22.03.1954
Efri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að segja margt, því að hæstv. dómsmrh. hefur ekkert hrakið af því, sem ég hef sagt. Hann hefur reynt að snúa út úr tvennu, sem ég finn ástæðu til að leiðrétta, en að öðru leyti ekki mótmælt neinu, sem ég sagði. Ég var að benda honum á það, að sú prósenttala, sem talin er í útlánum hjá atvinnuvegunum, væri nú svo veikt flokkuð, að hæglega gæti farið svo, að það, sem væri talið í einum flokki, lenti a.m.k. mjög inn á aðra flokka, og nefndi sem dæmi ákveðið tilfelli. þar sem banki lánaði kaupmanni peninga, til þess að hann gæti birgt sig upp með kjöt til árs, sem varð til þess, að þessi kaupmaður gat greitt fyrir viðskiptum þeirra, er landbúnað stunda, eins og stendur í lagagreininni að bankinn eigi að gera og hann sagði að væri þverbrotið af Búnaðarbankanum. Ég nefndi tvö dæmi til að sýna honum, að þessi prósenttala væri ekki einhlít, af því að einmitt svona löguð dæmi, með mörgum tilbrigðum, rugluðu skiptingunni á milli flokka, og þess vegna væri sú flokkun, sem þar kæmi, ekki einhlít og sannaði ekkert um það, að þau lán, sem talin væru í öðrum flokkum en til landbúnaðar, gætu ekki greitt fyrir viðskiptum fyrir þá, sem landbúnaðinn stunda. Þetta vildi þá ráðh. færa þannig út, að ég hefði talið, að það væri nauðsynlegt að lána kaupmönnum og Framsfl. hefði áður verið á máti því að lána kaupmönnum og nú væri hann búinn að söðla um, og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er allt saman út í loftið sagt. Dæmið var bara tekið út úr veruleikanum eins og það lá fyrir s.l. haust, alveg nákvæmlega, til að sýna hæstv. ráðh., að ekki væri einhlít þessi flokkaskipting, sem höfð er í bönkunum á því, hvernig fé skiptist milli atvinnuvega. Ég get þá bætt því við, að náttúrlega hefði ég miklu heldur viljað, að þessir bændur hefðu átt aðgang að 5% rekstrarláni, eins og sjávarútvegurinn á, og getað fengið lán út á sitt kjöt beint hjá bankanum og ekki þurft að hafa þessa tvo milliliði, sem þarna voru báðir kaupmenn. Þetta var þess vegna ekkert annað en útúrsnúningur hjá ráðh., sem ég vil hér með mótmæla, og vænti þess, að það, sem ég sagði, skoðist og sjáist í sambandi við það, sem ég sagði það um.

Annað var það, að hann sagði, að ég vildi láta taka peningana hjá bönkunum, sem væru illa reknir og hefðu enga peninga, og færa þá í þann banka, sem væri vel rekinn og hefði nóga peninga. Þetta er líka mjög mikill misskilningur. Þó að ég benti á það, að bankarnir hinir báðir hefðu ekkert gert til þess að lána stofnunum eins og veðdeild Landsbankans fé, sem hún gæti lánað út á húsabyggingar, eins og Búnaðarbankinn hefur gert við sína veðdeild, þá sagði ég ekkert um það, að Landsbankinn hefði enga peninga. Ekki heldur sagði ég það viðvíkjandi fiskveiðasjóðnum. Hitt veit ráðh., að sá banki, sem hefur 300 millj. kr. vaxtalausar til þess að lána út, getur grætt meira en hinn, sem hefur sparisjóðsfé eitt til að lána út, það verður að borga af því innlánsvexti. Hann veit líka, að þeir bankarnir, sem hafa erlenda gjaldeyrinn og taka sína „provision“ af honum, hafa allt aðra möguleika til að græða en sá bankinn, sem ekki hefur það. Þetta hvort tveggja veit hann. Og hann veit líka, að þrátt fyrir það, þótt rekstrarkostnaður bæði að tiltölu við höfuðstól, sem bankinn hefur yfir að ráða, að tiltölu við útlán, sem hann hefur yfir að ráða, og að tiltölu við veltu, sem á honum er, sé langminnstur hjá Búnaðarbankanum, þá græða hinir miklu meira uf þeim tveimur ástæðum, sem ég hef nefnt, annars vegar vegna gjaldeyrisfjárins, sem þeir hafa og ekki bara taka sínar „provisionir“ af, heldur fá inn til sín og geyma mánuðum saman vegna þeirrar fyrirframgreiðslu, sem þeir heimta að tillögu ríkisstj., um leið og vörurnar eru pantaðar. Þess vegna veit hann það, að þessir bankar báðir hafa miklu meiri gróða en hinn, og það er þess vegna ekki að taka úr neinum peningalausum bönkum og færa í þann, sem nóga peninga hefur, það er eins og önnur fjarstæða að segja það, enda aldrei sagt af mér.

Ég vildi gjarnan taka undir það með hv. þm. V-Sk. (JK), að ef till. eru teknar bókstaflega eins og þær liggja fyrir, þá er ekki hægt að segja annað en að Alþingi ætlaðist til þess, að meiru yrði ekki lagt í veðdeildina en þessar 1200000 kr., og leysti þess vegna Búnaðarbankann undan því, sem hann hefur gert undanfarið. Það má deila um það, hvort honum er það skylt eða ekki. Við skulum segja, að honum sé það ekki skylt, og segja það til þess að milda framkvæmd hinna bankanna, sem hafa ekki talið sér skylt að fara svoleiðis með þær stofnlánadeildir, sem þeir hafa, veðdeild og fiskveiðasjóð. Við skulum segja, að honum sé það ekki skylt, sem hann hefur fundið sér siðferðislega skylt að reyna að leysa og þess vegna lánað eitthvað dálítið á þriðju millj. kr. veðdeildinni, til þess að hún gæti lánað út. Ef ríkisstj. færi að semja lög um, að veðdeildin skyldi hafa 1200000 kr. og þar í fé frá sparisjóði Búnaðarbankans, mætti líta þannig á, að hann væri leystur undan þessari skyldu. Ég veit, að Búnaðarbankinn finnur þessa siðferðislegu skyldu alveg eins, þó að hann fái þessar 1200000 kr., og síðan yrði því öllu varið til útlána og mjög líklegt, að hann smám saman bæti þar að auki við þetta, sem hann á núna hjá veðdeildinni. Annars kemur náttúrlega alltaf inn í veðdeildina eitthvað af vöxtum og afborgunum á hverju ári, svo að sú skuld annaðhvort getur staðið eða þá lækkað af því og mundi undir engum kringumstæðum verða látin lækka af þessu viðbótarfé, sem henni væri útvegað eftir þessu frv. Þess vegna held ég, að það sé misráðið að taka sparisjóð Búnaðarbankans þarna inn í. Stjórn bankans er búin að sýna það, að hún telur sér siðferðislega rétt að lána veðdeildinni og leysa þannig úr brýnustu þörfinni, þó að hún hafi ekki getað gert það fullnægjandi, og af því að hún hefur ekki getað gert það fullnægjandi, þá er reynt að bæta þessu við, svo að veðdeildin geti rækt hlutverk sitt betur, þó að hún geti aldrei rækt það fullnægjandi eins og nú horfir í landinu.

Ég vil þess vegna mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt, og treysti því, að við nánari athugun sjái bæði 4. þm. Reykv. og hæstv. ráðh., að það er fyrir beztu, að það sé leyst þannig og till. þeirra felldar. Ekki ætlast ég til, að þeir viðurkenni það með því að taka þær aftur, en býst við, að þeir greiði þeim sjálfir atkvæði. En náttúrlega gerðu þeir réttast í að sitja hjá.