27.11.1953
Efri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta til. laga um Kirkjubyggingasjóð, sem

hér er til 2. umræðu, hefur menntmn. haft til meðferðar og rætt á tveimur fundum. Einn nm., hv. 4. þm. Reykv., var ekki mættur á þessum fundum og á því engan þátt í þeirri afgreiðslu, sem málið fékk í n. Aðrir nm. voru meðmæltir frv. og gáfu út sameiginlegt nál., sem hér liggur fyrir á þskj. 193, þó með þeirri athugasemd, að einn nm., hv. 1. þm: Eyf., áskilur sér óbundið atkvæði um frv. og annar nm., hv. þm. Hafnf., áskilur sér rétt til að koma fram með brtt.brtt. liggur nú fyrir, er á þskj. 194 og er um það að lækka tillag ríkisins til sjóðsins úr 1 millj. kr., eins og í frv. segir, í 500 þús. kr. á ári. Og er þá frv. orðið samhljóða því, sem það var á síðasta þingi, þegar það var fyrst flutt.

Við, flm. gátum til samkomulags sætt okkur við þá lausn málsins, sem í þessari brtt. felst, þótt möguleikar sjóðsins væru með því mjög skertir til lánveitinga fyrstu árin. Við litum svo á, að aðalatriðið væri að fá frv. samþykkt, hitt skipti ekki eins miklu máli, hvað sjóðurinn yrði sterkur fyrstu árin.

Það, sem fram kom að öðru leyti í menntmn. við meðferð málsins var það, að eins og nál. ber með sér viðurkenndu allir viðstaddir nm., að nauðsyn bæri til að styrkja söfnuði landsins til kirkjubygginga, og enginn neitaði því, að ríkisvaldinu væri skylt samkv. stjórnarskrárákvæði að hlaupa hér undir bagga, en á hitt væri einnig að líta, að um leið og stofnað væri til útgjalda fyrir ríkissjóð, yrði að sjá fyrir tilsvarandi tekjum, og á þessu atriði mun fyrirvari hv. þm. Eyf. byggður, og einnig með þetta sjónarmið fyrir augum að nokkru leyti mun brtt. hv. þm. Hafnf. fram komin, sem miðar að ,því að lækka fjárframlag ríkissjóðs í þessu skyni. Við flm. álitum hins vegar, að þar sem ekki væru enn samþ. fjárlög fyrir n.k. ár, væru möguleikar, ef vilji væri fyrir hendi, til að taka þessi útgjöld inn á fjárlögin, án þess að mikill skaði væri skeður fyrir ríkissjóð.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meir að sinni. Um frekari rökstuðning fyrir málinu get ég vísað til framsöguræðu minnar við 1. umr.

Ég vil aðeins geta þess, að áskoranir hafa fjölmargar borizt úr flestum prófastsdæmum landsins um að samþ. þetta frv., skora á Alþingi að samþykkja frv. Nú er komin fram brtt., sem voru samþ. fyrir afbrigði núna áðan, um leið og málið var tekið fyrir, frá hv. þm. Barð. Þá brtt. get ég vitanlega ekki sagt um, því að ég hef ekki haft tíma til að lesa hana, og bíð átekta um það, hvað hún hefur að flytja í þessu máli.