19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég held, að þessar umr. beri vott um það, að það ríki töluverður misskilningur í málinu, sérstaklega þó af hendi hæstv. dómsmrh. Hann hefur mjög rætt um það, að Búnaðarbankinn lánaði öðrum en þeim, sem landbúnað stunda. Ég hygg, að þau lán séu aðallega víxlar til stutts tíma, og byggist það að sjálfsögðu á því, að það þykir ekki fært að binda sparisjóðsféð mjög í löngum lánum, eins og hv. þm. Str. og fleiri þm. hafa tekið fram og ég einnig við 2. umr. málsins.

Ég efast ekkert um það, að bændur sitja fyrir um þessi víxillán, ef þeir fara fram á þau og setja góðar tryggingar, en það er einu sinni svo, að það eru ekki víxillán, sem bændur fyrst og fremst vanhagar um, heldur lán til langs tíma.

Þá minntist ég hér við 2. umr. á seðladeild Landsbankans eða seðlabankann, sem hæstv. dómsmrh. hefur ekki komið inn á. Ég tók það þá fram, og ég vil gera það enn, að hjá öllum þjóðum mun það vera svo, að seðlabankinn hefur vissar skyldur að rækja við aðrar lánsstofnanir síns lands, og hæstv. dómsmrh. upplýsti það hér í umr. áður, að fyrir ekki löngum tíma hefði seðladeildin átt hjá Útvegsbankanum 70 millj. kr. Nú vildi ég spyrja hæstv. dómsmrh., hvað honum finnst óeðlilegt við það, að seðladeild, — ég er ekki að tala um seðladeild Landsbankans, heldur seðladeildina, — hvað honum finnst óeðlilegt við það, að seðladeildin jafnvel kaupi ofur lítið af bréfum þessarar fyrirhuguðu veðdeildar, því að ef nokkur stofnun í landinu getur keypt bréfin án þess að biða nokkurn halla og án þess að fá nokkurn styrk til þess, þá er það seðladeildin, sem hefur fleiri hundruð millj. kr. frá ríkinu vaxtalaust.

Það er oft eins og menn setji Landsbankann og hina bankana alveg hliðstæða og gangi fram hjá því, að Landsbankinn hefur innan vébanda sinna deild, sem er hliðstæð þjóðbönkum annarra landa. Þetta er sjálfsagt fyrir það, að hér er því svo fyrir komið, að seðlabanki og almennur viðskiptabanki eru í einni og sömu stofnun, sem margir hafa talið óviturlegt.

En svo held ég, að hæstv. dómsmrh. misskilji alveg, hvaða áhrif hans eigin till. mundi hafa, ef samþ. yrði. Ég sé ekki annað en að hún hefði þau ein áhrif að takmarka það, sem Búnaðarbankinn mundi lána í sína eigin veðdeild. Það er upplýst, að sparisjóðsdeild Búnaðarbankans hefur lánað veðdeildinni og á hjá henni töluvert fé nú, hefur gert þetta ár eftir ár. En ef það á nú að fara að lögtaka það, að ríkisstj. eigi að semja við Búnaðarbankann um, að hann láni sinni eigin veðdeild eitthvað og eitthvað tiltekið, þá skilst mér, að það mundi verða útkljáð mál, þessi upphæð skyldi það vera, og þar með í sjálfu sér útilokað, að það yrði meira. Þess vegna get ég ekki skilið þessa till. hæstv. ráðh. öðruvísi en svo, að með henni sé það takmarkað hreint og beint, hvað Búnaðarbankinn megi lána sinni eigin veðdeild. Og þótt ekki væri annað, ,þá finnst mér töluvert hæpið að fara að setja slíkar takmarkanir í lög, því að við gætum hugsað okkur, að í framtíðinni geti Búnaðarbankinn ef til vill lánað veðdeildinni meira fé en hér er um að ræða og þolað það tap, sem af því stafar. Hann er að safna allálitlegum varasjóði, og hann er rekinn með hagnaði, og það gætu komið þeir tímar, að hann sæi sér fært að leggja til veðdeildarinnar, jafnvel þó að sparisjóðsdeildin tapaði á því. En með þessari till. hæstv. ráðh. sýnast mér vera sett takmörk fyrir því, að það megi gera þetta, nema að því marki, sem ríkisstj. semur um, og innan takmarka þessara laga.