er um að ræða.

Ég hef því leyft mér að skrifa hér brtt., sem ég satt að segja hélt að hæstv. menntmrh. mundi geta fallizt á, og hún er á þá leið, með leyfi hæstv. forseta, að á undan „Landsbanka Íslands“ í fyrri málsl. 1. gr. komi: sparisjóðsdeild Búnaðarbanka Íslands — og svo málsgr. áfram, og b-liður, að síðari málsl. greinarinnar falli niður. Ef þessi till. yrði samþ., þá mundi málsgr. hljóða þannig: „Skal ríkisstjórnin tryggja henni með samningum við sparisjóðsdeild Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands og aðrar peningastofnanir eða á annan hátt affallalausa sölu bankavaxtabréfa, er nemi árlega a.m.k. 1200000 krónum.“ Ég sé ekki annað en að þetta sé alveg nóg, nema sú sé meiningin með orðalagi greinarinnar að undirstrika það, að einhverjir skuli geta fyrirskipað, þeim stofnunum, sem í seinni málsl. hermir, að veita lánið, jafnvel móti tillögum forráðamanna þeirra stofnana, því að í fyrri málsl. er gert ráð fyrir, að samið sé við þær alveg eins og bankana og þá aðra, sem nefndir eru í fyrri málslið.

Þetta er efni brtt. minnar, að bætt sé inn í fyrri málslíð til samninga sparisjóðsdeild Búnaðarbankans og að Landsbankinn haldist þar, og það er út frá því, sem ég áðan sagði, að ég tel alveg rétt og eðlilegt, að ákveðinn hluti af innstæðufé sparisjóðsdeildarinnar sé beinlínis ætlaður til þess að styðja og efla þá sérstarfsemi Búnaðarbankans, sem hinum einstöku deildum hans er ætlað að fullnægja og sparisjóðsdeildinni líka. En að sjálfsögðu ber að viðurkenna, að það er ekki hægt að festa nema einhvern hluta af fé sparisjóðsdeildarinnar á þennan hátt vegna þess, hvernig það fé er tilkomið og hversu laust það jafnan hlýtur að vera hjá bankanum og verður að vera. Ég sé ekki, að þetta séu nein spjöll á frv. og ekki neitt dregið úr þeim líkum, sem fyrir hendi eru til þess, að þetta fé fáist. Þó að síðari málsl. sé felldur niður, þá er opið fyrir ríkisstj. að semja við þær stofnanir, sem þar greinir, eftir að hún hefur rætt við bankana, ef þörf gerist, og leita eftir fénu þar.

En það er vissulega óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því, að hvaða stofnun sem tekur þessi bréf affallalaust, eins og í greininni segir; tekur á sig þann halla, sem af því leiðir, í mismun á vöxtum. Það er ekkert sérstakt fyrir sparisjóðsdeild Búnaðarbankans. Það er kvöð, sem lögð yrði á hverja aðra stofnun, sem þessi bréf yrði látin kaupa, og þá er það ákaflega vafasamt atriði í mínum augum, að það ætti að lenda á stofnunum eins og þeim, sem hér fara á eftir, t.d. Tryggingastofnun ríkisins, sem getur ekki veitt einu sinni lán neitt svipað því, sem eftir er sótt og ætlazt er til að hún láni beint samkvæmt lögunum. Hún á eftir lögunum að veita lán með lágum vöxtum til sjúkrahúsa, til elliheimila og til öryrkjahæla og annars slíks, og það er sótt í því efni um hærri upphæðir en Tryggingastofnunin getur orðið við á hverjum tíma. Það fé, sem yrði af henni tekið og lagt til þessarar starfsemi, yrði til að draga úr möguleikum hennar til þess að veita hin önnur lán. Auk þess eru nú, eins og ég benti hér á við fyrri umr., horfur á því, ef ekki verður eitthvað breytt um afgreiðslu mála hér á þingi, að hún geti engan eyri lánað til neins, ef henni er ætlað að bera 4–6 millj: kr. halla af rekstrinum á yfirstandandi ári, og liggur það í augum uppi.

Ég skal ekki blanda mér í umr. um bankamál almennt eða á hverju byggist sú lánastarfsemi, sem rekin er hér í allstórum stíl og þannig er háttað, að lánin eru veitt með stórum lægri vöxtum en jafnvel þau lán, sem tilsvarandi stofnanir sjálfar verða að taka til starfsemi sinnar, eins og t.d. hinar ýmsu deildir Búnaðarbankans og eins og t.d. byggingarsjóður verkarnanna, sem hæstv. menntmrh. nefndi hér áðan í þessu sambandi. Mér fannst satt að segja hv. þm. Str. tala eins og það væri verið að gera hér einhverja sérstaka nýja uppgötvun, að slík hankastarfsemi, sem lánaði gegn lágum vöxtum og borgaði háa vexti, gæti ekki haldið áfram til lengdar. Ég held, að þetta sé engin ný uppgötvun. Ég held, að þetta hafi verið ljóst, bæði þegar lögin voru sett um byggingarsjóð verkamanna og um Búnaðarbankann, að til þess að slík starfsemi geti haldið áfram, þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir, sem líka voru gerðar samhliða. Það, hvort og hversu lengi slíka lánastarfsemi er hægt að hafa með höndum, er að sjálfsögðu undir tvennu komið: Undir því, hversu mikill mismunurinn er á þeim vöxtum, sem stofnunin þarf að greiða, ég þeim, sem hún fær, og í öðru lagi, hvernig hlutfallið er á milli eigin fjár og lánsfjár, þegar talið er fram það starfsfé, sem stofnunin hefur. Nú hefur t.d. Búnaðarbankinn gegnum ríkisframlög ár frá ári og gegnum nokkurn hagnað á starfseminni safnað verulegu eigin fé, sem skiptir nokkrum tugum milljóna. Það er þetta fé ásamt hinum opinberu framlögum úr ríkissjóði, sem stendur undir og gerir fært að halda slíkri lánastarfsemi áfram. Það er einfalt reikningsdæmi, hversu lengi er hægt að halda slíkri starfsemi áfram og í hversu víðtækum mæli. Þetta var ljóst, þegar lögin voru sett, og er því ekki ný uppgötvun, sem gerð er núna í sambandi við rekstur bankans. Alveg sama gildir um byggingarsjóð verkamanna. Það, sem gerir fært að halda þeirri starfsemi áfram, er sú eign, sem hefur safnazt gegnum framlögin, sem koma frá ríkissjóði og sveitarsjóðum, og gegnum hin árlegu framlög, sem ganga til þess að greiða þennan vaxtamun. Þegar svo er komið, þá er á hverjum tíma matsatriði, hversu mikils fjár er hægt að afla til þess að jafna þennan mismun, og eftir því fer að sjálfsögðu, í hve víðtækum mæli starfsemi slíkra lánsstofnana getur haldið áfram.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt., og vil ég mega vænta þess, að hv. dm. veiti afbrigði fyrir henni.