19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er alltaf gott að hafa umr. um mál og ræða þau hreinskilnislega. Og ég tel tvímælalaust, að þessar umr. hafi orðið til góðs. Það hefur sitthvað skýrzt í þeim. Hv. þm. Str. játaði í seinni ræðu sinni, að það eru alveg tvö ólík atriði, sem hann þó blandaði saman í fyrri ræðunni, hver eigi að borga vaxtamismuninn og hver eigi að leggja til peningana.

Ég segi það með fullri vinsemd og virðingu til hv. þm. Str. og kunnugleika á hans störfum, að ég treysti honum mjög vel til að ganga svo ríkt eftir í sókn mála fyrir hönd bænda, að nauðsynleg milligjöf fáist þarna, þegar á henni er þörf, ef sjálft meginféð er fyrir hendi. En það er aðeins önnur hlið málsins, þ.e. milligjöfin. Hitt er að útvega fé. Og það er sá hluti málsins, sem ég hef rætt í þessum umr., hreyfði hér fyrst við 2. umr. og síðan aftur við fyrrí hluta þessarar umr., að ég tel, að Búnaðarbankinn ekki aðeins geti, heldur sé honum skylt að leggja þetta fé fram. Ef hann getur ekki fullnægt þeirri skyldu án þess að fá til þess ríkisstyrk, þá er það hans að leita til stjórnarvaldanna um það, í hvaða formi sá ríkisstyrkur á að vera.

Eins og ég gat um í ræðu minni í gær og hv. þm. N-M. gerði mér þann greiða að rifja hér upp, þá stendur í 2. gr. laganna um Búnaðarbankann: „Tilgangur bankans er að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunda landbúnaðarframleiðslu.“ — Þetta er tilgangur bankans. Það á að reka hann sem landbúnaðarbanka, en ekki sem almennan verzlunar- og viðskiptabanka. Ef það er orðið úrelt og ekki hægt að reka hann sem landbúnaðarbanka, þá á að breyta lögunum. Þá á að gera mönnum það ljóst, að þetta ákvæði á ekki lengur við og því sé ekki hægt að fullnægja.

Það er eins og ég segi: Hv. þm. Str., sá mjög skarpskyggni þm., þegir um sum atriði í þessu sambandi. Ég spurði hann alveg af ásettu ráði og sagði þá ekki meira. Ég spurði hann: Hvað á Búnaðarbankinn mikið í verðbréfum? Þá tók hv. þm. það eins og ég væri að efast um það, að Búnaðarbankinn væri „liquid“. Það hefur mér aldrei dottið í hug. Ég hef einmitt lýst yfir því, að ég teldi, að bankinn væri sem verzlunarbanki mjög vel rekinn, sjálfsagt rík og öflug stofnun, þó að hún hafi brugðizt sinni skyldu sem landbúnaðarbanki. Hv. þm. valdi þann kostinn að skilja það svo sem ég hefði verið að efast um, að bankinn væri „liquid“, og ég væri hér með aðdróttanir í garð bankans. En ég spurði um þetta vegna þess, að það segir í 8. gr. bankalaganna: „Sparisjóðsdeild skal eiga a.m.k. 15% af innlánsfé með sparisjóðskjörum í tryggum og auðseldum verðbréfum, svo sem ríkisskuldabréfum, jarðræktarbréfum, veðdeildarbréfum Búnaðarbankans eða Landsbankans“ o.s.frv. — Hv. þm. sagði, að það væri meiri hl. af þessu í ríkisskuldabréfum. Ég segi nú: Hvernig væri, að bankinn tæki þetta í veðdeildarbréfum Búnaðarbankans, eins og lögin sjálf segja? (HermJ: Má ég taka fram í ? — Heldur ráðh., að 41/2% bréf séu það, sem hann kallar „liquid“ bréf og seljanleg?) Með þessu sannast aðeins það, sem ég sagði: Ef lögin, eru ekki lengur framkvæmanleg, þá á hv. þm. að reyna að fá lögunum breytt, alveg eins og ég er hér að burðast við að fá breytt áfengislögum, af því að ég tel þau ekki framkvæmanleg eins og þau eru. Á sama hátt á hv. þm., sem er settur til að framkvæma búnaðarbankalögin eins og þau eru, að fá lögunum breytt, ef hann getur ekki framkvæmt þau. En svo kemur hér til viðbótar, að hann hefur þann möguleika og hefur verið óspar á fyrir þau málefni, sem hann hefur beitt sér fyrir, að koma til ríkisins og segja: Ég verð að fá ríkisstyrk til þessa, ríkisstyrk til hins. — Einhvern tíma hefur það nú heyrzt, að hv. þm. hafi gerzt talsmaður slíks.

Ég segi nú: Ef ekki hefði verið tekin nema bara prósentan af aukningunni, sem sparisjóðurinn fékk á síðasta ári, en þá jukust innlán þar um 29 millj. kr., þó ekki hefði verið tekinn nema nokkur hluti af því, sem bankanum var skylt að kaupa í verðbréfum til þess að standa á móti þessu, þá gat hann margfaldlega fullnægt þeirri skyldu, sem hér er um að ræða, með því að kaupa þau bréf veðdeildar Búnaðarbankans, sem eru talin upp í sjálfum lögunum og nú er verið að reyna að útvega einhvern kaupanda að.

Það er einmitt þetta, sem ég segi og hefur verið meginkjarni míns máls, að Búnaðarbankinn hefur sjálfur skyldu til þess að verja sínu fé í þágu landbúnaðarins. Hann hefur meira að segja beina lagaskyldu til þess að verja 15% til þess að kaupa bréf, m.a. sérstaklega veðdeildarbréf frá Búnaðarbankanum sjálfum. Og meðan bankinn fullnægir ekki þessari skyldu, þá er það að fara yfir bæjarlækinn að leita eftir vatni að fara að leggja á aðrar lánsstofnanir þessa skyldu, sérstaklega þegar það liggur fyrir og hefur verið marglýst yfir, það getur skeð, að það hafi verið misheyrn hjá mér, að hv. þm. væri að státa af því, — en því hefur verið marglýst yfir af honum, að Búnaðarbankinn væri ákaflega vel stæður, þannig að hann hefði reiðufé, væri ekki í neinum vandræðum með að standa við sínar skuldbindingar. Og þó að hann hefði ekki sagt, að hann vildi bera sig neitt saman við aðra banka, þá hefur það ekki leynzt, að hann hefur talað með töluverðri ánægju um sjálfan sig, sem hann líka má, mótsett við aðra banka. Þetta hefur engum dulizt. Þess vegna er það, sannast sagt, dálítið skrýtið að vera að fara frá þeirri stofnun, sem hv. þm. segir að sé svona vel stjórnað, — en þar sem aðal-„góðstjórnin“ á að liggja í því að fara á móti lögum, fylgja ekki beinum lagafyrirmælum um fyrirgreiðslu við landbúnaðinn, heldur að gera bankann að almennum verzlunarbanka, — að vera að fara úr þessum vel stjórnaða banka yfir í þær stofnanir, sem hv. þm. gefur hér mjög í skyn og hans samróðrarmaður í þessu máli, hv. þm. N-M., berum orðum sagði að væri mjög illa stjórnað. Ég verð að segja það: Ég skil ekki þennan hugsunarhátt, því að hv. þm. kemst ekki með neinu móti fram hjá því, að Búnaðarbankinn hefur brugðizt ekki aðeins þeirri skyldu, sem eðlilega hvílir á honum, heldur beinum lagabókstaf um stuðning við landbúnaðinn.

Hv. þm. lætur svo sem ég hafi gerzt talsmaður þess, að öllu sparifénu yrði varið til kaupa á bréfum, sem eiga að standa til langs tíma.

Vitanlega hef ég aldrei lagt slíkt til. Ég tók það berum orðum fram, að það yrði vitanlega að hafa hóf í þessu eins og öðru og gæta þess, að bankinn yrði ætíð „liquid“. Hitt er vitað mál, að hann getur keypt miklu meira en sem svarar 15% af innstæðufé sínu. Landsbankinn á eftir réttum lögum að kaupa 30%. Ég veit ekki, hvort hann hefur gert það, en ef hann hefði gert það, þá hefði hann forðað mjög frá því öngþveiti varðandi fasteignalán, sem hér er. Og það er vitað mál, að flestum sparisjóðum landsins er varið til þess að lána út fasteignalán, og hví í ósköpunum skyldu innstæðurnar vera lausari í Búnaðarbankanum heldur en í öllum öðrum bönkum og sparisjóðum? Ég skora á hv. þm. að nefna dæmi þess og þá hve mörg, að innstæður hafi farið minnkandi frá ári til árs í Búnaðarbankanum. Ég gat hér um í gær, að ég hef skýrslu um síðustu fimm ár, og á þeim fimm árum hafa þær stöðugt farið vaxandi og meira að segja stórkostlega vaxandi, og ég held einmitt, að bankinn hafi það álit á sér sem vei rekinn, við skulum segja verzlunarbanki, að menn séu óhræddir við að láta peninga standa þar inni. Það er alveg áreiðanlega rétt.

En þeim mun meiri möguleikar eru til þess fyrir hv. þm. að beita áhrifum sínum til þess, að l. um bankann verði fylgt, og í því sambandi vil ég taka fram, að því fer fjarri, að það þyrfti einungis að fara fram með þeim hætti að veita fasteignalán. Það er vel hugsanlegt líka að framfylgja l. með því að veita bændum rekstrarlán, og við vitum það, hv. þm. Str. og ég, báðir mjög vel, að það er brýn þörf á því að bæta úr rekstrarlánaskorti bænda. Það er einmitt eitt af höfuðverkefnum núverandi ríkisstj. að bæta úr því. Því í ósköpunum beitir Búnaðarbankinn sér þá ekki til þess að leysa þetta verkefni og har með framfylgja l. um sinn tilgang, sem hann hefur ekki gert nú um langt árabil? Hv. þm. Str. þegir að vísu af skiljanlegum ástæðum, en eftir stendur, að bankinn hefur gefizt upp við að framfylgja l. Hann getur gert það á fleiri vegu en þann að veita fasteignaveðslán. Hann getur gert það með þessu, eins og ég segi, að hafa forustu um heilbrigð rekstrarlán til bænda, til þess að menn þurfi ekki að vera háðir hvort heldur kaupfélögum eða kaupmönnum um sín rekstrarlán. Hv. þm. Str. taldi áðan, að það væri fullvel séð fyrir því með því að lána kaupmönnum, sem aftur lánuðu bændum. Hann nefndi nú ekki kaupfélag í þessu sambandi. (Gripið fram í: Ég sagði verzlun.) Nei, hann sagði nú kaupmönnum, og hann nefndi ekki kaupfélög í þessu sambandi. Og þótt skrýtið sé, þá held ég, að kaupfélög hafi ekki ákaflega mikil lán í þessum banka, a.m.k. er það svo samkvæmt því yfirliti, sem ég hef fengið yfir aukninguna á sparifénu rúmlega síðasta eitt árið, að þá fer helmingurinn af henni í kaupmenn, en ekkert í samvinnufélög.

Ég verð að segja það, að þetta eru ákaflega fróðlegar upplýsingar fyrir okkur, sem höfum verið að lesa um það í Tímanum, að sjálfstæðismenn stjórnuðu bankamálum þjóðarinnar þannig, að þeir afskiptu kaupfélögin og létu kaupmennina fá allt of mikið. Þarna hafa framsóknarmenn banka, þar sem þeir eru sannast sagt ótruflaðir, ráða allir öllu einir, alveg sérstaklega þetta síðasta ár, því að þá tryggðu þeir sér meiri hluta í bankaráðinu. Áður var þó einhver aukning hjá samvinnufélögunum, er mér sagt, nú hamast þeir við að lána bara kaupmönnum, um leið og þeir skamma okkur hina fyrir það, að við lánum samvinnufélögunum allt of lítið.

Hitt er svo annað mál, sem ég vil segja hér, að það er auðvitað mjög rangt að tala um þessi bankamál sem verandi á ábyrgð eins eða annars flokks, vegna þess að þótt t.d. bankastjóri sé í tilteknum flokki, þá er engan veginn þar með sagt, að hann noti stöðu sína flokkslega. Ég held slíku ekki fram um bankastjórann í Búnaðarbankanum, þó að hann sé einn af frambjóðendum Framsfl. En ég held hins vegar, að hv. þm. Str. eigi ákaflega erfitt með að gleyma því, að hann er formaður Framsfl., þegar hann er í bankaráðinu. Það er svo ríkt í honum að gagna sínum flokki. Ef það á að tala um, að bankar séu á valdi einhverra flokka, þá er það þó einn banki, sem er fyrst og fremst á valdi eins flokks, þ.e. Búnaðarbankinn á valdi Framsfl. Flokkurinn hefur fyrirmæli um það, að bankinn eigi að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunda landbúnaðarframleiðslu. Þetta kemur þannig út, að sparisjóðsaukningin á síðasta ári eftir þeirra eigin skýrslum fer að 1/3 til landbúnaðar eftir þeirri skýrgreiningu, sem þeir sjálfir gefa, en að helmingi til kaupmanna. Það kann að vera, að það sé allt með felldu um þetta. En ef hinir bankarnir hafa gert of mikið að því að lána í verzlunina og of lítið að því að lána til bænda, eins og málgögn Framsfl. halda fram, þá hefur Framsfl. og hv. þm. Str., form. hans, ákaflega brugðizt þeim trúnaði, sem hans flokkur hlýtur að bera til hans, með því að láta ekki Búnaðarbankann rétta þennan hlut í stað þess að gerskekkja hann svo mjög sem raun ber vitni um.

Hv. þm. vildi bera af sér, að hann hefði verið með hótanir um það, að Reykvíkingar skyldu ekki fá lán í bankanum, úr því að ég væri að krefjast þess, að þeim væri ekki lánað, og sagðist enga slíka hótun hafa borið fram. Hv. þm. sagði berum orðum, að það væri hægt að lána þetta í kaupstaði og kauptún úti á landi. Hann nefndi ekki bændurna. Það átti sem sagt beinlínis að fara að hefnast á Reykvíkingum í þessu sambandi, af því að ég hafði á því aðra skoðun, hvernig ætti að stjórna þessum málum, heldur en hv. þm. Str. Hann um það, ef hann vill nota sína aðstöðu í því skyni. Ég ber það traust til hans og segi það í fullkominni einlægni, að þegar hann skoðar sinn hug, þá muni hann nú ekki framfylgja þessari hótun. Hann er allt of mikill maður til þess, að honum detti það í hug. En ef svo heimskulega væri farið að, þá mundu Reykvíkingar vafalaust kunna að svara fyrir sig. Þó að ég sé þm. Reykvíkinga og sé óhræddur við að tala þeirra málstað og hafi stundum sætt ámæli hér í d. fyrir að standa á þeirra rétti, þá tel ég mér skylt að tala fyrir hönd annarra landsmanna líka, þegar á þá er hallað og ranglega að farið. Það er ótvírætt, að Búnaðarbankinn hefur af einhverjum ástæðum, ef til vill verjanlegum, ef til vill ekki verjanlegum, ekki framfylgt þeirri skyldu að vera landbúnaðinum sú hjálparhella, sem hann á að vera lögum samkvæmt. Þetta er staðreynd, sem er ómögulegt annað en að vekja athygli á, og ef hv. þm. telur, að það sé afsakanlegt, að bankinn hefur brugðizt þessu, þá á hann, eins og ég segi, að beita sér fyrir lagabreytingu, en ekki halda uppi svo veikum vörnum sem hann hefur gert hér.