03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Það gengur hálferfiðlega að ræða mál hér í þessari hv. deild, a.m.k. að fá um þau atkvgr., vegna þess að hæstv. ríkisstj. og hennar lið er oftast fjarverandi af fundum. Er því lítil ástæða til að lengja umr. um það mál, sem hér liggur fyrir.

Ég vildi þó ekki láta þessa umr. líða svo, að ég segði ekki nokkur orð um það mál, sem hér er til umr. — Ég er sammála hv. 1. landsk. um það, sem hann sagði hér um söluskattinn almennt sem skatt, og vil undirstrika það, sem hann sagði líka, að það er aðalkrafa og á að vera aðalkrafa, að söluskatturinn verði felldur algerlega niður í því formi, sem hann er nú. Hins vegar er ég ekki samþykkur þeim brtt., sem hv. 1. landsk. hefur lagt hér fram við frv. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég tel ekki, að söluskatturinn batni neitt við það sem skattur, þó að sveitarfélög fái einhvern hluta hans. Í öðru lagi minnka ekki álögurnar á almenning af söluskattinum sem skatti, þó að sveitarfélögum sé heimilað að ráðstafa einhverjum hluta .hans. Í þriðja lagi er ekki í þessari brtt. tryggt, að aðrir skattar sveitarfélaga lækki, þó að þau fengju þetta til viðbótar, þannig að álögur á almenning mundu ekki lækka, þó að þessi brtt. næði fram að ganga. Í fjórða lagi er ég „principielt“ á móti því, að ríkið leggi á skatta og innheimti þá fyrir sveitarfélögin. En eins og ég tók fram í upphafi, er ég hv. 1. landsk. sammála um eðli söluskattsins og það, að hann bæri að afnema með öllu. Einnig er ég honum sammála um það atriði, að það er sýnilegt, að hæstv. ríkisstj. og hennar lið muni ekki fallast á þá breytingu að þessu sinni.

Í umræðum þeim, sem hér hafa farið fram um þetta mál, hefur verið bent allýtarlega og allrækilega á ókosti söluskattsins, og skal ég ekki fara út í það mál neitt að ráði, a.m.k. ekki endurtaka það, sem um það hefur verið sagt. En ég vildi þó benda á eitt atriði, sem ekki hefur verið nefnt enn þá í þessu sambandi, og það er, að þessi söluskattur er tvenns konar. Það er söluskattur, sem er innheimtur og lagður á vörur um leið og þær eru fluttar inn og innheimtur um leið og tollar, og í öðru lagi söluskattur, sem er lagður á vöruna í smásölu og innheimtur af smásölufyrirtækjum og einnig er hann lagður á þjónustu að einhverju leyti enn þá. Um þennan síðari skatt, þ.e.a.s. söluskattinn í smásölunni, er það að segja, að það er vitað mál, — og það er hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. kunnugt um, — að þessi skattur kemur aldrei allur til ríkissjóðs. Málið liggur sem sé þannig fyrir, að einstaklingar geta notað og hafa notað skattaaðferð ríkisins til að innheimta tekjur í eigin vasa og skila þeim ekki í ríkissjóð. Þetta er svo langt fyrir neðan allar hellur og svo algerlega óverjandi, að það verður að koma fram einhverjum breytingum í þessu efni. Þess vegna mun Ég freista þess, þó að mér sé ljóst, að hér fæst ekki sú breyting fram að fella söluskattinn algerlega úr gildi, að leggja fram brtt. við 3. umr. um frv., þess eðlis, að söluskatturinn af vörum í smásölu verði felldur niður. Ég veit, að hæstv. fjmrh. muni svara því til, að þá mundi skatturinn að sjálfsögðu lækka. Það er rétt. Þetta er nokkur hluti af söluskattinum, sennilega 1/3 hluti, en ég vil benda hv. þm. á það, að þeir eru svo vanir vitlausum áætlunum frá þessum hæstv. ráðh. og það alltaf í sömu átt, þ.e.a.s., að hann áætlar og hefur lengi áætlað tekjur ríkissjóðs allt of lágar. Því er það, að þó að söluskattinum í smásölunni yrði sleppt, þá er það sannfæring mín, að raunverulegar heildartekjur ríkissjóðs mundu ekki verða lægri en þær eru áætlaðar í fjárlagafrv. Aðrir liðir þessara áætlana eru nefnilega það vitlaust áætlaðir samkvæmt fyrri reynslu, að þetta mundi ekki gera betur en að vega upp á móti þeim skekkjum, þannig að fjárlagaafgreiðsla hæstv. ríkisstj. gæti farið fram eins og ekkert hefði í skorizt þrátt fyrir þessa breyt. á söluskattinum.

Ég mun ekki að þessu sinni leggja fram skriflega brtt. við þessa umr., heldur óska eftir því, eins og hv. 1. landsk., að atkvgr. um málið verði frestað, svo að brtt. mín geti komið fram við 3. umr. í tæka tíð.