31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

177. mál, Greiðslubandalag Evrópu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefði verið æskilegt, — gæti náttúrlega verið eins við 3. umr. um þetta mál, — að þm. hefðu fengið dálítið nánari upplýsingar viðvíkjandi því, hvernig hagar til með okkar gjaldeyrisinnstæður og stefnu ríkisstj. um hagnýtingu þeirra. Hér er sem sé farið fram á að hækka raunverulega yfirdráttarheimild Íslands hjá Greiðslubandalagi Evrópu, sem undanfarin ár hefur verið 4 millj., upp í 8 millj. dollara, og það er tekið fram, að ríkisstj. álíti óhjákvæmilegt að stofna til bráðabirgðaskuldar við greiðslubandalagið næstu mánuði, því að annars yrði að takmarka verulega innflutning frá Vestur-Evrópu. Nú mundi ég vilja spyrja hæstv. ríkisstj., hvernig stendur okkar viðskiptajöfnuður við þau lönd í Austur-Evrópu, sem við höfum verið að auka mjög viðskiptin við upp á síðkastið. Mér er nær að halda, að við eigum, sérstaklega í Sovétríkjunum, inni allmikið fé. Og hvernig er stefna ríkisstj. um hagnýtingu á slíkum innstæðum, hvernig gengur það að tryggja, að við fáum einmitt frá þessum löndum, sem sé fyrir okkar fisk, þær vörur, sem okkur er nauðsynlegt, að fá? Mér er nær, að halda af kunnugleika mínum á öllum þessum málum, að innflytjendur hér á Íslandi, og ekki sízt sterku innflytjendurnir í Reykjavík, vilji ákaflega gjarnan haga- sínum viðskiptum á þann veg að verzla fyrst og fremst við sín gömlu viðskiptasambönd, ekki sízt í Vestur-Evrópu, og ég er hræddur um, að slíkt sé að nokkru leyti líka viðvíkjandi Bandaríkjunum, sem við höftin mjög neikvæðan verzlunarjöfnuð við upp á síðkastið, þó að greiðslujöfnuðurinn sé ofur lítið öðruvísi.

Það er vitanlegt, að hagsmunir ýmissa af þessum stóru innflytjendum gera það að verkum, að þeir vilja gjarnan viðhalda sínum gömlu samböndum, eins og vel er náttúrlega hægt að skilja. En þetta rekst bara á þá hagsmuni okkar Íslendinga sem heildar, að þau lönd, sem kaupa af okkur og eru jafnvel okkar stærstu markaðslönd nú, geti látið okkur þær vörur í té, sem við sérstaklega þyrftum að fá inn í landið.

Nú er það oft svo með t.d. vörurnar frá sósíalistísku löndunum, að til þess að geta hagnýtt þau viðskipti þurfum við að ákveða þau oft alllöngu áður. Ég þykist vita, við skulum segja, þegar hér er minnzt á raforkuframkvæmdir, t.d. spurninguna um rafalá og annað slíkt, að þá sé varla hægt að fá þess háttar tæki yfirleitt frá nokkrum löndum nú nema með allmiklum fyrirvara, þannig að ríkisstj. þarf að áætla slík viðskipti þó nokkuð mikið fyrir fram. Ég álít, að það gæti verið varhugavert, þó að það þurfi ekki að vera það almennt, að fara inn á þessa braut sem hér er lagt til, ef það yrði til þess, að það yrði farið að kaupa í stórum stíl að láni frá löndunum í Greiðslubandalagi Vestur-Evrópu vörur, sem við máske gætum fengið frá hinum löndunum. Væri ákaflega gott að fá upplýsingar um, hvernig þetta stendur. Ef við færum inn á slíkt, þá mundi það enda með því, að við mundum eyðileggja okkar markað í þessum löndum. Það er gefið, að viðskipti við þessi lönd byggjast á vöruskiptum. Og þó að það sé í verzlunarsamningunum ákvæði um, að ef einhverju skakkar þarna, þá sé hægt að gera kröfu til þess að greiða það í sterlingspundum, þá mundi beiting slíkra ákvæða í samningum þýða, að slík skipti mundu meira eða minna hætta, því að grundvöllurinn er raunverulega vöruskipti.

Það væri a.m.k. í sambandi við þetta mjög gott að fá upplýsingar um þetta, annaðhvort nú eða við 3. umr., því að ég er alveg viss um það, að með fullri hagnýtingu á okkar mörkuðum og þeim mörkuðum, sem okkur standa til boða, þá þurfum við ekki að vera í vandræðum með gjaldeyri. Ég veit, t.d. hvað hraðfrysta fiskinn snertir, þá hafa verið uppi óskir um að fá meira af honum og fljótar afgreitt heldur en gert hefur verið. En ég þykist hins vegar líka vita um leið, að okkar inneignir í þessum löndum muni nú þegar skipta allmörgum millj. kr.

Mér þætti sem sé vænt um, ef hæstv. ríkisstj. vildi gefa upplýsingar um þetta annaðhvort nú eða við 3. umr., ef hún væri því ekki viðbúin núna.